Fara í efni
Tré vikunnar

Hakaskoja í Vaðlaskógi Síberíulerki (Larix sibirica)

TRÉ VIKUNNAR - XLIII
 
Þeir sem kynnt hafa sér sögu skógræktar á Íslandi vita að fyrstu vel heppnuðu skógræktartilraunir eru frá því um aldamótin 1900. Af þeim má nefna Grund í Eyjafirði, Þingvelli, Minjasafnsgarð og Gömlu Gróðrarstöðina á Akureyri. Einnig hófst ræktun í mjög smáum stíl á innfluttum tegundum í Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi snemma á öldinni og fleira mætti telja.
 

Næsti áfangi má segja að hafi verið hinir fjölmörgu kvenfélags- og ungmennafélagsskógar um allt land, að mestu leyti með birki, reyni og gulvíði.

Mjög snemma öldinni gerðu menn sér grein fyrir því að lerki var eitt þeirra trjáa sem myndað gæti skóga á Íslandi, jafnvel á berangri. En lundurinn við Gömlu Gróðrarstöðina á Akureyri var einmitt ræktaður með það í huga að kanna hvort mögulegt væri að rækta skóg á íslensku berangri.

Hinn frægi Guttormslundur á Hallormsstað var gróðursettur 1937-1938. En það er frægasti lerkilundur landsins.

Þessi upptalning gæti gefið til kynna að skógrækt á Íslandi hafi verið komin á fljúgandi ferð um miðja síðustu öld. En miðað við umfang skógræktar síðustu árin er þessi skógrækt á fyrri hluta tuttugustu aldar mjög lítil og gróðursetning erlendra tegund í mýflugumynd.


Sjálfsáinn reynir lífgar uppá skógarbotninn. Mynd: Helgi Þórsson.
 

Kaflaskipti í skógrækt

Skógræktin (sem áður hét Skógrækt ríkisins) heldur skrá yfir innflutt trjáfræ. Þar kennir ýmissa grasa. Þar má sjá að árið 1947 voru flutt inn 3 kg af lerkifræi frá Hakaskoja (Khakassíu) og árið 1950 samtals 20 kg. Þetta er gríðarmikið magn og varð upphafið af miklum síberíulerkigróðursetningum á sjötta áratugnum. Þetta var í raun upphafið af gróðursetningum af þeirri stærðargráðu sem við þekkjum í dag, þar sem ekki var lengur verið að tala um tugi plantna heldur þúsundir. Innflutningur af rauðgrenifræi og skógarfurfræi hófst skömmu fyrr. Skógrækt á Íslandi hafði skipt um gír. Nú fóru hlutirnir að gerast.

 
Þessi mynd var tekin við trjámælingar 1956 þegar lerkið er fimm ára gamalt. Lengst til vinstri á myndinni má greina barrtrén degli og sitkagreni sem gróðursett voru um 1940. Einnig má sjá birki frá Vöglum sem komið er vel á veg. Höfundur myndar ókunnur en hún er eign Skógræktarfélagsins. 

Vaðlaskógur 1951 og 1952

Árið 1951 voru gróðursettar 2000 lerkiplöntur og 1952 voru þær 1300, samtals 3300 tré. Á sama tíma fóru 900 lerkiplöntur niður í Kristnesskógi og 1500 í Kjarnaskógi og nokkur tré í aðra skóga. Þetta þýðir að lerkiskógurinn í Vaðlaskógi er fyrsti stóri lerkiskógurinn í Eyjafirði, ef svo má að orði komast. Fyrstu fræsendingunni frá hinu meinta héraði Hakasoja var safnað í 1200 metra hæð, en það stóra fræholl sem seinna kom var safnað í 600 metra hæð. Vaðlaskógar-lerkið er komið úr fyrstu sendingunni og það mætti hugsa sér að það hafi verið betur aðlagað íslenskum aðstæðum en hitt sem kom í kjölfarið.

