Fara í efni
Tré vikunnar

Hvernig var sumarið?

TRÉ VIKUNNAR - XLII

Eins og alkunna er þá er það sérstök þjóðaríþrótt á Íslandi að tala um veðrið. Aftur á móti er veðurminni manna ekki endilega í samræmi við þennan almenna áhuga. Snemma í sumar, nánar tiltekið þann 14. júní, birtum við pistil sem heitir: Hvað kom fyrir aspirnar? Þá voru margar aspir nær lauflausar þótt almennt væri gróður að fullu laufgaður. Í þeim pistli fórum við yfir hvaða veðurfarslegu þættir hefðu getað valdið þessu. Þar kom fram að veðrið í sumar gæti haft áhrif á hvort aspirnar gætu náð sér og undirbúið sig fyrir haustið. Því er vert að skoða sumarveðrið og reyna að meta það með tilliti til gróðurs.

Haustmynd úr Lystigarðinum. Almennt hefur sumarið farið vel með gróður. Mynd: Sig.A.

Þættir

Þegar kemur að vexti planta skiptir veðrið og aðgengi að vatni og næringarefnum höfuðmáli. Meðal veðurfarsþáttanna má nefna birtu, vind, úrkomu og hita.

Þegar kemur að hita eru það einkum þrír þættir sem skipta máli. Í fyrsta lagi er það sá skortur á hita sem við köllum frost. Frost, einkum mikið frost, getur haft neikvæð áhrif á gróður eins og vænta má.

 
Lystigarðurinn þann 15. maí 2023. Þarna fer ekki mikil ljóstillífun fram. Mynd: Sig.A.

Í öðru lagi eru það dagar þar sem hitinn fer yfir tiltekið lágmark. Misjafnt er milli tegunda hversu mikinn hita þarf til ljóstillífunar en þótt frostlaust sé dögum saman er óvíst að sumar tegundir hefji ljóstillífun. Hún fer ekki í gang fyrr en ákveðnum hita er náð. Mest er ljóstillífun tiltekinna tegunda innan ákveðins hitastigs en hér á landi þurfum við sjaldan að óttast að of heitt verði fyrir margar trjátegundir. Öðru máli gegnir um sumar jurtir. Sumar þeirra vaxa eingöngu á hálendinu, því of hlýtt er á láglendi. Í þessu sambandi er rétt að nefna að það er hitinn í laufunum sjálfum en ekki lofthitinn sem ræður ljóstillífun. Þannig getur vindur eða skuggi dregið úr hita í laufum þótt lofthitinn sé nokkuð hár.

 
Mynd úr bókinni Elements of Ecology sem sýnir samband milli ljóstillífunar (photosynhtesis) og hita í laufum tiltekinna plöntuættkvísla. Aðeins síðasttalda ættkvíslin, Atriplex (hrímblaðka), hefur nafn á íslensku ef marka má Íðorðabanka Árnastofnunar. Rétthafi myndar ©: Pearson Education, Inc.

Í þriðja lagi er það uppsöfnuð hitasumma. Vöxtur fer á stað hjá flestum tegundum þegar uppsöfnuð hitasumma fer yfir tiltekið magn og vöxturinn yfir sumarið ræðst meðal annars af þessari hitasummu. Góðir, hlýir dagar nýtast ekki eins vel ef kaldir dagar koma inn á milli. Í þessari grein skoðum við fyrst svokölluð „sumargæði“ og síðan skoðum við uppsafnaða hitasummu.


Haustið er fallegt. Myndin tekin þann 28. september 2023. Mynd: Sig.A.

Sumargæði

Vilhjálmur Lúðvíksson skrifaði fróðlegar greinar í Garðyrkjuritið árið 2014 og 2023 um áhrif hitastigs á gróður. Í þessum greinum kynnti hann til sögunar ágætan mælikvarða á gæði íslenskra sumra. Þennan kvarða byggði hann á hugmyndum Trausta Jónssonar, veðurfræðings, sem heldur úti bloggsíðunni Hungurdiskum. Trausti byggir gæðakvarðann á fjórum daglegum mælingum á hitastigi, úrkomu og sólskini á hverjum einasta degi í júní, júlí og ágúst. Með tilliti til þessara þátta gefur hann hverjum degi einkunn. Út frá þeirri daglegu einkunn er hægt að reikna út meðaltal hvers mánaðar og gefa heildareinkunn sumarsins með því að leggja mánaðartölurnar saman (Vilhjálmur Lúðvíksson, 2023).

