Fara í efni
Tré vikunnar

Sjálfsprottnir skógar á Þelamörk

TRÉ VIKUNNAR - XXXIV

Þegar ekið er eftir Hörgárdal verður ekki hjá því komist að taka eftir uppvaxandi skógum. Á það jafnt við um nánast allan dalbotninn og þær hlíðar sem ekki eru beittar eða nýttar sem tún. Allur neðri hluti Hörgárdals að austanverðu heitir Þelamörk. Það er einkar vel viðeigandi að svæðið sem kallast Þelamörk skuli nú klæðast sístækkandi skógi enda merkir orðið mörk skógur. Ekki nóg með það. Einn bærinn á Þelamörk heitir meira að segja Skógar.

Engum vafa er undirorpið að Þelamörk var einu sinni skógi vaxin. Svo hurfu skógarnir. Nú er mörkin að færa sig upp á skaftið, ef svo má segja. Sumt af þessum trjám var plantað, önnur eru að spretta upp sjálf í kjölfar friðunar. Í þessum pistli verður fjallað um sjálfsprottnu skógana á Þelamörk og í öllum Hörgárdal. Við skoðum líka eldri heimildir til að reyna að átta okkur á sögu skóglendisins. Einnig veltum við fyrir okkur hvenær farið var að tala um svæðið sem Þelamörk.

Horft yfir Hörgá í átt að Þelamörk 27. júní 2023. Mynd: Sig.A.

Fornar sögur

Steindór Steindórsson frá Hlöðum skrifaði grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands árið 1950 um skóga í Eyjafirði. Tilefnið var 20 ára afmæli Skógræktarfélags Eyfirðinga. Það sem í þessum kafla er skrifað er fyrst og fremst úr grein Steindórs. Þess má geta að í því sama riti er grein um félagið eftir Ármann Dalmannsson. Ritið má sjá hér í rafrænni útgáfu.

Steindór segir að þótt ekki sé víða minnst á skóga í hinum eyfirsku fornsögum má verða ljóst af lestri þeirra að hér voru þroskamiklir skógar. Í Valla-Ljóts sögu segir að skógur hafi verið víða um héraðið. Höfundur (eða skrásetjari) sögunnar staðfærir þessa skóga ekki nánar. Steindór tiltekur svo ýmiss dæmi sem sögurnar herma um skóga í Eyjafirði. Þegar kemur að Þelamörk er helst að nefna að í Ljósvetninga sögu segir frá því er Guðmundur ríki og Þórlaug kona hans riðu frá veislunni á Bægisá. Þá komu þau í skógana hjá Laugalandi.

Sá sem þetta ritar komst að því við lestur þessarar sögu að hvergi sést orðið Þelamörk þótt talað sé um skóga í þeim hluta Hörgárdals sem nú heitir því nafni.

Seinna í greininni segir Steindór: „En svo virðist, sem skógarnir hafi verið farnir að minnka á dögum sagnaritaranna á 12. og 13. öld.“ Því til sannindamerkis nefnir hann að mjög sjaldan er minnst á skóg í Sturlungu. Þó tiltekur hann tvö dæmi, en hvorugt þeirra á við um Þelamörk. Því má bæta við, fyrst við höfum nefnt Valla-Ljóts sögu, að þar er í tvígang tekið fram (hvorugt skiptið tengt Þelamörk) að þegar sagan gerist hafi víða verið skógar. Það bendir til þess að minnsta kosti sumir þeirra hafi verið horfnir á ritunartímanum.

Víða er gróskumikið og fallegt í Hörgárdal. Ekki spillir ungskógurinn útsýninu. Handan ár má sjá gilið sem Bægisá hefur grafið. Hún myndar landamerki Hörgárdals og Öxnadals. Þelamörk nær að þessu gili. Mynd: Sig.A.

