Fara í efni
Tré vikunnar

Hinn dulmagnaði ýviður

TRÉ VIKUNNAR - XLV

Vandfundin eru þau tré sem tengjast jafn mikið evrópskri sögu og menningu og ýviðurinn eða Taxus spp. eins og hann kallast á hinu alþjóðlega fræðimáli. Helst eru það hinar konunglegu eikur sem komast í hálfkvisti við þær. Ýviður tengist gömlum átrúnaði, útfararsiðum, nöfnum og rúnum auk þess sem hann skipar sess í mannkynssögunni. Það er helst í þjóðsögunum sem eikurnar hafa vinninginn.

Í fyrri pistlum um ýviðinn, sem finna má hér og hér, var fjallað almennt um tegundina, vaxtarstaði hennar, langlífi, notkun og fleira. Nú ætlum við að fjalla meira um tengsl ýviðar við evrópska menningu í tveimur pistlum. Í þessum pistli verður stiklað á stóru um tengingu ýviðarins við trúarbrögð, bæði beint og óbeint. Þar á meðal eru tengsl við kristna trú. Þau tengsl eru forn og sterkari en ætla mætti. Við skoðum líka tengingar hans við forn trúarbrögð og í lokin veltum við því fyrir okkur hvort askur Yggdrasils hafi ef til vill frekar verið ýr en askur. Næsti ýviðarpistill verður um hin ýmsu nöfn sem tengd eru þessu tré. Auk þess verður þar fjallað um rún sem ber nafn trésins. Sá pistill mun birtast í vetur.

 

Einn af ótal ýviðum í breskum kirkjugörðum. Þessi er í þorpinu Farway og er líklega vel yfir 1000 ára gamall. Svona tré eru oft talin vera á stöðum sem áður voru leynilegir fundarstaðir kristinna manna. Mynd: Mo Bowman.

Helgi á ývið

Svo er að sjá sem í fornum trúarbrögðum hafi verið töluverður átrúnaður á ýmsum sígrænum trjám. Hefur sú hefð skilað sér í jólahald kristinna manna. Sígræn tré eru þá gjarnan höfð í híbýlum og í sumum löndum þykir hinn sígræni mistilteinn alveg bráðnausðinlegur á þeim tímamótum. Áður höfum við fjallað um hinn sígræna kristþyrni sem einnig tengist jólahaldi og flest höfum við sígræn jólatré í stofum okkar þegar við á. Þau ykkar sem vilja velja sér tré og höggva þau sjálf geta mætt í skóg okkar á Þelamörk helgina 9. - 10. des. eða 16. -17. des milli klukkan 11 og 15 eða meðan bjart er. Hin geta mætt í jólatrjáasölu félagsins í Kjarnaskógi. Þrátt fyrir þessar tengingar viðrist ýviðurinn ekki hafa ratað að neinu marki í jólahaldið. Aftur á móti var á honum helgi í ásatrú og í launhelgum Drúída á Bretlandseyjum að því að talið er (Hafsteinn 2016, Miles 2021). Þó verður að slá þann varnagla að í raun er býsna fátt vitað með vissu um trúariðkun Drúída þótt vissulega séu margar tilgátur í gangi. Sumir telja að þeir hafi haldið einskonar blót við ýviðartré. Algengt er að telja að þeir hafi haldið trúariðkanir sínar í einhvers konar hringjum, gjarnan steinhringjum en vel má hugsa sér trjáhringi í þeirra stað. Þeir endast bara ekki eins vel í landslagi. En þetta þarf ekki að útiloka hvort annað.

 

Taxus baccata ´Adpressa aurea´ er eitt af gulu yrkjunum af ývið sem ræktuð eru. Þessi er í grasagarðinum í Edinborg. Mynd: Sig.A.

