Fara í efni
Tré vikunnar

Fundarafmæli falinna furðutrjáa

TRÉ VIKUNNAR - LXXX

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og langt til Húsavíkur. Þó er jafnvel enn lengra til Ástralíu. Þangað ætlum við í dag. Um 150 til 200 kílómetrum norðvestan við stærstu borg Ástralíu, sem er Sydney með meira en fjórar milljónir íbúa, eru fjöll sem einmitt heita Bláfjöll. Þar sem fáir heimamenn kunna nokkuð að ráði í íslensku kalla þeir fjöllin Blue Mountains. Þessi áströlsku Bláfjöll tilheyra stóru náttúruverndarsvæði. Þegar enskumælandi fólk kom fyrst á þetta landsvæði heyrðist þeim ekki betur en frumbyggjarnir kölluðu svæðið eitthvað í líkindum við Vollamæ. Það mun merkja „gættu hvar þú gengur“ eða eitthvað álíka. Það vísar í það hversu óaðgengilegt landið er (Clapp & Crowson 2022). Ef til vill mætti kalla þetta svæði Leggjabrjót á íslensku.

Enskumælandi menn tóku upp þetta orð frumbyggjanna og kalla allt svæðið Wollemi Wilderness. Síðasti bókstafurinn í orðinu Wollemi er af flestum enskumælandi mönnum borinn fram sem í-hljóð, en Ástralar bera hann fram sem æ. Hvort frumbyggjar þessara slóða kannist við að hafa kallað svæðið Vollamæ eða Vollamí er óvíst. Að minnsta kosti er mun algengara að Evrópubúar misheyri framandi nöfn en hitt að þeir fari alveg rétt með. Það er vel hugsanlegt að þetta sé allt saman misskilningur.
 

Árið 1979 var stofnaður þjóðgarður á svæðinu sem ber nafnið Wollemi National Park. Svæðið er stórt og á köflum ákaflega óaðgengilegt, eins og vænta má miðað við nafnið.


Gættu að hvar þú gengur. Fari fólk ekki varlega á þessum vegleysum getur farið illa. Fjölmörg gljúfur eru á þessum slóðum og mynda samfellt kerfi gljúfra. Ekki auðvelda þau yfirferðina. Myndin er úr Wollemi National Park í Ástralíu og er fengin héðan.
 

Fyrir 30 árum í ágúst eða september (heimildum ber ekki saman um mánuðinn) fundust í þröngu og óaðgengilegu gili á þessu svæði fáein stórfurðuleg tré sem engar sagnir fóru af. Þegar þessi trjátegund uppgötvaðist þótti hún strax æði fornleg. Þetta reyndust vera síðustu leifar trjáa sem sennilega uxu á jörðinni seint á tímum risaeðlanna á því svæði sem stundum hefur verið kallað Gondwana. Það nær yfir allar heimsálfurnar á suðurhveli jarðar. Eftir því sem vísindamenn hafa rannsakað tegundina meira, þeim mun fornlegri og einstakari hefur hún reynst vera í heimi núlifandi trjátegunda.

 

Horft niður til þessara sjaldgæfu trjáa í áströlsku gljúfri í Nýja-Suður-Veils. Myndin fengin héðan.

Tré vikunnar er þetta tré sem þar til fyrir þremur áratugum var algerlega óþekkt. Síðan hafa fundist steingervingar sem líkjast trénu og gætu í einhverjum tilfellum tilheyrt því. Tréð hefur ekkert sérstakt íslenskt heiti sem unnið hefur sér hefð en fræðiheitið er Wollemia nobilis W.G.Jones, K.D.Hill & J.M.Allen. Glöggir lesendur taka eflaust eftir þessari nafna- og stafasúpu á eftir skáletraða fræðiheitinu. Við segjum seinna í pistlinum frá því hvernig á þeirri matreiðslu stendur.

 

Villt tré í Nýja-Suður-Veils í Ástralíu sem uppgötvuðust fyrir aðeins þremur áratugum. Myndin fengin frá NSW National Parks and Wildlife Service Blog.