Fornbréfasafn

Steindór lét ekki staðar numið eftir að hafa pælt í gegnum allar eyfirskar fornsagnir. Hann skoðaði líka íslenskt fornbréfasafn. Í þeim leynast upplýsingar um skóga sem uxu á Íslandi frá um 1300 til 1600 eða þar um bil. Það sem hér er haft úr fornbréfunum um skóga á Þelamörk er nánast beint úr grein Steindórs en í henni er betur vísað í heimildir. Bréfin sjálf eru ekki handbær þeim er þetta ritar.

Vaglir - 1461-1525. Samkvæmt máldaga Möðruvallaklausturs 1461 á klaustrið skógarparta í Vaglajörð suður frá Fornhagaskógi og til Kiðalækjar, frá Dunhagaskógi og ofan þaðan. Þessi ákvæði eru óbreytt í registri frá 1525. Af þessu er ljóst, að þá hefur verið mikill skógur í Vaglalandi, og hefur hann legið þar, sem enn heitir Vaglaskógur. Rétt er að geta þess, fyrir þá sem ekki eru staðkunnugir, að Vaglaskógur á Þelamörk er allt annar skógur en Vaglasgkógur í Fnjóskadal.

Steðji - 1495. Árið 1495 var Neðri-Lönguhlíð í Hörgárdal seld. Kallast hún nú Skriða. Meðal eigna jarðarinnar eru taldir „allir skógar í Steðja jörðu upp í fjall og ofan í á út að Kiðalæk og suður í móts við Auðbrekkuskóg (sbr. Skóga), nema Steðji skyldi eiga eldivið sem honum þarfnaðist.“

Skógar - 1375-1445. Í sölubréfum Auðbrekku árið 1375 segir að Auðbrekka eigi „skógarstöðu í Skógaland svo víða, sem Auðbrekka hefur átt að fornu, á Skógajörð árlega laupshögg í settu takmarki“. Af þessu ákvæði er að sjá, sem Skógar hafi sjálfir átt litlar nytjar sinna eigin skóga líkt og Steðji. Passar það ágætlega við Jarðabókina sem við nefnum hér neðar.

1430 segir að Auðbrekka eigi „skógarhrís í Skógaland“ en 1445 eigi „skógarhrís í Skógajörðu“ og 1445 „allan skóg í Skógajörðu“. 1479 er ítakinu sleppt. Ef til vill mætti draga af því þá ályktun, segir Steindór, að þá hafi skógarnir verið orðnir svo rýrir, að ekki hafi þótt taka því að telja þá meðal gæða jarðarinnar.

Ás - 1452-1525. Í vitnisburðarbréfi Einars Magnússonar 1452 um ítök Möðruvallaklausturs í Ásjörðu segir hann, að skógurinn Maríuhrís milli Auðbrekkuskógs og Vindheimaskógs var haldinn gömul eign klaustursins. „Ræður út við Auðbrekkuskóg jarðkross lagður af steinum og svo langt suður, sem réttsýni ofan á Ásgerði, og svo út frá gerðinu ið neðra til móts við Auðbrekkuskóg en upp svo langt sem skógur vex.“ Ennfremur segir hann „að staðarins ráðsmenn um næstu 20 ár framan til mannplágunnar hafi bæði látið höggva timbur og vinna til kola í nefndum skógi klaustursins vegna“. Í máldaga klaustursins 1461 er skógarparturinn Maríuhrís nefndur meðal eigna þess og sömuleiðis í Sigurðarregistri árið 1525.

Árið 1454 hefur verið uppi ágreiningur um hvort Vindheimar ættu ítak í Ásskóg árlega svo mikið, „sem jörðunni þarfnaðist að hafa“. Skyldi Vindheimabóndi höggva skóginn þangað til sannað yrði með eiði, að Vindheimar ættu eigi áður greint ítak.

Séð yfir skógræktarsvæðið á Laugalandi árið 1999. Fjær sést í Vaglaskóg. Sjálfsprottinn trjágróður ekki eins áberandi og nú er. Myndina tók Hörður Geirsson og birtist hún ári síðar í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar.
 

