Fara í efni
Tré vikunnar

Ættkvísl lífviða

TRÉ VIKUNNAR - LXXIV

Á undanförnum árum hefur ræktun nýrra tegunda aukist á Íslandi. Tré af ættkvísl lífviða eða Thuja spp. er þar á meðal. Einkum hefur ræktun slíkra trjáa aukist í görðum landsmanna en einnig má planta þeim í skógarskjóli. Nú eru almennt taldar fimm tegundir til þessarar ættkvíslar. Tvær vaxa villtar í Ameríku og þrjár í Asíu. Amerísku tegundirnar heita kanadalífviður, T. occidentalis og risalífviður, T. plicata. Um þessar tvær tegundir höfum við fjallað áður í sérstökum pistlum og má lesa þá umfjöllun með því að opna tenglana undir nöfnum þeirra.

Hinar þrjár asísku tegundir verða saman í einum pistli en nú beinum við sjónum okkar að ættkvíslinni í heild.
 
 

Risalífviðir, Thuja plicata eru ræktaðir víða utan sinna náttúrulega heimkynna. Þessi er í Grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Mynd: Sig.A


Þessi risalífviður er í Grasagarðinum í Reykjavík. Mynd: Sig.A.

Heimkynni og útbreiðsla 

Í heild má segja að þetta sé norðlæg ættkvísl. Allar tegundirnar vilja fremur svalt og rakt loftslag. Þær er ekki að finna í meginlandsloftslagi, þar sem lítillar útkomu gætir en vaxa frekar nálægt ströndum og nokkuð hátt upp til fjalla þegar sunnar dregur. Þótt lífviðir teljist tegunda sem vaxa um norðanverðan hnöttinn vaxa þeir þó ekki eins langt í norður og til dæmis greni og fura. Lífviði er ekki að finna í nyrstu svæðum barrskógabeltisins heldur vaxa þeir í suðurhluta þess og skammt sunnan þess þar sem lauftré og barrtré vaxa saman. Slíkir staðir geta vel hentað fyrir plöntur sem rækta skal á Íslandi ef þeim er skapað sæmilegt skjól. Allir lífviðir á Íslandi vilja gott skjól en flestum er alveg sama þótt þær fái ekki mikla birtu.

 

Kort sem sýnir útbreiðslu lífviða í heiminum (bleikt á kortinu) en einnig eru merktir inn nokkrir fundarstaðir steingervinga. Eins og sjá má hafa minjar um lífviði fundist bæði á Grænlandi og Svalbarða, langt norðan við Ísland. Kortið fengið héðan.

Það verður að teljast nokkuð líklegt að ættkvíslin hafi vaxið hér á landi fyrir ísöld. Steingervingar á Íslandi hafa verið greindar til þessarar ættar og hafa bæði fundist hér greinar og frjó. Það er því alveg ljóst að einhverjar tegundir ættarinnar voru hér. Vandinn er sá að ekki hefur tekist að greina alla steingervingana nánar til ættkvísla, hvað þá tegunda. Því getum við ekki fullyrt að lífviður hafi vaxið hér en ef ekki, þá uxu hér skyldar tegundir (t.d. Friðgeir, Leifur og Denk 2007). Elstu jarðlög Íslands sem geyma þekkta steingervinga eru um 15 milljón ára gömul. Þau eru því miklu yngri en jarðlögin sem geyma elstu steingervinga þessarar ættkvíslar fyrir norðan okkur.

 

Steingervingur af fornrauðvið af ættinni Cupressaceae hefur fundist í íslenskum jarðlögum. Lífviður er af sömu ætt en ekki hefur tekist að staðfesta að hann hafi verið hér. Margir steingervingar líkir þessum hafa fundist í Selárdal í Arnarfirði og í Botni í Súgandafirði. Kvarðinn er 2 cm.

