Eitt fyrsta kvennalið KA í knattspyrnu
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXVI
Fyrsti opinberi kappleikur kvenna í knattspyrnu hérlendis fór fram 20. júlí árið 1970. Þá mættust úrvalslið Reykjavíkur og Keflavíkur á Laugardalsvelli og Reykjavík vann 1:0; viðureignin var forleikur vináttulandsleiks karlaliða Íslands og Noregs sem Ísland vann 2:0.
Áhugavert er að nefna að knattspyrna kvenna var viðurkennd sem keppnisgrein hér á landi á ársþingi Knattspyrnusambands Íslands í febrúar árið 1971. Þetta er ekki grín, heldur stendur svart á hvítu þeirri frábæru bók Sigmundar Ó. Steinarssonar, blaðamanns, Stelpurnar okkar - Saga knattspyrnu kvenna á Íslandi frá 1914.
Eins og sjá má á titli bókarinnar kynntust stúlkur íþróttinni snemma á öldinni sem leið en þróunin var ansi hæg, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Fyrsta Íslandsmót kvenna í knattspyrnu innanhúss fór fram 1971 og fyrsta Íslandsmótið utanhúss 1972.
Fyrsti knattspyrnuleikur kvenna á Akureyri fór fram 25. júlí árið 1975 þegar Þór sigraði lið Keflavíkur 1:0 í vináttuleik á malarvelli félagsins í Glerárhverfi. Mynd er til af leikmannahópi Þórs, leit stendur yfir að henni í nægum gæðum til að birta og verður gert um leið og hægt er.
Á mynd dagsins er hins vegar fyrsta, eða eitt fyrsta, kvennalið KA í knattspyrnu. Myndin er að öllum líkindum tekin sumarið 1977. Ritstjóri Akureyri.net viðurkennir fúslega að þekkja margar þessara stúlkna en gefur ekkert upp að sinni! Lesendur verða að fá að spreyta sig; þeir eru hér með hvattir til að rýna vel í myndina og senda ábendingar um nöfnin á netfangið skapti@akureyri.net