Svo tekur Steindór þetta saman um skógana á Þelamörk og segir: „Af undanfarandi vitnisburðum er ljóst, að fram á 15. öld að minnsta kosti, og jafnvel fram yfir 1500, hefur land allt milli Krossastaðaár og Fossár á Þelamörk verið skógi vaxið. Hins vegar er vert að veita því athygli, að allar höfuðjarðirnar vestan Hörgár frá Möðruvöllum að Skriðu, eða Möðruvellir, Dunhagi, Auðbrekka, Fornhagi og Skriða eiga þarna ítök, eða réttara sagt, þær eiga raunverulega mestar skógarnytjarnar. Þetta þykir mér benda til þess, að skóglaust hafi þá verið orðið vestan árinnar.“

Rétt er að benda á að í þessum beinu tilvitnunum sem Steindór vísar í kemur orðið Þelamörk hvergi fyrir. Hvernig ætli standi á því? Var orðið ef til vill ekki í almennri notkun á þessum öldum?

Kort af Hörgárdal fengið af map.is. Inn á kortið er merkt með rauðu: A, B og C. A er við Bægisá, B við Fossá og C við Krossastaðaá. Þótt Þelamörk sé talin ná allt frá Bægisá er að sjá sem skógar framan (innan) við Fossá hafi lengi vel verið harla litlir. 

Jarðabókin og Þelamörk

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er ákaflega merkileg heimild um landsins gagn og nauðsynjar á fyrri hluta 18. aldar. Sjálf Jarðabókin er ellefu bindi. Tíunda bindið fjallar um Eyjafjarðarsýslu. Sá hluti sem fjallar um Þelamörk var „skrifuð og samantekin eftir almúgans tilsögn og unirrjettíng Anno 1712, fyrst að Bæisá á Þelamörk þann 6. Junii. . . „ (Árni og Páll bls. 103). Sá sem hér situr og pikkar á tölvu hefur ekki fundið eldri heimild um notkun orðisns „Þelamörk“.

Í undirmálsgrein á bls. 172 í þeirri útgáfu sem við notum segir að á lausum miða standi: „Þelamörk heitir á millum Bæisár og Krossastaðaár, en frá Krossastaðaá og út að sjó þykjast menn ei vita hvað heiti. Sumir kalla það Þelamörk, so sem fyrir framan Krossastaðaá.“

Krossastaðaá rennur í fallegu gili sem hún hefur grafið. Sjá má hvernig birkið sækir á. Það gæti hafa leynst í sverði í landi Krossastaða (til vinstri) en líklegra er að það hafi sáð sér frá Vöglum (til hægri). Takið eftir trjánum uppi á hjallanum sem ekki sjást frá þjóðvegi. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir þann 25. ágúst 2023.
 

Þess má geta að Krossastaðaá rennur á landamerkjum Vagla og Krossastaða.

Ef Þelamörk nær aðeins þangað, þá er Þelamerkurskóli alls ekki á Þelamörk. Allir virðast sammála um að Þelamörk nái inn að Bægisá og við göngum út frá því að Þelamörk nái töluvert lengra út en að Krossastaá enda mun svo vera í munni flestra á okkar dögum. Almennt er nú talið að Þelamörk nái að mörkum sveitarinnar að utanverðu. Sumir segja að hún nái að Moldhaugnahálsi(Sesselja Ingólfsdóttir 2023) og á upplýsingasíðu Hörgársveitar segir að nyrsti bær á Þelamörk sé Skipalón. Hvoru tveggja getur vel staðist og stangast ekki á. Við sláum því föstu að Þelamörk nái frá Bægisá og út alla sveitina.

Krossastaðaá á Þelamörk. Mynd: Sig.A.
 