Staða í vist

Þegar reynt er að velja trjáplöntum réttan stað í görðum, sumarbústaðalöndum eða skógum, er gott að þekkja aðeins til þeirra krafna sem þær gera til að geta vaxið sæmilega. Þær kröfur skipta höfuðmáli þegar vist tegundanna er skoðuð. Allar fimm tegundirnar eru svokölluð síðframvindutré í heimkynnum sínum. Það merkir að þær koma sér fyrir í skógum þar sem önnur tré skýla, en síður á berangri. Ein tegundin, kóreulífviður, Thuja koraiensis, getur reyndar einnig komið snemma inn í framvinduna og vex meðal annars sem runni á berangri hátt til fjalla í Kóreu. Í skógum er að jafnaði mun betra skjól en á berangri og oftast frjór jarðvegur. Aftur á móti er að jafnaði minni birta í skógum en finna má þar sem tré skyggja ekki á. Þetta er gott að hafa í huga þegar þessum trjánum er plantað. Þau þurfa fyrst og fremst gott skjól til að ná þroska en þeim er alveg sama þótt þau séu ekki böðuð sólskini allt sumarið. Plönturnar eru töluvert skuggþolnar. Aftur á móti er það svo að þar sem birtu nýtur, þótt ekki sé nema part úr degi, getur orðið heldur hlýrra en í dimmum skuggum. Þar verður því meiri ljóstillífun því hún er ekki aðeins háð birtu, heldur einnig hitastigi. Þetta skiptir máli á Íslandi þar sem lofthitinn er að jafnaði ekkert sérstaklega hár.

 

Plantaður lífviðarskógur. Mynd: Kenneth & Birgitta Kullman Art Collections.

Ættfræði

Þegar kemur að berfrævingum, sem við oftast köllum barrtré, eru tvær ættir mest áberandi. Í barrskógabeltinu er önnur þeirra nær einráð á stórum svæðum. Það er þallarættin eða Pinaceae. Hin ættin er fáliðaðri í skógum heimsins þótt býsna margar ættkvíslir tilheyri henni. Sú ætt kallast Cupressaceae á latínu en á íslensku hafa ýmiss nöfn verið notuð svo sem einisætt, lífviðarætt, sýprusætt, kýprusætt og grátviðarætt. Í ættinni eru hátt í 30 ættkvíslir en áður voru þær taldar um 20. Nú hefur ættin Taxodiaceae, með tæplega tug ættkvísla, verið sameinuð Cupressaceae ættinni og því fjölgar í Cupressaceae sem því nemur. Meðal ættkvísla í þessari ætt má nefna sýprusa, Chamaecyparis og Cupressus tegundir., eini, Juniperus tegundir, risafurur, Sequoiadendron giganteum og strandrauðvið, Sequoia sempervirens, sem óx á Íslandi áður en ísöld gekk í garð. Þær tvær síðasttöldu tilheyrðu áður Taxodiaceae ættinni. Þegar greinar á trjám þessara ættkvísla eru skoðaðar sést þessi skyldleiki ágætlega. Sérstaklega þegar þær eru bornar saman við greinar trjáa af þallarætt en þær eru allt öðruvísi.

Mikil uppstokkun hefur verið innan þessarar ættar á undanförnum árum og upplýsingar í eldri heimildum teljast oft úreltar. Koma þar fyrst og fremst til rannsóknir grasafræðinga á erfðaefni trjánna sem sýna okkur að skyldleikinn getur stundu verið á annan hátt en útlitið gefur til kynna. Vegna þessarar uppstokkunar hafa jafnvel ný fræðiheiti ættkvísla birst á prenti en þar sem margir grasa- og flokkunarfræðingar eru íhaldssamir í þessum efnum telja sumir að ekki séu öll kurl komin til grafar.

 

Kanadalífviðurinn 'Smaragd' í ræktun í Laugardal. Kanadalífviður er mest ræktaði lífviður í heimi og af honum eru til ótal yrki. Mynd: Sig.A. 

