Fara í efni
Tré vikunnar

Vöxtulegur víðir á sendnum svæðum: Jörfavíðir

TRÉ VIKUNNAR XXX

Í Alaska eru sagðar vera til 9 plöntuættir. Stærst þeirra er víðiættin, Salicaceae, með tvær ættkvíslir og 36 tegundir. Ættkvíslirnar tvær eru aspir, Populus og víðir, Salix. Víðiættkvíslin er mun stærri og innan hennar eru 33 tegundir ef marka má Viereck & Little (1972). Það segir sitt um mikilvægi víðitegunda að það lætur nærri að fjórða hver tegund viðarplantna í Alaska teljist til víðiættkvíslarinnar. Þeir Viereck og Little segja það augljóst að ástæða þess sé að svalt loftslag og votlendi séu ákaflega heppileg skilyrði til að mynda og þróa nýjar tegundir af víði.

Til samanburðar má nefna að innlendar víðitegundir á Íslandi eru aðeins fjórar. Því fögnum við auknum fjölbreytileika.

Tegundin sem við fjöllum um í dag tilheyrir víðiættkvíslinni en er hreint ekki algeng í Alaska samkvæmt elstu heimildum en reyndar er nokkuð málum blandið hversu algeng hún er.

 
Hér hefur víðir náð að sá sér út á Þjórsárbökkum og auðgað lífríkið. Jörfavíðir er þar á meðal og kann vel við lífið. Mynd: Sig.A.

Víðir í Alaska

Víðir er ákaflega fjölbreyttur í Alaska. Finna má tegundir sem eru jarðlægir dvergrunnar, uppréttir runnar sem verða um hálfur til tveir metrar á hæð, stórir runnar og lítil tré, sem oftast hafa fleiri en einn stofn. Það er ekki bara að hátt í fjórða hver tegund í Alaska sé víðir, heldur er engin önnur ættkvísl þar um slóðir sem myndar jafn margar tegundir sem ná því að verða það stór að kalla megi tré.

 
Elgur gæðir sér á víði í Alaska. Myndin fengin héðan en hana á tvirbickis.

Ýmis vandamál geta komið upp við að greina víðiættkvíslina til tegunda. Þar hjálpar ekki til að margar tegundir virðast geta myndað blendinga. Jörfavíðirinn er ein þeirra og er hann einnig talinn geta myndað blendinga á Íslandi. Að auki gerir það greininguna erfiðari að ýmsar tegundir geta verið býsna áþekkar á meðan aðrar geta myndað fjölbreytt afbrigði og undirtegundir. Ekki er alltaf augljóst hvar draga skuli mörkin milli tegunda og undirtegunda. Því er það svo að oft getur reynst afar flókið að greina í sundur sumar víðitegundir.

 
Sjálfsprottinn víðir á mel í Ölfusi sem friðaður hefur verið fyrir sauðfjárbeit í tvo áratugi. Af útliti blaðanna að dæma er móðirin jörfavíðir 'Katla' en faðirinn er óþekktur. Hann gæti verið loðvíðir. Tveir kílómetrar eru í næsta mögulega móðurtré eða fræuppsprettu jörfavíðs. Þar er víðiklónatilraun með 3 klónum jörfavíðis og 10 klónum alaskavíðis sem plantað var árið 1993 á sunnlenskum sandi. Tilraunin fór vel af stað, en á öðru ári varð hún að „beitartilraun“. Þar kom í ljós að sauðkindin sóttist meira eftir jörfavíði en alaskavíði, en ertuyglan meira eftir alaskavíði en jörfavíði. Mynd og upplýsingar: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Aftur á móti er það svo að tiltölulega auðvelt er að greina víðiættkvíslina frá öðrum ættkvíslum trjáa og runna. Það hefur leitt til þess að margur heimamaðurinn í Alaska er ekkert að hafa fyrir því að greina í sundur tegundirnar. Þetta er allt saman „víðirusl“ í þeirra augum og óþarfi að flokka það frekar!