Wollemi National Park
 

Berggrunnurinn í þessu verndarsvæði í Nýja-Suður-Veils í Ástralíu er gamall sandsteinn, blandinn eldgömlum hraunum og öskulögum. Flóra svæðisins er æði fjölbreytt og má telja hana til regnskóga. Í skógunum má finna mikinn fjölda stórkostlegra gljúfra sem árnar hafa grafið út í berggrunninn á tugþúsundum ára. Gljúfrin eru með þverhníptum sandsteinshamraveggjum svo víðast hvar þarf sérstakan búnað til að síga niður í þau. Í þeim skapast ákjósanleg skilyrði fyrir tré sem vilja heitt og rakt loft. Fyrir réttum þrjátíu árum fóru þrír menn niður í eitt af þessum óaðgengilegu gljúfrum og fundu þar óvænta gljúfrabúa. Þarna voru á afmörkuðu svæði nokkur furðuleg tré sem félagarnir þekktu ekki. Trjátegundin er svo forn að skyld tré dóu flest út löngu áður en fyrstu mennirnir gengu um á sléttum Austur-Afríku, sem af flestum er talin vagga mannkyns. Hugsanlega getum við sagt að Eden hafi verið þar ef við viljum trúa sögunum um Adam og Evu. Það er jafnvel enn frægari garður en Wollemi National Park. Annars vitum við lítið um Eden nema hvað sagnir herma að þar hafi vaxið eplatré. Það er þó með öllu óvíst enda ekkert fjallað um epli í helstu heimild okkar um Eden, þó margir haldi það.

 

Það er ekki alltaf auðvelt að fóta sig í Wollemi National Park. Engir vegir eru á svæðinu, enda ekki heiglum hent að koma þeim fyrir. Myndin er fengin héðan. 

Fundarstaðir

Þegar félagarnir römbuðu á fundarstað trésins fyrir 30 árum fundu þeir tréð aðeins á einum stað. Þar voru um 20 eða 30 einstaklingar, að því að talið er. Flest þeirra höfðu nokkra stofna sem uxu upp af sama rótarhálsi. Við segjum nánar frá því þegar við lýsum trénu.

Ekki leið á löngu þar til annar lundur fannst í sama gljúfri en aðeins ofar með ánni sem þar rennur. Þrátt fyrir mikla leit grasafræðinga og annarra vísindamanna hefur ekki tekist að finna nema tvo aðra vaxtarstaði á þessum slóðum síðan þetta var (Clapp & Crowson 2022). Hefur þó ýmsum aðferðum verið beitt. Sigið hefur verið ofan í óaðgengileg gljúfur og flogið eftir þeim í þyrlum en árangurinn er samtals fjórir aðgreindir vaxtarstaðir með samtals vel innan við 100 einstaklingum. Allir vaxtarstaðirnir tilheyra sama gljúfrakerfinu.

 

Mynd frá grasagarðinum í Sydney sem sýnir nokkur tré af þessari tegund í einu af gljúfrunum. Við fundum hana hér.

Fyrsti fundur

Þótt fundur þessara trjáa hafi verið mjög óvæntur og vakið mikla athygli fyrir 30 árum þá getur ekki verið satt að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem einstaklingar af tegundinni maður sáu þetta tré. Enginn veit fyrir víst hvenær frumbyggjar Ástralíu fóru í ferðalag frá Indónesíu og námu landið en við vitum að það var fyrir tugum þúsunda ára. Sumir þeirra settust að á þessu svæði og hljóta að hafa séð tréð ef þeir hafa álpast ofan í gljúfrin. Það gæti jafnvel hafa verið útbreiddara fyrir svona 30.000 árum, svo við skjótum eitthvað út í loftið. Þess vegna er líklegast að frumbyggjar Ástralíu hafi verið þeir fyrstu sem litu þessi tré augum.

Til eru allskonar klettamálverk og -ristur frá forsögulegum tíma í Ástralíu. Aftur á móti eru ekki til skriflegar lýsingar á einstökum trjátegundum frá því fyrir landnám bleiknefja. Tré, sem tengjast menningu frumbyggjanna, geta átt sér fornar sögur sem enn lifa. Einnig eru til sagnir sem tengjast því sem er ætt eða sérstaklega hættulegt á þessum slóðum. Ekkert af þessu á við um þessi fágætu tré. Því eru engar upplýsingar að hafa úr þjóðsögum eða gömlum sagnaljóðum um þau. Ef frumbyggjarnir vissu um þessi tré höfðu þeir lítinn áhuga á þeim. Fræin voru óæt og almennt lítið gagn af trjánum sem að auki uxu á óaðgengilegum stöðum. Þess vegna hefur ekkert varðveist, er varðar þessa trjátegund, úr menningarheimi þeirra þjóða sem þarna bjuggu fyrir komu Evrópubúa. Ef þær vissu af henni voru þær sennilega búnar að gleyma því. Svo má vera að rétta fólkið hafi ekki verið spurt réttra spurninga til að fá eldri sögur af þessu tré. Þetta er ef til vill í anda Evrópuþjóðarinnar sem fann Ameríku og týndi henni aftur í ein 500 ár þrátt fyrir að hafa skrifað frásagnir um fundinn á kálfskinn.