Lýsing

Lífviðir eru sígræn, hægvaxta og langlíf tré sem að jafnaði halda barri sínu vel, allt frá toppi til táar ef nota má það orðtak um tré. Ef til vill er aðeins nákvæmara að segja frá toppi til róta, en það stuðlar ekki. Þessi vöxtur gerir það að verkum að lítið eða ekkert sést í stofn ungra trjáa. Gamall lífviður í þéttum skógum í útlöndum fellur ekki undir þessa lýsingu. Hann á það til að missa neðstu greinarnar og þá verður stofninn oft mjög áberandi.

Villtar tegundir af lífviðum hafa að jafnaði keilulaga krónu en til eru mörg yrki í ræktun sem hafa annað vaxtarlag. Þar er kúluformið til dæmis nokkuð áberandi og slútformið er sumsstaðar vinsælt. Trén geta haft einn eða marga stofna og börkurinn á það til að flagna af í löngum, lóðréttum næfrum. Oftast eru greinarnar uppréttar en neðstu greinarnar geta skotið rótum ef þær liggja á jörðinni.

 

Lífviðir eru ræktaðir víða um heim. Sennilega er þetta kanadalífviður sem hér vex á Jótlandi árið 2007. Mynd: Sig.A.

Lauf eða barr?

Á íslensku eru berfrævingar gjarnan kallaðir barrviðir eða barrtré, enda hafa þeir flestir barr á greinum sínum. Þegar við tölum um barr sjá flestir fyrir sér nállaga fyrirbæri eins og vex á greni, furu eða jafnvel eini. Það er gjörólíkt þessu græna sem vex á lífviðum. Ef til vill væri nær að kalla þetta lauf en barr en þá þyrftum við að endurskoða hugtakið barrtré. Þess vegna skulum við bara kalla þetta barr en ekki lauf.

Smágreinarnar eru þaktar litlum, grænum flögum sem leggjast hver yfir aðra eins og hreistur á skriðdýrum eða á fiskiroði. Hugtakið flögutré gæti passað fyrir þessa gerð ef það væri til. Hver af þessum litlu flögum er í raun eitt laufblað, eða barrnál. Hver flaga er ekki nema um 2 mm á lengd en saman þekja þær smágreinarnar svo þær eru alveg grænar. Þess vegna mætti halda að hver smágrein væri í raun eins og einhvers konar barr, en svo er ekki. Þessar smáu flögur liggja á flötum smágreinum en vaxa ekki í allar áttir út frá sívölum greinum eins og algengast er með barr. Þess í stað vaxa þær frekar í tveimur víddum í stað þriggja. Svona útlit er annars helst að sjá á greinóttum kóröllum eða teiknuðum ættartrjám. Í umfjöllun hér að neðan tölum við um barr eins og hefðin mælir fyrir, þótt einhverjum kunni að þykja það vera heldur ónákvæmt.

 

Barrið, eða laufið, myndar litlar flögur sem skarast. Mynd: Sig.A.

Könglar

Eins og flestir aðrir berfrævingar myndar lífviðurinn köngla. Þeir eru harla ólíkir könglum barrtrjáa af öðrum plöntuættum. Rétt eins og barrið eru þeir mjög litlir og að auki leggjast köngulskeljarnar þannig hver á aðra að könglarnir minna á pínulitlar rósir þegar þeir opnast. Hver tegund hefur mismunandi köngla og hægt er að greina lífviði til tegunda á þeim. Við eltumst ekki við það hér enda ekki alltaf hægt að skoða þá. Lífviðir í ræktun á Íslandi hafa stundum náð að mynda frjótt fræ en ekki er vitað til þess að þeir hafi enn sáð sér út í náttúruna.

 

Könglar á kanadalífvið í Lystigarðinum. Grænu könglarnir eru yngri og minna þroskaðir. Gömlu könglarnir hanga niður, eru brúnir og hafa opnast. Myndina tók Björgvin Steindórsson og birti hana á heimasíðu Lystigarðsins.