Í sjónvarpsþætti frá BBC segir frá því að orðið kirk sé að líkindum komið úr máli Kelta. Archie Miles (2021) skrifaði bók upp úr þáttunum. Hann segir að orðið eigi sér þá sögu að cerrig merki steinn eða steinhringur. Af orðinu var í fornensku til orðið cirice og hefur nú breyst í orðið church. Öll orðin komin af orðinu kirk. Það blasir við að orðin kirkja á íslensku og Kirche í þýsku eru af sama stofni. Öll norðurlandamálin eiga sér samstofna orð fyrir þessar byggingar. Þetta gæti verið gott að hafa í huga þegar kemur að kaflanum um ýviði í kirkjugörðum. Frekari stoðir undir þessa tilgátu er að Miles (2021) bendir á að þekkt séu 25 forn dæmi um trjáhringi úr ývið í og við kirkjugarða á Bretlandseyjum. Flestir í Veils. Í sumum tilfellum eru þessir hringir ekki alveg heilir. Það er ekkert undarlegt þegar haft er í huga að sumum þessara trjáa var plantað á þessum stöðum fyrir meira en 1500 árum. Það merkir að þeim var plantað löngu áður en kristni komst á þar í landi þótt þeir standi nú við eða í kirkjugörðum.

Rétt er þó að geta þess að önnur tilgáta er sú að orðið „kirkja“ sé soðið upp úr grísku þar sem „Kyrios“ merkir „það sem tilheyrir herranum“.

 

Lítill hringur úr sjö ýviðartrjám í vetrarsólinni. Sex tré mynda hringinn og eitt er í miðjunni. Stofnarnir eru varla eldri en 150 ára en sjálfsagt er lengra síðan þessu var plantað og ræturnar gætu sem best verið miklu, miklu eldir. Í þessum skógi eru þrír svona litlir hringir. Um þetta má lesa hér. Vel má vera að svona lundir séu hinar upprunalegu kirkjur eða kirk.

Ýviður í kirkjugörðum

Frá örófi alda virðist ýviðurinn hafa verið tengdur ýmsum útfararsiðum. Litið hefur verið á hann sem tákn ódauðleika sálarinnar, endurnýjunar og eilífðarinnar, enda verður hann eldgamall og er sígrænn. Á sama tíma hefur hann einnig verið tákn dauða og hættu, enda eitraður. Bæði Rómverjar og Grikkir til forna nýttu ýmsar sígrænar plöntur við útfarir og bænir. Þar koma margar tegundir til greina og ýviður var ein þeirra.

 

Ýviður í gömlum grafreit við lítið þorp í norðurhluta Veils sem heitir Bethesda. Myndina tók Aled Williams og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

Thomas Spadea heldur úti fróðlegum og skemmtilegum hlaðvarpsþáttum um tré. Heita þeir My Favorite Trees. Í sérstökum þætti um ývið frá 27. 12. 2022 segir hann frá því að hinir fornu Keltar á Bretlandseyjum og víðar í Evrópu hafi haldið sérstaklega upp á vetrarsólstöður og litið á ývið sem einskonar fulltrúa þeirra. Ástæður þess eru nokkrar. Tréð er sígrænt og getur verið tákn eilífðarinnar þegar flest annað er í vetrarbúningi. Að auki er ýviðurinn eitraður og þannig tengdur dauða eins og segir frá í fyrri pistlum okkar um tegundina. Þegar sólin hefur lækkað og lækkað á himni allt haustið er nánast eins og hún sé að hverfa og allt líf með henni. Svo snýr hún við og hækkar aftur á lofti. Hvað hentar betur til að túlka þetta en einmitt ýviðurinn? Tréð getur bæði táknað dauða og lífið sem kviknar aftur.

 

Teikning eftir John Burgess sem sýnir ývið í kirkjugarði á landsbyggðinni. Myndin fengin héðan.