Gaman er að geta þess að á Hallormsstað stendur lundur sem er einskonar tvíburi lundarins í Vaðlaskógi. Sá er kallaður Jónsskógur og er rúmur hektari að stærð, gróðursettur sama ár og af sama kvæmi. Sigurður Blöndal kallar tilkomu þess skógar viðburð þar sem þetta sé fyrsti lerkiskógurinn þar eystra á eftir Guttormslundi.


Lerkið frá 1951 í Vaðlaskógi. Myndin tekin 28. ágúst 1982. Mynd: Ingólfur Davíðsson. 

Trén komu frá Hakaskoja en Hakaskoja er ekki til

Einhvers staðar segir að góðar sögur eigi ekki að gjalda sannleikans. En sannleikurinn er eitthvað á þá leið að þegar ritarar Skógræktar ríkisins (sem nú heitir Skógræktin) skrásettu illa skrifaðar rússneskar fræmerkingar, sem auk þess voru ritaðar með kýrillískum stöfum, þá var til úr því staðurinn Hakaskoja. Löngu síðar fóru menn að fletta upp í örnefnaskrám Síberíu og þar var enginn staður með þessu nafni. Þá var leitað til gamals þular sem leysti málið. Lausn gátunnar var sú, að það hafði aldrei staðið Hakaskoja á fræpökkunum heldur Khakassía. En Khakassía er sjálfstjórnarhérað í Krasnojarskfylki í Síberíu. Khakassía er til þess að gera skammt frá Altai og Túvu ef það hjálpar einhverjum. En hvað um það, Hakaskoja er engu að síður helgur staður í huga gamalla skógarmanna og kemur víða fyrir í skógræktarskýrslum síðustu aldar.

Gróðursetningin

Það er svo skemmtilegt með skógræktarsöguna að víða eru til ágætar skráningar yfir hitt og þetta sem við kemur öllu milli himins og jarðar. Þannig er það líka með þennan skóg. Ármann Dalmannsson var starfsmaður Skógræktarfélags Eyfirðinga og hélt dagbók árum saman. Þar segir að þann 22. maí árið 1951 hafi verið tekið á móti 1200 lerkitrjám frá Vaglaskógi, trén voru af gerðinni 3/0 (þrjú ár í sáðbeði og aldrei dreifsettar). Þar segir líka að gróðursett hafi verið 2. júní með 26 sjálfboðaliðum.

 
Nokkrir slóðar og misjafnlega vel markaðir stígar liggja um skóginn. Mynd: Helgi Þórsson. 

Staðsetning

Vaðlaskógur er langur og mjór skógur beint á móti Akureyri. Hann var girtur á árunum 1936-1937 eftir að Skógræktarfélag Eyfirðinga gerði samning við landeigendur um að þeir leggðu svæðið undir skógrækt. Enda var svæðið að mestu rýrt landi og bratt og ekki sérlega verðmætt til hefðbundins landbúnaðar. Títt nefndur lerkiskógur er í Vaðlaskógi miðjum. Hann er örlítið ofan og norðan við litla bílastæðið sem er neðan vegar í miðjum skógi. Hann nær að Kotslæk að norðan og næstum suður að næsta læk sem undirritaður veit ekki hvað heitir. Sem skýrir það að svæðið er kallað „Milli lækja“. Það er þó fremur snautlegt örnefni. Þetta er eitt fallegasta svæði skógarins og þar úir og grúir af allskonar trjám á ýmsum aldri. Glænýr hjólastígur markar neðri hluta svæðisins en troðinn slóði liggur í gegnum svæðið. Þar er kjörið að taka svolitla hjáleið til að njóta þess sem skógurinn hefur uppá að bjóða. Sjá nánar á meðfylgjandi uppdrætti.


Uppdráttur af Vaðlaskógi - „Milli lækja“. Teikning: Helgi Þórsson.
Smellið hér til að sjá allan pistil Helga.
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00