 
Heimkynni jörfavíðis við Yakutat í Alaska. Þaðan er nær allur jörfavíðir sem ræktaður er á Íslandi. Myndin fengin frá flugfélagi á staðnum

Lýsing

Tré vikunnar er jörfavíðir, Salix hookeriana Barratt. Samkvæmt einni aðalheimild þessa pistils (Viereck og Little 1972) verður jörfavíðir í Alaska að jafnaði um 3-5 metrar á hæð en getur náð allt að 7,5 metra hæð með þvermál stofns upp á 20-40 cm. Óli Valur Hansson (1989) sagði að við bestu skilyrði geti hann nálgast eina 9 metra. Newsholm (1992) segir að hann geti orðið allt að 10 m á hæð en bendir jafnframt á að einstaklingar geta verið mjög mismunandi. Rétt er líka að hafa í huga að runni eða tré sem verður 10 metra hár sunnar á hnettinum þarf ekki endilega að ná þeirri hæð á Íslandi eða í Alaska.

Jörfavíðirinn 'Gáski'. Til vinstri er hann í vasa í apríl í húsakynnum Þallar í Hafnarfirði. Margar víðitegundir koma til greina í svona vorvendi. Fremst á myndinni grillir í bókina: Græðum hraun og grýtta mela. Mynd: Steinar Björgvinsson. Til hægri er sami klónn í ræktun í Nátthaga hjá Ólafi Njálssyni. Mynd: Ólafur S. Njálsson.

Hvað sem því líður getur jörfavíðir vaxið mjög hratt í æsku. Þegar blómgun hefst dregur að jafnaði úr hæðarvexti. Oftast nær byrjar hann snemma að blómgast þannig að sjaldgæft er að sjá jörfavíði á Íslandi sem er hærri en fimm metrar.

Laufin eru lík og á alaskavíði, Salix alaxensis (Anderss.) Cov., en þó er sá munur á að neðra borðið er ekki nærri eins ljóst. Er auðveldast að þekkja jörfavíði á þessu einkenni. Til einföldunar má segja að hann sé eins og alaskavíðir, nema neðra borð blaðanna.

Þrjú laufblöð af víði frá Alaska. Ekki er alveg auðvelt að þekkja alaskavíði og jörfavíði í sundur af efra borði blaðanna. Þegar neðra borð blaðanna er skoðað er munurinn augljós. Eitt blað af alaskavíðirinn, hin tvö af jörfavíði. Myndir: Sig.A.

Blöðin verða um 4-11,5 cm löng og 2-6 cm breið. Þau eru breiðust ofan við miðju. Þegar laufin byrja að vaxa eru þau mjög þétthærð. Smám saman fækkar hárunum á efra borði og það verður gljáandi undir haustið. Svo fá þau gula haustliti.

Brumin eru dökk og rauðbrún á litinn og töluvert hærð. Þau eru oft áberandi gild og löng.

Börkurinn grár og mjúkur en yngri greinar rauðbrúnar eða gulbrúnar. Þær eru bæði gildar og stökkar.

 

Jörfavíðir 'Katla' í bakka hjá gróðrarstöðinni Þöll í Hafnarfirði. Mynd: Steinar Björgvinsson.

 

24 hólfa fjölpottabakki af jörfavíði og kerra með moltu. Ljómandi gott landgræðslukombó fyrir landið sem sést á myndinni. Mynd: Stefán Þorgrímsson

Heimkynni

Í bókinni Alaska Trees and Shrubs eftir Viereck & Little (1972) segir að jörfavíðir sé með allra sjaldgæfustu trjám í Alaska. Hann er þar settur í flokk með þremur öðrum tegundum sem sjáist varla nema farið sé í sérstaka könnunarleiðangra með sérfróðu fólki. Hinar tegundirnar eru fjallaþinur, Abies lasiocarpa, kyrrahafsýr, Taxus brevifolia og silfurþinur, Abies amabilis. Allar þessar tegundir eru algengari sunnar í álfunni. Um þetta má lesa í þessum pistli sem við birtum þann 5. júlí síðastliðinn. Eitthvað er það þó málum blandið hjá þeim Viereck & Little þegar þeir segja þennan víði sjaldgæfan. Þetta var engu að síður byggt á bestu þekkingu þess tíma. Lengi vel var aðeins vitað um hann á einum stað í Alaska. Það var á svæði við þorpið Yakutat við samnefndan fjörð. Gekk sá víðir um tíma undir sérstöku fræðinafni, S. amplifolia en því hefur nú verið hafnað.