 

Skemmtileg mynd sem fengin er héðan.

Endurfundur

Í bók sinni frá 2008 segir Aljos Farjon frá fundi þessara trjáa og er þessi kafli byggður á þeirri lýsingu.

Maður er nefndur David Noble. Hann þekkir stór svæði þessara óbyggða nánast eins og lófann á sér. Í september (aðrar heimildir nefna ágúst) árið 1994 fór hann við þriðja mann ofan í gljúfur sem hann hafði ekki kannað áður. Gilbarmarnir og að hluta til sjálft gljúfrið er þakið gífurtrjám og gífurrunnum eða Eucalyptus tegundum. Þar sem gljúfrið er dýpst og rakast rennur fljót eitt og við það vex þéttur regnskógur. Tegundirnar í honum eru allt aðrar en ofar í gilinu en við þreytum ykkur ekki með að nefna þær. Inn á milli þeirra trjáa sáu Noble og félagar hans furðulega útlítandi og mjög stór tré. Noble tók með sér litla grein af trénu og færði félaga sínum að nafni Wyn Jones. Hann var á þessum tíma starfsmaður systurstofnunar Lands og skógar í Ástralíu.

Að vonum þekkti Jones ekki þetta tré. Fékk hann sýnishornið í hendur grasafræðings að nafni Jo Allen sem stóð öldungis á gati. Yfirmaður hans var grasafræðingur að nafni Ken Hill og fékk hann að skoða greinina. Það var hann sem áttaði sig á að þetta væri óþekktur berfrævingur og taldi að þarna væri eitthvað verulega óvenjulegt á ferðinni. Svo fór að Jones bað Noble að fara með sig að gljúfrinu góða og söfnuðu þeir saman fleiri sýnishornum. Þeir fundu karlkyns köngul á jörðinni og fengu að auki þyrlu til að láta sig síga í toppa trjánna til að ná í nýjan kvenkyns köngul. Jones hittu svo vin sinn Jo Allen og þeir reyndu eftir bestu getu að finna út hvaða tré þetta væri. Það gátu þeir allsekki svo þeir leituðu aftur til Ken Hill. Saman fundu þeir út að þetta væri tré af óþekktri ættkvísl innan Araucariacea ættarinnar sem nefnd hefur verið apahrellisætt á íslensku. Það er ætt sem þróaðist á Gondwana meðan sú heimsálfa var til. Allar tegundir ættarinnar eru nokkuð framandlegar í útliti miðað við barrtré sem vaxa á norðurhveli jarðar.

Þeir þrír: Jones, Hill og Allen skrifuðu grein árið 1995 þar sem lýstu þessum nýfundna gljúfrabúa og er óhætt að segja að lýsing þeirra hafi vakið mikla athygli enda skorti hvergi á stóru orðin í greininni.

 

Wollemia nobilis er nú ræktað víða um heim. Hér er tréð til hægri á myndinni með sínar stuttu greinar. Myndin er fengin héðan.

Nafnafræði

Fræðiheiti tegundarinnar er Wollemia nobilis. Það voru þrír félagar af þeim fjórum sem að ofan eru nefndir sem gáfu tegundinni nafn og birtu sameiginlega lýsingu á trénu. Þess vegna má gjarnan sjá nöfn þeirra aftan við fræðiheitið í vönduðum grasafræðiritum. Þess vegana stendur langlokan Wollemia nobilis W.G.Jones, K.D.Hill & J.M.Allen þegar tréð er nefnt fyrst í þessum pistli. Þar með er komin uppskrift að þessari stafasúpu sem nefnd var hér ofar.

Ættkvíslarheitið er valið eftir svæðinu í kringum hin áströlsku Bláfjöll eða Wollemi Wilderness.

Seinni hluti heitisins, nobilis, gæti merkt konungur, aðall eða eitthvað álíka en svo er ekki. Þetta er til heiðurs manninum sem var einn þeirra þriggja sem fundu tréð. Eins og áður segir var það David Noble sem tók með sér grein af trénu og færði hana fræðimönnum. Höfundarnir þrír heiðruðu félaga sinn á þann hátt að nefna tréð eftir honum. Orðið nobilis er latínuskotin sögn af nafnorðinu Noble (Farjon 2008). Farjon segir að viðurnefnið eigi sér einnig aðra tilvísun. Sé nafnið borið fram nægilega hratt hljómar það eins og „knobbly“. Þetta er gert vísvitandi þannig að ætla mætti að nafnið vísi í hinn stórmerkilegan börk sem vex á trénu. Meira um hann hér á eftir.

