Fara í efni
Tré vikunnar

Blæöspin í Grundarreit og uppgangur myndlistar

TRÉ VIKUNNAR - IX

Árið 1899 hófst gróðursetning í svokallaðan Furulund á Þingvöllum. Markar sá reitur ákveðið upphaf skipulagðrar gróðursetningar á Íslandi eins og flestir vita. Færri vita að Furulundurinn á sér systurreit norður í Eyjafirði. Stafar þessi almenna vankunnátta sennilega af meðfæddu lítillæti Eyfirðinga sem eru ekkert að blása upp svona merkilegar staðreyndir. Líta má á þessa tvo reiti sem fyrstu tilraunir til endurreisnar skóga á Íslandi. Á sínum tíma voru gróðursettar blæaspir í báða reitina. Seinna kom í ljós að blæöspin var til á fáeinum stöðum í landinu en hafði átt langt hnignunarskeið sem nánast gekk af henni dauðri á landsvísu.

Græn og gul laufblöð á blæöspum í Grundarreit. Á haustin má greina suma klónana í sundur á lit laufblaða. Ljósmynd: Sigurður Arnarson.

Á sama tíma voru ármenn íslenskrar málaralistar að marka sín spor í listasöguna. Auðvitað hafði myndlist verið stunduð á Íslandi allt frá landnámi, en hún hafði átt sitt langa hnignunarskeið, rétt eins og blæöspin. Því má segja að þetta tvennt tengist. Um og upp úr aldamótunum 1900 var unnið brautryðjendastarf, bæði í skógrækt og myndlist á Íslandi. Fyrir hvoru tveggja ber að þakka.

Tengingar

Í upphafi 20. aldar var unnið mikið brautryðjendastarf í því að skapa sjálfsmynd hinnar ungu þjóðar. Hlaut hún fullveldi árið 1918. Íslensk myndlist og ræktun skóga til nytja og yndis var partur af uppbyggingu þessarar sjálfsmyndar. Eftir að þessir tveir systurreitir, sem nefndir voru í inngangi, voru settir á stofn fylgdi gróðursetning víða um land og enn sér ekki fyrir endann á þeirri jákvæðu þróun. Sama má segja um myndlistina. Þeim fjölgaði ört sem lögðu stund á hana og túlkun myndlistarmanna á íslenskri náttúru á stóran þátt í sjálfsmynd þjóðarinnar. Stundum er talað um þá Þórarinn B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval og Jón Stefánsson sem frumkvöðlana fjóra í íslenskri myndlist ef marka má Wikipediu. Þeir voru ungir menn þegar gróðursetning íslensku skóganna hófst.

Tenging milli myndlistar og skógræktar má sjá á forsíðu Skógræktarritsins sem áður hét Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Frá árinu 1990 hefur myndlistaverk, tengt skógum, prýtt forsíðu ritsins og verður væntanlega áfram. Fram að því voru vanalega ljósmyndir á forsíðunni.

Lýsing úr Flateyjarbók. Ekki eru plönturnar auðgreindar til tegunda. Myndin er fengin á heimasíðu Árnastofnunar.

Endurnýjun myndlistar

Eins og blæöspin á myndlist sér langa sögu á Íslandi. Handritin okkar voru iðulega skreytt (kallast lýsing handrita) og þar má oft sjá myndir af einhvers konar stílfærðum trjágróðri. Auðvitað er þar líka skrifað um tré, meðal annars Ask Yggdrasils. Samt er það svo að myndlistin fór einhvern vegin undir radarinn þegar tímar liðu, rétt eins og blæöspin.

Ein af teikningum Sölva Helgasonar sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu.

Þrátt fyrir að skógar hafi að mestu horfið hefur trjágróður og annar gróður líklega alltaf verið hluti af menningu landsins í einhverju formi. Má nefna þennan pistil um átrúnað á reynivið sem dæmi. Sennilega hefur alltaf verið einhvers konar myndlist í landinu. Flestir þekkja skemmtilegar teikningar Sölva Helgasonar (1820-1895). Þar má gjarnan sjá ýmiss blóm, lauf og greinar. Á hans tíma voru skógar Íslands í algeru lágmarki. Þá lifði enginn á Íslandi af myndlist og reyndar ekki heldur af skógrækt. Svo var það um líkt leiti og gróðursetningar blæaspa hófust að sérhæfðir listamenn komu fram.

Í myndum Kjarvals má oft sjá ýmsa runna frekar en tré. Aspirnar í Grundarreit voru einmitt runnar frekar en tré þegar Kjarval var upp á sitt besta.

Frumkvöðlarnir fjórir eru nefndir hér ofar. Sjálfsagt er að segja ögn frá hverjum og tengslum þeirra við árin sem gróðursetning blæaspa hófst.

Fyrstur Íslendinga til að fá styrk til myndlistarnáms erlendis var Þórarinn B. Þorláksson (1867 - 1924). Hann hefur einnig verið nefndur fyrsti landslagsmálari Íslands. Árið 1900, sama ár og gróðursetning danskra blæaspa hófst í Grundarreit, fékk Þórarinn styrk frá Alþingi til að nema listir í Danmörku.

Flóamaðurinn Ásgrímur Jónsson (1876 - 1958) stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn árin 1900 - 1903. Hann var fyrstur Íslendinga til að gera málarastarf að aðalatvinnu sinni.

Það má heita táknrænt að Jón Stefánsson (1881 - 1962) fór fyrst til Danmerkur sama ár og gróðursetningin blæaspa í Grundarreit hófst. Reyndar ætlaði Jón ekkert að verða listmálari þegar hann fór út aldamótaárið 1900, en dvöl hans í Kaupmannahöfn breytti því.

Jóhannes Kjarval (1885 - 1972) var af fátæku fólki kominn. Vinir hans söfnuðu fé svo hann gæti farið til Englands árið 1911 til að nema myndlist. Hann komst samt ekki í skóla fyrr en árið 1913 og þá í Danmörku. Þar nam hann málaralist í fjóra vetur. Hann var því á landinu þegar blæösp var fyrst plantað.

Smellið hér til að lesa pistilinn í heild.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistill um Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00

Tré og upphaf akuryrkju í heiminum

Sigurður Arnarson skrifar
16. október 2024 | kl. 09:09