 
Þorpið Yakutat í Alaska. Lengi vel töldu menn að þarna væri eini vaxtarstaður jörfavíðis í Alaska. Það reyndist ekki rétt. Myndin er af þessari upplýsingasíðu um Yakutat.

Óli Valur Hansson (1922 – 2015) fór margar ferðir til Alaska að ná í efnivið fyrir íslenska skógrækt. Hann var manna skarpastur í að greina tegundir. Hann skrifaði grein árið 1989 þar sem hann sagði að bæst hefðu við nokkrir fundarstaðir frá því að Viereck & Little gáfu út sína bók. Nefnir hann þar nágrenni Miles Lake og Childsjökulinn. Seinna, þegar hann hafði oft farið til Alaska, fullyrti Óli Valur við undirritaðan að jörfavíðir væri mun algengari en sagt er frá í bókum. Hann má, samkvæmt þessu samtali, finna mun víðar en þessar sömu bækur halda fram. Fólk á þeim slóðum var bara ekkert endilega að greina hann frá alaskavíði. Fyrst Óli Valur hélt þessu fram er það örugglega rétt.

Annars vex jörfavíðir vítt og breytt nálægt Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku allt frá Alaska í norðri og suður til Kaliforníu samkvæmt Newsholme (1992).

 

Aðalsteinn Sigurgeirsson benti okkur á þetta kort sem sýnir útbreiðslu jörfavíðis. Hann er sagður með slitrótta útbreiðslu í Alaska, bundin við þá fáu staði þar sem eru víðáttumiklar sandstrendur fyrir opnu úthafi. Myndin er héðan og er frá Plantmaps.com

Vaxtarstaðir

Í Alaska vex þessi tegund við fjölbreyttar aðstæður og oftast nærri sjó. Hann þolir að vaxa á sandöldum nærri opnu hafi og almennt í allskonar sendum jarðvegi þar sem hann bindur jarðveg. Komið hefur í ljós að hér á Íslandi á þetta einnig við. Verður um það fjallað hér aðeins neðar. Hann finnst einnig í smáþyrpingum í Alaska á jökulmelum og í jöðrum þéttari barrskóga.

 

Sjálfsáinn víðir á bökkum Eyvindarár á Héraði í kjölfar beitarfriðunar. Alaskavíðir mest áberandi en jörfavíðir er þarna líka. Einnig birki og fleiri tegundir. Mynd: Sig.A. 

Nafnið

Latneska heitið S. hookeriana er til heiðurs enska grasafræðingnum sir. William Jackson Hooker (1785-1865). Hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa verið fyrsti yfirmaður Kew-Gardens þar í landi. Hann fór í sinn fyrsta rannsóknarleiðangur árið 1809 til Íslands á skipinu Margaret & Anne. Samskipa honum var maður að nafni Jørgen Jørgensen. Hann þekkjum við betur sem Jörund hundadagakonung. Báðir nutu þeir velvilja Sir. Joseph Banks til þessa ferðalags. Varð þetta að vonum nokkuð söguleg ferð enda lýsti Jörundur yfir sjálfstæði Íslands þetta sumar. Trampe greifi, æðsti maður Danakonungs á Íslandi, var þá handtekinn og geymdur sem fangi í þessu sama skipi.

Þrír klónar af jörfavíði úr ræktun Óla í Nátthaga. Fyrst er það 'Foldi', í miðið 'Gáski' og að lokum 'Taða'. Mynd: Ólafur S. Njálsson. 

Eftir að byltingunni var hrundið voru Trampe greifi og Jörundur fluttir nauðugir úr landi. Hooker og Trampe voru þá samskipa um borð í Margaret & Anne ásamt áhöfn skipsins Orions sem Trampe átti. Í því skipi var Jörundur geymdur sem fangi. Áhöfn Orions líkaði stórilla fangavistin og kveiktu í ullarfarmi um borð. Er skipið Orion bar að garði var þetta orðið mikið bál. Var öllum bjargað yfir í Orin en skipið Margaret & Anne sökk með farmi sínum. Hooker glataði þarna öllum sínum safngripum og minnispunktum úr ferðinni. Varð því leiðangur hans til Íslands ekki eins gagnlegur vísindunum og til stóð, en sögulegur varð hann.

 
Sir William Hooker árið 1834. Myndin fengin héðan.