Viður

Viðurinn úr lífviðartrjám er rauðbrúnn á litinn og lyktar vel. Það eru fyrst og fremst hinar amerísku tegundir sem nýttar eru til timburframleiðslu og risalífviðurinn er mun meira nýttur en kanadalífviður. Hinar asísku tegundir eru það fágætar að viður þeirra er ekki markvisst nýttur þótt heimamenn nýti hann til eldiviðar og smíða eftir hentugleikum. Viður lífviða klofnar auðveldlega í flögur og planka. Hann er mjög endingargóður, bæði veðurþolinn og nánast ónæmur fyrir ásókn rotsveppa. Þessir eiginleikar einkenna notkun viðarins. Við sögðum frá notkun risalífviðar í tótemsúlur og eintrjáninga í viðkomandi pistli og bættum um betur í pistli okkar um kanadalífvið. Báðar tegundir eru gjarnan notaðar í hverskyns burðarvirki vegna þess hversu þolnar þær eru og frumbyggjar Ameríku byggðu hús úr viði lífviða. Það sem er ósagt er hvernig frumbyggjar Ameríku unnu viðinn. Einkum á það við um risalífviðinn.

Farjon (2008) og Spade (2023) segja báðir frá merkilegri aðferð sem notuð var við að vinna við risalífviðar. Um þennan sið er einnig fjallað á þessari heimasíðu. Trén eru það stór að ef vantar planka eða spýtu er það tómt vesen að höggva niður heilu trén, sérstaklega ef verkfærin er ekki heppileg til slíkrar iðju og búin til úr óheppilegum efnum af fólki sem ekki þekkti til járnvinnslu. Þess í stað skáru innfæddir búta úr risavöxnum trjánum og sjást þess enn merki á gömlum trjám. Kom þar sér vel hversu auðveldlega viðurinn klofnar. Ef þetta er ekki gert of oft og aðeins tiltölulega lítið tekið af hverju tré þá verður trjánum ekki tiltakanlega meint af. Þannig gátu frumbyggjar við vesturströnd Norður-Ameríku nýtt gjafir trjánna án þess að drepa þau. Farjon (2008) segir að enn þann dag í dag sé algengt að nota risalífvið í þakskífur og mjög algengt er að byggja gróðurhús úr viði þessara trjáa. Einnig gufuböð og fleira þar sem raki getur skemmt annan við. Því miður, segir Farjon, er mikill hluti þess timburs sem nýttur er tekin úr gömlum lundum á algerlega ósjálfbæran hátt. Í bók sinni, A Natural History of Conifers (2008), kallar hann eftir að risalífvið verði plantað í auknum mæli til timburframleiðslu til að vernda og verja villta trjálundi. Aðeins þannig, segir hann, er hægt að tryggja sjálfbæra nýtingu.

Myndir sem sýna hvernig frumbyggjar Norður-Ameríkju hafa tekið smá sneiðar af risalífvið til eigin nota án þess að fella trén. Myndirnar fengnar héðan þar sem fjallað er um þennan sið.
Nafnið

Í pistli okkar um kanadalífvið sögðum við frá því að heitið lífviður er í raun bein þýðing á nöfnunum sem víða eru notuð, svo sem arborvitae og fleiri sem dregið er af franska heitinu Arbre de vie sem merkir beinlínis „lífsins tré“. Við endurtökum það ekki allt saman hér en vísum í áðurnefndan pistil. Fræðiheitið á sér líka merkilega sögu en byggist að hluta til á misskilningi. Það er komið úr grísku en þar er orðið þyo eð þúó (thyô eða thuo hjá þeim sem ekki þekkja séríslenska stafi) notað yfir eini eða Juniperus tegundir, sem er af annarri ættkvísl innan þessarar ættar. Merking orðsins er talin vera: „Ég fórna“. Grikkir eiga líka orðið þúos (thuos) yfir reykelsi. Áður fyrr var einir gjarnan brenndur við fórnarathafnir (Wells 2010). Það var sjálfur Linnaeus sem gaf ættkvíslinni þetta nafn árið 1753. Valdi hann nafnið með vísan í þessar fórnarathafnir og hversu góð lykt er af trjánum. Hann notaði heitið þrátt fyrir að í grísku sé það notað á aðra ættkvísl.