Hér að ofan var sagt frá því að talið er að hinir fornu Drúídar hafi haldið blót við ýviðarté á Bretlandseyjum. Því hélst gjarnan helgi á þeim stöðum þar sem gamlir ýviðir stóðu, löngu eftir að trúarbrögð þeirra létu undan. Þegar kristni komst á voru kirkjur byggðar á gömlu blótstöðunum svo að víða á Bretlandseyjum standa ævagamlir ýviðir við kirkjur frá upphafi kristnihalds (Hafsteinn Hafliðason 2016). Archie Miles (2021) segir þetta enga tilviljun. Gregoryus páfi sendi Ágústínus til Bretlandseyja frá Róm á sjöundu öld okkar tímatals til að turna þeim þjóðum sem þar bjuggu til kristinnar trúar. Páfinn var snjall og gaf fyrirmæli um að Ágústínus mætti ekki skemma þá tilbeiðslustaði sem hann kæmi að. Þess í stað átti hann að breyta þeim í kristna tilbeiðslustaði. Þetta getur vel passað, enda eru mörg ýviðartré eldri en garðarnir sem þeir standa í. Vel má vera að margar af fyrstu kirkjum Bretlandseyja hafi verið byggðar við eða á tilbeiðslustöðum og samkvæmt síðasta kafla hefur nafn tilbeiðslustaðanna haldist og farið yfir á hinar nýju byggingar. Þess vegna kallast þær kirkjur. Til eru gamlar sagnir af fornum, kristnum söfnuðum við ýviði. Írska ábótann Columba eða Colmcilla (521 – 597) þekkjum við, aðdáendur Halldórs Laxness, sem heilagan Kólumkilla. Hann er einn af þeim sem tengjast ýviðum. Hann fór til Skotlands árið 563 og á þessari síðu segir frá því að Kólumkilli hafi stofnað kristna söfnuði undir ýviðum ásamt því að halda messur í skjóli trjánna.

 

Grafreitir og klipptir ýviðir í kirkjugarðinum við kirkju heilagrar Maríu í Painswick í Englandi. Myndina á Spencer Means og birti hana á Flickrsíðu sinni.

Það er samt ekki svo að allur ýviður í kirkjugörðum sé eldri en garðarnir. Það hefur tíðkast ákaflega lengi að planta ývið í garðana. Á þetta aðallega við um England, Veils, Skotland og Norður-Frakkland, einkum Normandí. Kemur þar eflaust margt til, meðal annars hversu algengur hann hefur alltaf verið við kirkjur! Þannig viðheldur hefðin sér.

Miles (2021) segir frá því að þar sem stórir ýviðir myndi mjög gott skjól geti þeir sem best hafa verið gróðursettir nærri kirkjum til að verja kirkjurnar fyrir stórviðrum. Þetta gætu frumkirkjusmiðirnir líka haft í huga og valið kirkjum stað í skjóli ýviðartrjáa, burt séð frá helgi trjánna sjálfra eða jarðarinnar sem þau stóðu á.

 

Ýviður í kirkjugarði í þorpinu Farnborough nálægt London. Myndina tók Simon Hayday og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

Annað er að þar sem ýviðir geta verið banvænir búpeningi kann að vera heppilegt að girða þá vel af. Þá koma kirkjugarðarnir sterkir inn. Svo gæti þetta hafa verið á hinn veginn. Að ývið hafi verið plantað í kirkjugarða til að koma í veg fyrir að fátækir bændur, í leit að beit fyrir gripi sína, freistuðust til að reka þá inn í kirkjugarða.

Miles (2021) segir einnig frá því að á 10. áratug síðustu aldar hafi græðlingum verið safnað í breskum kirkjugörðum og af þeim voru ræktuð upp ný tré. Á þessum áratug var yfir 7000 ýviðaplöntum plantað í breska kirkjugarða af þessum efnivið. Ganga þau undir nafninu þúsaldarýr, eða Millennium Yews. Enn er því haldið í hefðina og trjám af þessari tegund plantað í kirkjugarða í ríki Karls konungs þriðja.

