Fara í efni
Tré vikunnar

Hvað vitum við fyrir víst um hrafnþyrni?

TRÉ VIKUNNAR - XXXVI

Smátt og smátt nálgast haustið með litadýrð sinni. Í síðustu viku skoðuðum við runnamurur sem einmitt eru í fullum blóma núna. Í þessari viku skoðum við trjátegund sem er ekki mikið ræktuð á landinu bláa en mætti alveg sjást víðar. Þetta er tré sem fær ótrúlega fallega haustliti og fær þá vanalega heldur fyrr en flestar aðrar tegundir. Eins og svo margt við þessa tegund er það reyndar dálítið málum blandið. Tré vikunnar er hinn fágæti hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca Maxim. Þeir sem vilja fræðast meira um hverfulleika haustlitanna geta skoðað þennan pistil okkar frá því í fyrra.

 
Vísir að trjásafni í Vaglaskógi í ágúst 2017. Hrafnþyrnirinn er kominn í þessa fínu haustliti, langt á undan öðrum gróðri. Mynd: Sig.A.
 

Þyrnir, Crataegus spp.

Hrafnþyrnir tilheyrir ættkvísl sem á latínu kallast Crataegus spp. og er af rósaætt, Rosaceae, rétt eins og runnamururnar sem við skoðuðum fyrir viku. Rósaættin er mjög stór og ættkvíslirnar vitanlega misjafnlega skyldar innbyrðis. Þyrniættkvíslin er talin náskyld reynivið, eplum og perum (Hjörtur Þorbjörnsson 2018).

 

Hrafnþyrnir, með pýramídalagað vaxtarlag, í Lystigarðinum á Akureyri í ágúst 2023. Haustlitir orðnir áberandi en hann á eftir að roðna enn meira. Mynd: Sig.A.

Talið er að ættkvíslin hafi komið fyrst fram einhvers staðar á mörkum Evrópu og austurhluta Norður-Ameríku áður en Atlantshafið varð til eða var að minnsta kosti ekki sá farartálmi sem síðar varð. Þaðan hafa plöntur borist um allt tempraða beltið nyrðra og ættkvíslin vex nú í Evrópu, Asíu, Norður-Afríku og Norður-Ameríku. Því kemur það ekki á óvart að tegundir ættkvíslarinnar hafi vaxið á Íslandi á tertíer. Minjar um tegundina hafa fundist í að minnsta kosti tvennum jarðlögum. Annars vegar í jarðlögum sem kennd eru við Tröllatungu-Gaukshamar og hins vegar við Hreðavatn-Stafhollt. Þau fyrri eru talin um 10 milljón ára gömul en þau síðari 7-6 milljón ára gömul (Denk & Grímsson 2011). Seinna munum við fjalla nánar um þessa ættkvísl í sérstökum pistli.

 

Haustlitir hrafnþyrnis eru ótrúlega rauðir! Mynd: Helgi Þórsson.

Nafnið 

Fræðiheitið Crataegus er úr grísku og er sett saman af orðunum kratos sem merkir styrkur og akis sem merkir hvass. Þessi orð vísa annars vegar í hinn sterka við sem tréð framleiðir og svo hina hvössu og öflugu þyrna sem vaxa á flestum tegundum. Sumir telja reyndar að hvoru tveggja vísi í þyrnana enda eru þeir líka sterkir.

 

Hrafnþyrnir í Vaglaskógi. Hann hefur ekki verið klipptur í æsku og er margstofna. Mynd: Sig.A.

Þegar kemur að viðurnefninu chlorosarca vandast málið. Þar verðum við aðeins að giska í eyðurnar. Chlori getur merkt klór, en orðið er stundum notað yfir eitthvað sem er aðskilið. En hvað er það þá sem er aðskilið hjá þessari tegund en ekki öðrum þyrnum? Seinni liður orðsins er sarca. Orðið merkir kaldhæðni. Hvers konar nafn er „aðskilin kaldhæðni“ og hvað getur það merkt?

 

Hrafnþyrnir í trjásafninu í Melatungu þann 10. september 2023. Mynd: Kristján Friðbertsson.