Við þetta má bæta að vestur í Ameríku býr þjóð frumbyggja sem kallast Ojibwe. Þeir báru (og bera ef til vill enn) smágreinar af kanadalífvið inn í híbýli sín til að vernda þau fyrir illum öndum og fengu í leiðinni góða lykt (Spade 2023). Þetta er furðu nálægt siðum Grikkja sem bjuggu handan Atlantshafsins. Ef til vill vissi hinn sænski Linnaeus lengra nefi sínu þegar hann gaf ættkvíslinni fræðiheiti og tók mið af siðum Ojibweþjóðarinnar.

 

Lífviður þolir vel að vera klipptur ef þörf er á. Myndin fengin héðan þar sem fjallað er um kanadalífvið.

Lífviðir og sýprusar

Önnur ættkvísl barrtrjáa, sem ræktuð er á Íslandi, hefur mjög líkt barr og lífviðurinn. Það er hin náskylda ættkvísl sýprusa. Heimildum ber ekki saman um hvort þau tré sem hér eru ræktuð teljist til Cupressus ættkvíslarinnar eða Chamaecyparis. Það er ekki alltaf auðvelt að greina þessar ættkvíslir í sundur. Þó eru nokkur atriði sem geta hjálpað. Toppurinn á lífviðum er oftast uppréttur en slútir á sýprusum nánast eins og á þöllum. Þetta er samt ekki öruggt því yrki geta verið mjög misjöfn. Sumar heimildir greina frá því að hægt sé að þekkja ættkvíslirnar í sundur á lyktinni og það kann vel að vera rétt, en það er ekki beinlínis auðvelt að lýsa henni á prenti. Auk þess er lyktarskyn manna nokkuð mismunandi. Mest er lyktin þegar trén eru í örum vexti. Annað er að það er mun algengara að lífviðir tapi nokkru af lit sínum á vetrum og verði brúnleitir. Það er þó ekki algilt en má líta á sem ættkvíslareinkenni.

 

Mynd úr garði Jakobs Axels Axelssonar. Þarna má sjá sígrænu tegundirnar Chamaecyparis lawsoniana 'Columnaris', Chamaecyparis lawsoniana 'Van Pelt's Blue', Thuja occidentalis 'Smaragd', Thuja occidentalis 'Smaragd D'or', Thuja plicata 'Atrovirens', Taxus baccata 'Fastigiata Robusta' og Juniperus squamata 'Blue star'. Veggurinn á myndinni skýlir fyrir vindum og morgunsól. Mynd og upplýsingar: Jakob Axel Axelsson.

Munur er á könglum ættkvíslanna, en þeir sjást ekki alltaf og því ekki alltaf hægt að nota þá til að greina tegundir í sundur. Lífviðir hafa ílanga köngla. Hver köngull hefur nokkur pör af hreisturskeljum sem skarast. Þeir þroskast mun fyrr en hjá sýprusum og opnast þá og hanga niður. Könglar sýprusa eru kúlulaga og með miklu fleiri köngulskeljar sem liggja þvers og kruss. Það getur tekið þá mörg ár að þroskast að fullu og þeir hanga mun lengur á trjánum.

Enn er ónefnt að mismunandi er á milli þessara ættkvísla hvernig barrið raðast á greinarnar. Það er að vísu svo smágert að annað hvort þarf mjög góða sjón eða stækkunargler til að sjá muninn. Þegar barrið er skoðað er það bogadregið í endann hjá lífviðum en miklu hvassara hjá sýprusum. Einnig liggur barrið þéttar hjá lífviðum en sýprusum og smágreinarnar eru enn flatari hjá lífviðum en sýprusum.

 

Myndir af barri lífviðar (til vinstri) og sýprusar (til hægri). Rétt er að vekja athygli á að það sjást eins konar broddar hjá báðum tegundum en þeir eru miklu meira áberandi hjá sýprusum. Greinar lífviðarins eru með þéttara og flatara barr. Myndir: Sig.A.