Enska heiti tegundarinnar ber keim af fundarstaðnum og fræðiheitinu. Tegundin er kölluð Wollemi pine á því útbreidda tungumáli. Rétt er að geta þess að tegundin er hreint ekki fura en í Ástralíu eru nær öll barrtré kölluð pine sem einmitt merkir fura. Breytir þá engu þótt tegundirnar tilheyrir ekki einu sinni sömu ætt og fururnar. Við getum ekki kallað tréð vollómífuru því þetta er ekki fura. Ef til vill gætum við þýtt heitið á óbyggðunum frjálslega og klínt því nafni á tréð. Þá fengjum við út leggjabrjótstré eða eitthvað álíka. Eitthvað skárra hlýtur að finnast en það. Á meðan verðum við bara að nota fræðiheitið eins og gert er í þessari grein. Við lofum því samt að sleppa alltaf allri nafnasúpunni sem fylgir fræðiheitinu hér á eftir.

 

Ungar plöntur af Wollemia nobilis í Tasmaníu. Í grasagörðum er algengt að planta burknum nálægt þessari tegund. Myndin fengin af vef The Gymnosperm Database. Myndina á C. J. Earl.

Ættfræði

Wollemia nobilis er eina þekkta tréð sem tilheyrir sinni ættkvísl. Könglarnir minna nokkuð á köngla hjá apahrelli, Araucaria og kárítré, Agathis, sem eru hinar tvær þekktu ættkvíslir ættarinnar. Að innan líkjast þeir könglum kárítrjáa en að utan á köngla apahrellis þótt þeir séu að vísu miklu minni (Clapp & Crowson 2022). Að auki er vaxtarlag einstofna Wollemia nobilis trjáa svipað og hjá apahrellum. Eitt sinn var frægasta tré þeirrar ættkvíslar tré vikunnar hjá okkur. Þessi líkindi geta ekki verið tilviljun og því hefur tréð verið sett í sömu ætt. Heitir hún Araucariaceae eftir apahrellunum. Íslenska heiti ættarinnar tekur mið af þessu og kallast apatrésætt. Rétt er þó að taka fram að tegundir innan þeirrar ættar eiga það sameiginlegt að hafa verið á jörðinni frá því löngu áður en fyrstu aparnir klifruðu í trjám.

Sumir vísindamenn hafa bent á að sumt á þessi eina Wollemia-tegund frekar sameiginlegt með löngu útdauðum tegundum en þeim tegundum sem enn lifa af þessari ætt. Sem dæmi má nefna að frjó karlblómanna er nánast eins og það steingerða frjó sem tilheyrir útdauðum tegundum ættarinnar. Frjóið hjá hinum ættkvíslunum hefur tekið breytingum, en ekki hjá Wollemia. Þetta, ásamt fornlegum barrnálum og enn fornlegri aðferðum við að losna við þær (sjá síðar), gæti bent til að þessi tegund sé enn eldri en aðrir núlifandi ættingjar (Jones o.fl. 2024, Clapp & Crowson 2022). Vísindamenn hafa einnig sagt að Wollemia sé að líkindum skyldari Agathis tegundum en tegundum af ættkvíslinni Araucaria (Jones o.fl. 2024).

 

Útbreiðsla apatrjáaættar, Araucariaceae samkvæmt The Gymnosperm Database. Gulu punktarnir sýna hvar kárítré, Agathis, vaxa. Bláir punktar tákna apahrelli og skyldar Araucaria tegundir, en rauði punkturinn sýnir hvar Wollemia nobilis er að finna.

Lýsing

Tré þetta er barrtré og getur orðið um 40 metra hátt. Það þykir hátt á okkar landi en í regnskógum Ástralíu telst það aðeins vera meðalhátt tré eða rúmlega það. Stofnþvermál í brjósthæð getur orðið um 120 cm á villtum trjám en er oft minna (Jones o.fl. 2024). Tré í ræktun vaxa hratt í æsku en eiga enn eftir að nálgast hámarkshæð og -breidd utan náttúrulegra heimkynna. Eftir fáein ár hægir mjög á vextinum.

 

Svona gæti þetta hafa verið. Myndin fengin héðan.