Í grein sinni birtir Vilhjálmur skilgreiningar Trausta. Tvö af línuritunum, sem fylgja þessum kafla, eru úr grein Vilhjálms en unnin af Trausta. Hin tvö eru af Hungurdiskum. Trausti er búinn að bæta við einkunn fyrir sumarið 2023 eins og sjá má hér: Sumareinkunn Reykjavíkur og Akureyrar 2023 - trj.blog.is Þess vegna notum við þau línurit í þessari grein en ekki línuritin úr grein Vilhjálms sem eru að fullu sambærileg.

Fyrri línuritin sýna hve ólík sumarveðrin geta verið á Akureyri og í Reykjavík. Um leið gefa þau upplýsingar um af hverju þrif og ræktunarárangur hinna ýmsu plantna getur verið ólíkur eftir landshlutum. Í sinni grein bendir Vilhjálmur á að fjöldi góðra sumardaga á tímabilinu 1848 til 2022 er jafnaði tvöfalt fleiri á Akureyri en í Reykjavík, eða 40 á móti 20.

Sumar plöntur taka þessum dögum með miklu þakklæti en aðrar vilja frekar hafa sumarið sem lengst til að ljúka vexti áður en frystir. Almennt þrífast slíkar plöntur betur fyrir sunnan en norðan. Plöntur sem treysta á góðu dagana og vilja hærri hitasummu vaxa betur fyrir norðan, ef frost hamla ekki vexti á vorin og haustin.

Rétt er að taka fram að Trausti lítur á þessa íþrótt sína sem leik, frekar en vísindi. Í alþjóðlegum samanburði er september gjarnan talinn til sumarmánaða en meðalhitinn í þeim mánuði nær sjaldan meðalhita sumarsins hér á landi og því vafamál hvort telja skuli hann með. Þess vegna sleppir Trausti þeim mánuði í þessum útreikningum.

Rauða línan sýnir tíu ára meðaltal. Sjá má að sumarið 2023 er í góðu meðallagi. Á Akureyri kom júlímánuður í veg fyrir að það næði sumrinu 2021 en engu að síður var sumarið vel yfir 10 ára meðaltalinu eins og sjá má. Sumarið fyrir sunnan var líka yfir meðaltali. Myndir: Trausti Jónsson.

Uppsafnaður hiti

Bergsveinn Þórsson, starfsmaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, hefur í mörg ár stundað þá íþrótt að skoða veðurfarsgögn sem segja meira til um gæði veðursins en okkar stopula minni. Í þessum kafla skoðum við línurit sem hann hefur gert og segja sína sögu um sumarið í sumar. Hér er það uppsafnaður hiti sem athyglin beinist að og fær september að vera með. Í hverju myndriti fyrir sig er sagt hvort miðað er við þá daga þar sem hitinn fer yfir 5°C eða yfir 1°C. Dagarnir þar sem hitinn fer yfir 5 gráður dugar flestum trjátegundum til ljóstillífunar ef aðrir þættir skekkja dæmið ekki þeim mun meira.

Hér er sýndur hiti undanfarinna ára í einu línuriti. Ritið sýnir meðalhita hvers dags en til að minnka óróleika í línum er um 7 daga keðjumeðaltal að ræða fyrir hvern dag. Línurnar merkja árin frá 1019 til 2023. Árið 2023 er merkt rautt. Vel sést hvað mars var kaldur eftir hlýjan febrúar. Kuldakastið í endaðan apríl sést einnig vel. Líklegt er að þá hafi blómvísar á mörgum trjám skemmst sem leiddi til lítillar blómgunar í sumar hjá ýmsum skrautrunnum. Svo koma hinir hlýju mánuðir maí og júní. Í þeim báðum má sjá fáheyrða toppa. Þarna má einnig sjá að júlímánuður var kaldari en við eigum að venjast. Ljósbláa línan sýnir hið frábæra sumar 2021. Þar eru júlí og ágúst mjög hlýir. Hina miklu blómgun í öllum trjám árið 2022 má rekja beint til hins góða sumars 2021. Mynd: Bergsveinn Þórsson.
 
Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar
 
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00