 

Þessi skoski ýviður neitar að gefast upp þótt hann hafi fallið. Upp vex þykkni af stofnum. Engin furða þótt fólk dáist að svona seiglu. Líta má á ývið sem táknmynd endurnýjunar og eilífðarinnar. Framan við ýviðinn er lauftré. Mynd: Sig.A.

Hafsteinn Hafliðason (2016) segir frá því að nokkrir stórir ýviðir séu við kirkjur og herragarða í Danmörku og á Skáni. Í Svíþjóð er villtur ýviður að jafnaði frekar lágvaxinn og vex strjált í gömlum beyki- og álmskógum. Í kirkjugörðum hefur hann annað vaxtarlag. „Við kirkjuna í Österslöv, rétt norðan við Kristianstad, standa nokkrir státlegir ýviðir – um 10 metra háir. Talið er að þeir hafi verið gróðursettir þar á árunum 1570–1600. Þá var Skánn danskt landsvæði og presturinn sem þjónustaði söfnuðinn var danskur og trén líklega af dönskum uppruna. Talið er að þetta séu elstu ýviðir Svíþjóðar“ segir Hafsteinn (2016). Þetta sýnir okkur að víða í Evrópu þekkjast ýviðir í kirkjugörðum þótt siðurinn sé algengastur beggja vegna Ermarsunds. Í fimmta ýviðarpistli okkar, sem fjallar um fræg ýviðartré, verða nefnd fleiri dæmi um ýviði í kirkjugörðum.

 

Hinn friðaði ýviður í Österslöv er trúlega elsti ýviðurinn í Svíþjóð. Myndin er fengin héðan.

Ýviður og kristni

Miðað við helgi ýviðar i fornum trúarbrögðum má auðvitað vænta þess að gamlar hefðir tengdar honum hafi haldið velli þegar nýir siðir voru teknir upp. Við sjáum sambærilega þróun greinilega í pistli okkar um kristþyrninn, sem var jólapistill okkar fyrir jólin 2022. Þessi kafli byggir að mestu á hugmyndum frá Archie Miles (2021). Því hefur verið haldið fram að viður ýviðar henti prýðilega sem myndlíking fyrir Krist. Þá á hinn dökki kjarnviður að vera tákn fyrir blóð Krists en hin ljósa rysja tákn fyrir holdið. Þannig á ýviður að minna á altarissakramentið. Svo er barrið sígrænt. Það getur, eins og önnur sígræn tré, verið tákn eilífs lífs. Í gömlum breskum sögnum segir einnig að ýviður hafi hentað prýðilega til að hrekja burt illa anda. Því hafi ýviðartré bæði passað upp á kirkjurnar sjálfar, sem og ástvini sem grafnir voru nálægt þeim.

 

Myndlíking fyrir altarissakramentið. Kjarnviðurinn er blóð Krists en rysjan er holdið. Hann hefur ekki verið tiltakanlega sólbrúnn, ef hann hefur verið svona hvítur á hörund. Myndin fengin héðan.

Til eru skjalfest dæmi um að greinar ýviðar hafi verið fluttar inn í kirkjur á Bretlandseyjum í tilefni pálmasunnudags, enda mikill hörgull á pálmum á þeim eyjum. Það þarf samt ekki að sýna að helgi hafi hvílt á ývið. Heppilegt gat verið að skreppa út í kirkjugarðinn og klippa nokkrar greinar af sígrænum ývið. Aðrar tegundir trjáa og runna voru einnig notuð í þessum tilgangi en kosturinn við ýviðinn var ef til vill hversu algengur hann var við kirkjugarða og því auðvelt að nálgast hann. Hér á landi var gulvíðir notaður á sambærilegan hátt, þótt engin helgi hafi hvílt á honum. Gamalt heiti á honum er pálmavíðir með vísan í þennan sið. 

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00