Greinar og barr

„Laufið“ á þessum barrtrjám er mjúkt og nokkuð langt miðað við þau barrtré sem við þekkjum best. Á fullorðnum greinum er það að jafnaði um 8 cm langt og um 5 mm breitt (Jones o.fl. 2024). Það er vissulega barr en er nokkuð leðurkennt og minnir töluvert á burknalauf eða lauf á pálmum eða eitthvað álíka. Ekkert annað tré í heiminum hefur barr sem svipar til þessa. Því kemur það ekki á óvart að þeir sem fyrstir litu tréð augum og tóku af því eina grein hafi ekki áttað sig á að þetta væri barrtré.

 

Það er ekkert undarlegt þótt það hafi tekið smá tíma að átta sig á að þetta telst vera barrtré. Yngri greinar á eldri trjám geta þó haft barr sem er hefðbundnara í útliti samkvæmt Eckenwalder (2009). Barrið myndar fjórar raðir á hverri grein. Það er eitt af því sem telst óvenjulegt. Myndina fengum við héðan.

Þegar kemur að þeim barrtrjám sem við gerst þekkjum er það svo að hver barrnál á sér ákveðinn líftíma. Svo dettur hún af og endurnýjar sig. Þess vegna tekst til dæmis sitkagreni oftast að ná sér eftir sitkalúsafaraldra. Það missir mikinn fjölda nála á meðan á faraldrinum stendur og er ljótt á meðan. Um leið myndast nýjar nálar. Eftir fáein ár er oft eins og ekkert hafi komið fyrir tréð. Svona er þessu ekki háttað með Wollemia. Barrið endurnýjar sig ekki á hefðbundinn hátt. Þess í stað endurnýjar tréð greinarnar í heild sinni. Fyrst eru greinarnar uppréttar en eftir því sem þær stækka verða þær flatari. Eldri greinar vísa ögn niður. Eftir nokkur ár kemur að því að á endum greinanna þroskast könglar. Þeir eru annað hvort karlkyns (og mynda mikið frjó) eða kvenkyns (og geta myndað fræ). Þegar könglarnir hafa lokið hlutverki sínu drepast greinarnar sem þeir vaxa á og falla af. Þeirra í stað myndast nýjar greinar og virðist tilviljun ráða því hvar þær myndast á stofninum (Eckenwalder 2009).

 

Nýlegt lauf á þessum trjám er gjörólíkt eldra laufi. Myndina á Trevor Hinchliffe og hana fengum við af vef The Gymnosperm Database.

Gamlar greinar falla af með barri og öllu saman. Þess vegna má oft sjá heilmikið af dauðum greinum í kringum trén. Það getur komið sér ágætlega. Þegar þær rotna nýtast næringarefnin trjánum sem næst eru. Það eru einmitt trén sem greinarnar uxu á (Clapp & Crowson 2022).

 

Hér sést vel að hvert tré hefur bæði karlkyns og kvenkyns köngla og þeir birtast á enda greinanna. Aðeins einn köngull á hverri grein. Hjá þessu tré eru kvenkönglarnir ofar á trénu. Myndin er héðan.

Annað er merkilegt við þetta barr og þessar greinar. Þegar nýjar greinar vaxa út úr stofninum er ekki að sjá neinar brumhlífar. Þess í stað eru þær í fyrstu þaktar hvítri froðu sem sennilega á að vernda þær fyrir einhverri óværu. Þegar greinin vex áfram kristallast þessi froða og harðnar. Síðan fellur hún af sem litlir, ljósir kögglar. Komið hefur í ljós að þeir eru ákaflega eldfimir (Clapp & Crowson 2022). Ósagt skal látið hvort þetta hefur einhvern tímann haft sérstakan þróunarfræðilegan ávinning eða hver hann er.

Í pistli okkar um strandrauðvið (sem er væntanlegur á næstu vikum) kemur fram að sú forna tegund myndar smágreinar sem falla af með barri og öllu saman en hjá Wollemia eru það heilar greinar sem falla af. Þetta gerir það að verkum að þótt trén geti orðið um 40 metra há verða greinarnar sjaldan mjög stórar. Þær falla af áður en að því kemur. Því er króna trjánna sjaldan mjög umfangsmikil. Algengt er að greinarnar verði ekki nema um 30-50 cm langar þótt þær geti sjálfsagt orðið stærri í sumum tilfellum (Clapp & Crowson 2022).