Ættkvíslin

Þú, lesandi góður, hefur eflaust séð tré af þessari ættkvísl ef þú hefur farið út fyrir landssteinana án þess að fara of langt í suður. Þau eru ræktuð jafnt í litlum einkagörðum sem stórum almenningsgörðum og í öllu þar á milli. Þau eru til í allskonar formum og mismunandi litum en eiga þó alltaf sitthvað sameiginlegt. Því ætti, í flestum tilfellum, að vera hægt að þekkja ættina og jafnvel ættkvíslina þótt við getum ef til vill ekki greint plönturnar til tegunda eða yrkja. Þetta eru alltaf sígræn tré og oftast keilulaga í vexti.

 

Thuja koraiensis í Grasagarðinum í Laugardal þann 17. mars 2024. Mynd: Kristján Friðbertsson.

Stærð lífviða getur verið mjög breytileg. Fer það meðal annars eftir tegundum en risalífviður verður þeirra hæstur. Aðrar tegundir eiga ekki roð í hann en geta þó verið býsna stórar. Fer það meðal annars eftir atlæti og staðsetningu. Svo er til mjög mikill fjöldi yrkja í ræktun og sum þeirra eru nánast dvergvaxin. Þannig að þrátt fyrir að ættkvíslin sé nú talin innihalda aðeins fimm tegundir er hægt að finna einstaklinga af öllum stærðum og gerðum.

 

Kanadalífviður. Hér fær hann nægt vatn að drekka. Myndin fengin héðan.

Greining

Hinar fimm tegundir núlifandi lífviða má greina í sundur á nokkrum atriðum. Hér förum við eftir James E. Eckenwalder (2009) og hans stóru bók; Conifers of the World. Fyrst ber að nefna hvort greina megi kirtla á efra borði greinanna, síðan litinn á svæðinu í kringum loftaugun á neðra borði. Einnig má skoða leiðandi sprota. Þeir hafa annað hvort langan odd, þétt við greinarnar eða stuttan og breiðan odd. Oft er erfitt að átta sig á svona lyklum nema samanburðurinn sé fyrir hendi.

 

Efra borð smágreinar á kanadalífvið. Kirtlarnir sjást sem litlar bólur. Greinaendar eru þéttir en örlítill broddur stendur út úr endunum ef vel er að gáð. Mynd: Sig.A. 

Kanadalífviður, Thuja occidentalis.
Kirtlar á efra borði auðsæir, svæðið við loftaugun gulgrænt, greinaendar þéttir og örlítið langyddir.

Kóreulífviður, T. koraiensis.
Kirtlar á efra borði auðsæir, svæðið við loftaugun mjög ljóst, nánast hvítt. Munurinn á efra og neðra borði greina er meiri á þessari tegund en hinum. Greinaendar stuttir og breiðir.
 

Risalífviður, T. plicata. 

Kirtlar huldir á efra borði og sjást ekki. Svæðið við loftaugun ljósgrænt, greinaendar þéttir og langyddir.

Japanslífviður, T. standishii.
Kirtlar á efra borði sjást en eru ekki áberandi, svæðið við loftaugun gráhvítt. Greinaendar stuttir og breiðir. Almennt eru greinarnar á þessari tegund ekki alveg jafn flatar og á öðrum lífviðum.

T. sutchuenensis
Kirtlar á efra borði auðsæir og svæðið við loftaugun grænhvítt. Greinaendar stuttir og breiðir en stundum mjög þéttir. Tegundin er fíngerðust lífviðanna og ber minnstu könglana.

 

Thuja plicata frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Þessi lífviður var gróðursettur árið 1990 í sumarbústaðarlandi uppi í Kjós og settur út á Guð og gaddinn. Þess vegna er hann nokkuð margstofna. Eftir að hann komst á legg sér aldrei á honum. Hæðin er nú sennilega eitthvað á fimmta metra. Mynd og upplýsingar: Edda Halldórsdóttir.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn
 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00