Sem betur fer fundum við, með grúski á netinu, að forðum barst orð úr arabísku yfir í latínu sem notað var yfir þyrna eða þyrnótta runna. Orðið er sarça og er enn til í portúgölsku samkvæmt þessari síðu. Ef við höfum skilið þetta rétt merkir viðurnefnið eitthvað í líkingu við „með staka þyrna“. Það getur vel passað, en reyndar passar það við nokkrar aðrar tegundir ættkvíslarinnar. Þau eintök sem við höfum skoðað af þessari tegund hafa mjög fáa þyrna og langt er á milli þeirra. Viðurnefnið gæti vísað í það. Ef það er rangt verðum við bara að viðurkenna fáfræði okkar í bótanískri latínu. Höskuldur Þórhallsson (2023) benti okkur á að chlorine geti verið úr grísku þar sem χλωρος (chlōros) geti merkt grængulur. Hann sagði okkur líka að sarca geti í latínu verið fleirtölumynd og merkt pokar eða sekkir. Þar með geti latínuheiðið merkt grængulir sekkir. Þá eigum við bara eftir að finna út hverjir þessir grængulu sekkir eru sem einkenna tegundina. Hér að ofan eru komnar þrjár tilgátur um merkingu viðurnefnisins, hverri annarri gáfulegri. Ef við fáum frekari upplýsingar getum við birt þær hér fyrir neðan. Eins og svo margt annað lítur út fyrir að þetta viðurnefni sé dálítið málum blandið.

 

Berin á hrafnþyrni eru hrafnsvört. Þau koma ekki árvisst á Akureyri. Hæring á neðra borði laufanna sést vel.

Jafnvel íslenska heiti tegundirnar var lengi vel eitthvað málum blandið. Á Akureyri gekk þessi tegund lengst af undir heitinu dökkþyrnir eða svartþyrnir, C. nigra, með vísan í hin svörtu ber. Sú tegund á margt sameiginlegt með okkar tegund, t.d. er langt á milli þyrna, berin svört o.fl. en annað er ólíkt. Má þar nefna að krónan er mun kringlóttari á svarthyrni en hrafnþyrni. Svo skiptir líka máli að C. nigra er ættuð frá SA-Evrópu en C. chlorosarca frá Asíu.

 

Glæsilegur hrafnþyrnir í Lystigarðinum. Vaxtarlagið til fyrirmyndar. Merkilegt er að sjá hvernig haustlitirnir byrja efst og færast svo niður eftir trénu. Mynd: Sig.A. 10. sept. 2023.

Ræktun

Þar sem flestir tegundir þyrna eru nokkuð líkir má vel líta á þennan kafla sem lýsingu á þyrnum, svona almennt. Erlendis eru þyrnar oft ræktaðir sem limgerði enda ekki á færi hvers sem er að fara í gegnum limgerði sem þakin eru beittum þyrnum. Hér er sjaldgæft að rækta hann sem hekk eða limgerði. Miklu algengara er að rækta hann sem lítið og nett tré. Einnig getur verið tilvalið að rækta hann í skjólbeltum og skógarjöðrum. Best fer á því að rækta þá á fremur þurrum og björtum stöðum. Þá fá þeir miklu flottari haustliti en ef þeir vaxa í meiri raka eða skugga. Þetta á reyndar líka við um frændur þyrnanna í reyniættkvíslinni. Um þetta má lesa í þessum pistli. Svo er merkilegt að sjá að tréð byrjar að roðna efst og roðinn færist svo niður eftir trénu. Stundum eru efstu laufin farin að falla þegar þau neðstu loksins roðna. Margar tegundir þyrna hafa til að bera flesta þá kosti sem lítil tré almennt hafa. Fallegt vaxtarlag, fallegan stofn, glæsilega haustliti og snotur lauf. Að auki blómgast þau og framleiða oft áberandi aldin sem laða að fugla. Margir fuglar sækja einnig í að verpa í þyrnirunna. Sjúkdómar virðast ekki herja að neinu ráði á þyrniættkvíslina en lirfur haustfeta sækja dálítið í hann eins og fleiri tegundir. Þá er gott að hafa í huga að ef ekkert kvikt étur af trjánum þínum geta þau ekki talist partur af vistkerfinu.