Á íslensku gengur þessi tegund undir heitinu jörfavíðir. Eldri heiti á honum eru elgvíðir, cordovavíðir og yakutatvíðir. Síðasta nafnið var notað vegna þess að fyrst fannst þessi víðir í Alaska við þorpið Yakutat (Óli Valur 1989) en hann barst hingað fyrst frá fiskiþorpinu Cordova við Prins William flóa. Jörfi (eða jörvi) er fornt orð í íslensku. Íslensk orðabók gefur upp merkinguna langt melholt, sandbakki eða melhryggur. Einnig möl eða mót blauts og þurrs jarðvegs (Mörður 2005). Er það vel til fundið að endurvekja þetta nafnorð í heiti víðisins enda lýsir það vaxtarstöðum hans.

Græðlingar af jörfavíði sem hinn mikli landgræðslumeistari Kjartan Benediktsson klippti í mars 2023 til að nýta til landgræðslu. Klónninn er 'Kólga' en Kjartan ræktar líka klónana 'Kötlu' og 'Töðu'. Á myndinni til hægri klippir Kjartan græðlingaefni til landgræðslu. Myndir: Úr fórum Kjartans Benediktssonar.

Á Íslandi er jörfavíði eingöngu fjölgað með græðlingum þótt hann geti vel myndað fræ. Með græðlingaræktun fá allir afkomendurnir sama erfðaefnið og móðurplönturnar. Það köllum við klóna. Hver klónn hefur sitt eigið nafn og eru helstu klónarnir nefndir í þessari grein. Allir klónarnir tilheyra samt tegundinni jörfavíði. Af honum eru nú til nokkrir tugir klóna en aðeins fáir þeirra eru í almennri ræktun.

 
Jörfavíðirinn 'Sandi' í limgerði við tjaldstæðið í Höfn í Hornafirði. Mynd: Steinar Björgvinsson.

Innflutningur

Þegar farið var að leita hófanna í Alaska eftir efniviði í íslenska skógrækt beindust sjónir manna fyrst að þeim trjám sem líklegar voru taldar til að mynda skóga sem heppilegir væru til viðarframleiðslu. Víðitegundir lentu því undir ratsjánni. Óli Valur Hansson sagði frá því í grein að fyrstu alaskavíðiplönturnar hefðu komið árið 1952 (Óli Valur 1989). Sennilega rataði enginn jörfavíðir með honum í það skiptið.

 

Höfðingjarnir Jóhann Pálsson (til vinstri) og Óli Valur Hansson (til hægri) á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri árið 1994. Þar var víðir úr söfnun Óla Vals skoðaður. Blessuð sé minning þeirra beggja. Myndir: Sig.A.

Jóhann Pálsson (1931-2023) segir frá því í tímamótagrein sinni um víði (1997) að Haukur Ragnarsson hafi komið með jörfavíði árið 1963. Haukur tók þennan víði suðaustan við fiskiþorpið Cordova við Prins William flóa. Það var þó ekki fyrr en í kringum 1980 að farið var að fjölga honum. Fyrst hjá Skógrækt ríkisins á Tumastöðum í Fljótshlíð og síðan já Skógræktarfélagi Reykjavíkur (Jóhann 1997, Ólafur 2005). Það vekur athygli hve seint farið var að fjölga þessum víði. Sennilega spilar þar inn í að mörgum þykir alaskavíðirinn einfaldlega fallegri, þar sem meiri litamunur er á efra og neðra borði blaðanna eins og áður greinir. Aftur á móti segir Newsholme (1992) frá því í bók sinni um víði að hann sé „outstanding ornamental“ eða framúrskarandi skrautmunur svo notuð sé þýðing þýðingarvéla á netinu. Telur Newsholme að það séu hin fögru blöð sem gera hann eftirsóknarverðan sem og fallegir karlreklar. Hérlendis er jörfavíðir ekki notaður sem sérstakur skrautrunni en klónninn ´Gáski´ kemur þar vel til greina, enda mjög tilkomumikill í blóma. Víðirinn sem Haukur flutti inn árið 1963 er sá sem kallaður var yakútatvíðir þegar hann fór fyrst í ræktun. Yakutat er órafjarri Cordova en þar var fyrsti fundarstaður hans í Alaska. Þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur fór að rækta hann gekk hann undir nafninu cordovavíðir, en nú hefur hann klónaheitið ´Sandi´(Samson 2023, Ólafur 2005).

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00