 

Grönn króna á Wollemia nobilis. Myndina á Max Moore/Dreamstime.com en við fengum hana af vef Britannicu. Takið eftir hvað barrið er líkt laufinu á burknunum sem standa framan við tréð. Í grasagörðum virðist algengt að sýna þessi líkindi með því að planta burknum undir trjánum. Það sést einnig vel á myndinni hvernig greinarnar vísa upp efst á trénu en niður þegar kemur neðar á tréð. Þetta er dæmigert fyrir tegundina.

Börkur

Þótt greinar og barr þessara trjáa séu furðuleg er það ekki eina undrið í útliti og vexti þessara trjáa. Börkurinn á fullorðnum trjám er stórfurðulegur. Hann líkist ekki berki á nokkru öðru þekktu tré. Það er eins og hann sé þakinn stórum og áberandi bólum eða litlum kýlum. Ef okkur þykja þetta ekki nægilega huggulegar lýsingar getum við sagt að þetta minni á Cocoa Puffs, Nóa kropp eða hrískúlur. Sennilega er bara best að skoða meðfylgjandi mynd frekar en að reyna að lýsa þessu nánar. Börkur á mjög ungum trjám hefur ekki þetta útlit. Þá myndar hann rauðbrúnar flögur (Jones o.fl. 2024).

Börkur á fullorðnum trjám er þakinn brúnleitum kúlum sem eru um 1 til 2 cm í þvermál. Ef til vill mætti kalla tegundina nóakroppstré. Fyrri myndin sýnir fullorðið tré og er fengin héðan en sú seinni sýnir ungt tré sem byrjað er að mynda þessar kúlur. Hún er héðan en hana tók Trevor Hinchliffe.

Stofnar

Yngri tré hafa að jafnaði bara einn stofn eins og algengast er meðal trjáa. Svo vaxa upp fleiri stofnar frá sama rótarhálsi eða sömu rót. Stundum hafa trén einn aðalstofn og nokkra minni stofna en með auknum aldri getur reynst erfitt að greina mun á aldri og stærð stofnanna. Reyndar segir hér að stofnarnir á sama trénu geti orðið allt að 40. Það hljóta þá að vera gömul tré.

Sambærilega endurnýjun trjástofna þekkjum við vel á íslenska birkinu. Það getur viðhaldið sér kynlaust með því að vaxa upp af rótarhálsinum og smám saman bætt við fleiri stofnum þótt eldri stofnar drepist. Sama fyrirbæri þekkist hjá mörgum lauftrjám eins og til dæmis reynivið, en barrtré hafa að mestu lagt þennan sið af. Það er helst að finna þetta hjá fornum ættkvíslum eins og strandrauðvið, Sequoia, fornrauðvið, Metasequoia og svo okkar tegund, Wollemia nobilis.

Brotni stofnar þessara trjáa getur rótin lifað áfram og þá vaxa upp nýir stofnar af eldri rótum, rétt eins og hjá íslenska birkinu. Geta stofnarnir sem best verið um 35 til 40 metra háir. Borkjarnasýni hafa verið tekin úr þessum stofnum og komið hefur í ljós að þeir geta orðið að minnsta kosti orðið 450 ára en talið er víst að ræturnar geti verið miklu eldri. Ef til vill eru þær nokkur þúsund ára gamlar (Clapp & Crowson 2022, NSW 2024).

 

Fjölmargir stofnar vaxa upp frá rótunum. Þetta gæti sem best allt saman verið einn og sami klónninn með sama erfðaefnið í hverjum stofni. Sjá má dauðar greinar í skógarbotninum. Myndin fengin frá NSW National Parks and Wildlife Service en hana tók Jaime Plaza hjá Botanic Gardens Trust.

Náttúrusaga

Þegar Ford fór að framleiða bíla sem við köllum gjarnan Gamla Ford eða hið svokallaða Ford T-módel, þóttu þeir bílar mjög þróaðir miðað við aðra bíla á þeim tíma. Síðan hefur verið heilmikil þróun í bílasmíði og engum dettur í hug að keyra daglega um á Gamla Ford um þessar mundir þótt hann virki ennþá. Aðrir bílar hafa einfaldlega tekið við og enn er þróun þeirra í fullum gangi. Samt er það svo að mörgum þykir gaman að því að eiga Ford T-módel og hann vekur enn athygli. Hið sama má segja um tré. Þróun þeirra er enn í gangi þótt hún taki lengri tíma og gerist í smærri stökkum en þróun bíla í heiminum. Wollemia nobilis er Ford T-módel í heimi trjáa. Segja má að önnur tré hafa fyrir löngu tekið fram úr tegundinni í þróuninni en hún lifir enn og virkar ágætlega. Jafnvel betur en Fordinn. Þó er það svo að önnur tré hafa ýtt tegundinni út af stóra sviðinu, rétt eins og nýrri bílar hafa gert við Gamla Ford.