Lauf hrafnþyrnis sem lirfur hafa nartað aðeins í. Það er eðlilegt að lirfur éti laufblöð og óþarfi að bregðast við ef skaðinn er lítill. Myndir: Sig.A.

Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, skrifaði stutta grein í Garðyrkjuritið árið 2018. Þar lýsir hann því hvernig best er að haga klippingu á ættkvíslinni og minnir á að ef til stendur að rækta einstofna tré þarf að huga vel að klippingu og fjarlægja stofnskot og rótarskot. Annars vísast í grein Hjartar fyrir þá sem vilja kynna sér þetta betur.

 

Stofnskot við Hrafnþyrni að hausti til. Þau eru alveg græn þótt sum rauðu blaðanna úr krónunni hafi fallið allt í kring. Mynd: Sig.A.

Við þessar hugleiðingar um klippingu má bæta að Kristján Friðbertsson (2023) telur að minna þurfi að klippa Hrafnþyrni en aðra þyrna til að stýra vexti svo hann verði uppréttur. Aftur á móti getur hann verið margstofna þótt hann sé uppréttur.

 

Margstofna en uppréttur hrafnþyrnir. Mynd: Kristján Friðbertsson.

Hægt er að fjölga þyrnum með sumargræðlingum og er sú aðferð mest notuð í gróðrarstöðvum. Einnig er hægt að sá tegundunum og stundum eru þær græddar á stofna á reynitrjám. Þá dregur auðvitað mikið úr stofnskotunum sem nefnd eru hér að ofan.

 

Valur Þór Norðdal fékk smáplöntu af hrafnþyrni hjá Trjáklúbbnum fyrir allnokkrum árum og setti hana niður. Hún drapst nokkru síðar en rótin lifði. Sumarið 2023 skaut plantan aftur upp kollinum eftir leynilíf í fáein ár. Mynd og upplýsingar: Valur Þór Norðdal.

Hrafnþyrnir

Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca Maxim, er ein af þeim tegundum sem tilheyrir þessari ættkvísl. Það sem hest vekur athygli við þessa tegund miðað við nánustu ættingja hennar er tíminn sem tréð stendur allaufgað. Það á að minnsta kosti við um þau eintök sem eru áberandi núna. Sumir segja að þetta sé tegundareinkenni. Það þýðir að hrafnþyrnir byrjar að laufgast á undan öðrum þyrnitegundum og lýkur einnig vexti á undan öðrum (Ólafur Sturla Njálsson 2023). Þar sem tegundin hefur að auki mjög fallega haustliti vekur það mikla athygli á þessum tíma árs. Svo verður það alveg lauflaust þegar aðrar tegundir fara í haustliti.

 

Sjö ára gömul mynd af hrafnþyrni austur í Flóa. Þessi planta hefur sáð sér út. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Til eru ræktendur sem kannast ekkert við þessa lýsingu og fullyrða að þeirra eintök af hrafnþyrni standi fagurgræn í upphafi septembers. Þar á meðal eru landsfrægir ræktendur eins og Gunnar Þórólfsson, Haukamaður úr Hafnarfirði. Ef það er rétt á framangreind lýsing ekki við tegundina heldur við ákveðin kvæmi tegundarinnar. Eins og svo margt annað er tengist tegundinni lítur út fyrir að þetta sé eitthvað málum blandið. Í þessari grein skoðum við fyrst og fremst einstaklinga sem roðna snemma. Flest þau tré sem við sjáum á Akureyri (þau eru reyndar ekki mörg) eru að minnsta kosti þannig. Það er auðvitað ákveðin hætta á að snemmbúin haustfrost skaði tré sem laufgast snemma. Þetta sáum við vel nú í vor (2023) þegar frost skemmdi snemmsprottin lauf á mörgum tegundum. Það er samt svo að hrafnþyrnirinn varð ekki fyrir slíkum skemmdum í vor. Satt best að segja verður hann mjög sjaldan fyrir kali eða öðrum veðurfarsskemmdum og virðis vel aðlagaður íslenskri veðráttu.

 

Stofninn á hrafnþyrni getur verið mjög fallegur eins og þessi mynd ber með sér. Hún sýnir stofn á hrafnþyrni í Lystigarðinum. Mynd: Sig.A.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.
 
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00