Af lestri Jarðabókarinnar sést að þeir skógar sem enn standa, þegar bókin er skrifuð, eiga undir högg að sækja og það í bókstaflegri merkingu. Þó eru þarna enn töluverðir skógar. Er þar fyrst að telja skógana í Ási, Skógum, Steðja og á Vöglum. Allra þeirra er einnig getið í fornbréfunum hér að framan. Þetta eru jarðirnar sem liggja milli Krossastaðaár og Fossár (sjá kort hér að framan). Jarðabókin lýsir þessum skógum á líkan hátt. Þar er alls staðar eyddur skógur til raftviða en nægur til kolagerðar og eldiviðar. Þess er einnig getið að um þær mundir eyðast skógarnir mikið og falla í fauska, eins og það er orðað. Ekki er talað um skóga á jörðunum frá Ási að Bægisá og því er í þessari grein ekkert fjallað um þá.

Fossá er ekki vatnsmikil en í henni eru margir, snotrir fossar. Myndin fengin af síðu Ferðafélags Akureyrar þar sem gönguferð upp með ánni er auglýst.

Rétt er þó að nefna að margt bendir til að ábúendum hafi þótt heppilegast að gera sem minnst úr kostum jarða sinna en þeim mun meira úr göllunum. Því kemur víða fram að öllum jarðargæðum er að hnigna frá því sem áður var. Líklegt er að hér sé ekki eingöngu um almennan barlóm að ræða heldur varfærni til að tálma því að hið nýja jarðamat hefði hækkandi afgjöld og álögur í för með sér. Samt má læra margt af Jarðabókinni um hnignun skóga. Vaxandi landeyðing vegna uppblásturs, skriðufalla og vatnaágangs er einnig víða getið. Má vafalítið tengja það við skógareyðinguna, því skógar draga úr slíku.

Fróðlegt er að lesa kaflann um bæinn Skóga. Hvernig voru skógar á þeim bæ sem er sagður „síðasti bær í Bæisár sókn“ og kenndur er við hinn forna skóg er þarna óx? Þar stendur: „Skógur til raftviðar er eyddur, en nægur enn þá til kola og eldiviðar, og brúkast átölulaust til búsnauðsynja. Auðbrekka á þó allan þennan skóg á Skóga jörðu eftir máldaganum og brúkar hann bæði til kola og eldiviðar, eyðist því mjög og fellur í fauska þar með.“ Grastekja er varla teljandi á þessari jörð og um hana segir meðal annars: „Engjar öngvar, nema það lítið sem hent er innan um skógarrunna, eður það lítið sem hent verður híngað og þángað innan um úthaga.“

Í Jarðabókinni er getið um ýmsa skóga á þessu svæði og hverjir áttu þar skógarítök. Oftast eru það stórbýlin handan ár er áttu skógarítökin enda er að sjá sem skógar þeim megin árinnar séu með öllu horfnir á ritunartíma bókarinnar. Því hefur Steindór frá Hlöðum sennilega haft rétt fyrir sér þegar hann dró sömu ályktun út frá lestri fornbréfanna. Auðbrekka átti allan skóg í Skógalandi, en Skriða í Steðjalandi umfram það, er þurfti til heimilisnota á þessum býlum. Í landi Vagla áttu Laugaland, Möðruvellir, Stóri Dunhagi og Fornhagi skógarítök og „nýtti hver sinn skógarpart.“ Möðruvallaítakinu er lýst þannig að skógurinn sé öldungis ónýtur til allra gagnsemda. Þessi miklu ítök stórbýla í skógum á Þelamörk segja sína sögu um mikilvægi skóganna en jafnframt segja þeir okkur hvað ásóknin var mikil.

Ljóst má því vera að víðáttumiklir skógar voru í upphafi 18. aldar á Þelamörk en voru þá allir á fallandi fæti. Þeir hafa verið allt frá Fossá og útfyrir Laugaland. Erfiðara er að átta sig á því hversu hátt í hlíðarnar skógurinn náði. Á okkar dögum ræðst það fyrst og fremst af girðingum.

Horft yfir Hörgáreyrar 25. ágúst 2023. Þarna er gulvíðir og loðvíðir mest ábarandi. Fjær sér í sjálfsprottið birki á Vöglum og gróðursett barrtré. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.

 

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00