 

Ford T-model frá árinu 1914. Segja má að tré vikunnar sé Gamli Ford meðal trjáa í heiminum. Hann er úreltur en flottur og það væri synd ef hann hyrfi af jörðinni. Myndin fengin héðan.

Einu sinni var allt þurrlendi jarðar fast saman í eina heimsálfu. Svo klofnaði hún í tvær. Tré sem komu fram og þróuðust á suðurálfunni, Gondwana, líta allt öðruvísi út en þau sem þróuðust á norðurálfunni, Lárasíu. Það er ekki erfitt að skilja það því álfurnar klofnuðu hvor frá annarri á miðju júratímabilinu. Því hafa lífverur haft ákaflega langan tíma til að þróast og breytast.

Jarðsagan geymir tilviljunarkenndar minjar af því lífi sem þrifist hefur á jörðinni. Jarðfræðingar hafa fundið fjölbreyttar leifar af trjám sem líkjast Wollemia tegundinni sem nú lifir. Þeim hefur líka tekist að greina steingerð frjó tegundanna og tekur það af allan vafa um skyldleikann. Allt bendir til að tré af þessari ættkvísl hafi áður verið býsna algeng og vaxið á stórum, samfelldum svæðum sem lykiltré í sinni vist. Við getum samt ekki fullyrt neitt um hversu margar tegundirnar voru eða hvort einhver þeirra var alveg eins og Wollemia nobilis. Nægilega erfitt er að ákveða hvar mörk milli núlifandi tegunda liggja. Það er þó hrein hátíð miðað við steingervingana. Sumir þeirra hafa verið greindir til ýmissa tegunda og ættkvísla og ekkert sem bendir til að það breytist, þrátt fyrir skyldleikann við Wollemia. Það er svolítið eins og nöfn steingervinga lifi stundum sjálfstæðu lífi, án tenginga við núlifandi tegundir. Þess vegna er ekki alveg einfalt að segja til um hversu afmælisbarnið er í raun gamalt. Við vitum bara að tegundin fannst fyrir 30 árum. Hvernig sem þessu er háttað má minna á að þegar Ástralía og Suðurheimskautslandið voru samföst fyrir um 80 milljónum ára, var mun heitara og rakara í heiminum en á okkar tímum. Þá uxu regnskógar á því samfellda svæði og reyndar mun víðar. Síðan þetta var hefur mikið kolefni bundist í gróðri sem síðan hefur grafist í jarðlög. Því er ekki eins hlýtt í dag og á þeim tíma. Á meðal þessara fornu trjáa voru tegundir sem að minnsta kosti líkjast Wollemia. Slík tré hafði verið þekkt úr 35 milljón ára gömlum jarðlögum í Ástralíu og úr 80 til 90 milljón ára gömlum jarðlögum og jafnvel úr allt að 120 milljón ára jarðlögum úr öðrum svæðum á suðurhveli jarðar ef marka má Clapp og Crowson (2022). Heimildum ber nokkuð vel saman um þetta efni. Má nefna að Eckenwalder (2009) segir að elstu minjar um skyldar tegundir séu um 90-125 milljón ára gamlar. Það gerir ættkvíslina og ef til vil sjálfa tegundina eina af þeim allra elstu sem til er í heiminum.

Í Ástralíu hafa fundist ung lauf og gömul lauf, frjó, fræ og könglar sem varðveist hafa sem steingervingar. Sambærilegir steingervingar hafa einnig fundist á Nýja-Sjálandi og á Suðurskautslandinu, að sögn Eckenwalder (2009). Þegar þeir fundust þekktu menn ekki þetta tré svo steingervingarnir hafa löngum verið taldir til útdauðrar ættkvíslar sem nefnd hefur verið Dilwynites. Sennilega er þetta þó sama ættkvíslin. Að minnsta kosti eitthvað mjög skylt. Yngstu steingervingarnir eru 2 milljón ára gamlir og eru í Tasmaníu (Eckenwalder 2009, NSW 2024). Við þetta má bæta að Yatskievych (2024) nefnir á vef Britannicu að fyrir um 10 milljónum ára hafi tegundinni tekið að fækka mjög mikið og smám saman horfið af sjónarsviðinu.

 

Græn lauf Wollemia nobils og steingervingur sem trúlega er af Wollemia tegund. Myndin fengin frá NSW National Parks and Wildlife Service en hana tók Jaime Plaza hjá Botanic Gardens Trust. Aljos Farjon (2008) gefur lítið fyrir svona myndir og segir vonlaust að fullyrða hvort þetta sé af sömu ættkvísl, hvað þá sömu tegund. Til þess vanti frekari steingervinga frá sömu slóðum. Hann telur að grasafræðingar í Ástralíu hafi gengið of langt í markaðssetningu þessa trés sem lifandi steingervings.

Svo gerðist það að Suðurskautslandið og Ástralía klofnuðu hvort frá öðru. Eftir þennan aðskilnað breyttist loftslag um allan heim. Það tók að kólna. Suðurskautið kólnaði svo mikið að þar vaxa nú engin tré, eins og kunnugt er. Tré sem líktust Wollemia hafa tapað í samkeppninni fyrir nýrri tegundum á þessum tíma um nær gjörvallt suðurhvel jarðar, rétt eins og gamli Ford tapaði fyrir nýrri bílum um allan heim. Yatskievych (2024) segir að fyrir um 10 milljón árum hafi tegundinni farið að fækka um allt suðurhvelið. Wollemia nobils hélt eingönguvelli í Ástralíu, enda bendir flest til að álfan hafi verið með heppilegu loftslagi fyrir tegundina í nokkuð langan tíma. Smám saman versnuðu þó skilyrði fyrir tegundina á þeim slóðum og eins og að ofan greinir eru elstu steingervingar tegundarinnar um 2 milljón ára gamlir.

Nú er svo komið að hún finnst aðeins villt í djúpum, rökum gljúfrum þar sem loftslag er svipað því og það var í fyrndinni.

 

Slökkviliðsmaður hugar að eldvörnum í gljúfri. Þekkja má stofninn á Wollemia nobilis fyrir framan hann á öllu Nóakroppinu. Myndina á New South Wales Government og við fengum hana héðan.

Staðan

Wollemia nobilis sem heimamenn kalla Wollemi Pine vex aðeins í Wollemi National Park sem er í Wollemi Wilderness. Þar hefur tegundin aðeins fundist á fjórum aðskildum stöðum. Allir vaxtarstaðirnir eru í sama djúpa gljúfrakerfinu og er þeim haldið vandlega leyndum. Almenningur fær ekki leyfi til að skoða þessi tré, samkvæmt NSW (2024).

Þarna í gljúfrunum er mikill raki og algert skjól. Í kringum trén má stundum finna ungar plöntur en sjaldgæft er að þær nái fullorðinsaldri. Algengara er að tegundin viðhaldi sér með stofnskotum. Því á lítil uppstokkun erfðaefnis sér stað. Það veldur áhyggjum. Samkvæmt The Gymnosperm Database var staðan þannig árið 2020 að aðeins var vitað um 89 einstaklinga og af þeim voru aðeins 46 sem töldust hafa náð fullorðinsaldri. NSW National Parks and Wildlife Service (2024) gefur upp sömu tölur.
 
 

Plöntum af Wollemia nobilis hefur verið dreift frá Sydney til grasagarða víða um heim. Eins og sjá má myndar tegundin kímblöð sem eru frábrugðin öðrum laufum. Barrtré í norðrinu af þallarætt, Pinaceae, vaxa á allt annan hátt. Þetta er líkara því sem við þekkjum hjá lauftrjám og öðrum tvíkímblaða dulfrævingum. Myndin frá Royal Botanic Garden Sydney.

Rannsóknir á erfðaefni trjánna staðfesta lítinn fjölbreytileika (Jones o.fl. 2024). Svo er að sjá sem tegundin nálgist blindgötu og hætta er á að hún standist ekki yfirstandandi loftslagsbreytingar á heimaslóðum. Skógareldar hafa geisað á þessum slóðum og þá hefur öllum ráðum verið beitt til að verja gljúfrin eins og hægt er. Hingað til hefur það tekist.

 

Minnstu munaði í hamfaraeldum sem urðu á svæðinu sumarið 1999 til 2000 (árstíðirnar að sjálfsögðu öfugar við okkar árstíðir) að það færi illa fyrir þessum trjám. Þá tókst að verja gljúfrin þar sem tegundina er að finna. Myndin fengin úr grein Jones o.fl. (2024) sem vistuð er á síðu The Gymnosperm Database. Mynd: Peter Hannam (2020).

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00