Fjalla-Erlendur með heiminn í fanginu
DREKADAGBÓKIN - 2
Eftir óræðan dag í skálavörslu í Drekagili gekk ég upp í Fjólubúð, sem er heimili skálavarðanna. Ég var búin að venjast brakinu sem fylgir því að ganga á vikri, og var því ekki með hugann við hávært fótatak mitt á leiðinni. Ég hugsaði reyndar ekki margt, en í tæplega 800m hæð yfir sjávarmáli og 200 km fjarlægð frá byggðum virðist vera auðveldara að tæma hugann. Þá sá ég svolítið óvenjulegt.
Ferðamaður sat upp við fánastöngina okkar, með fartölvu í fanginu. Hann pikkaði án afláts og starði á skjáinn, eins og hann væri staddur á skrifstofunni. Ég staldraði við og virti hann fyrir mér, þar sem mér fannst hann svolítið kómískur. Hann var uppi á fjöllum, klæddur í hlífðarfatnað og með hettu á höfðinu, sitjandi á hörðum, brakandi vikri. Var hann að skrifa tölvupóst? Athugasemd á samfélagsmiðlum? Skáldsögu? Spjalla við mömmu sína?
Þegar eitthvað vekur áhuga minn, velti ég því fyrir mér þangað til að það hvarflar að mér að velta fyrir mér hvers vegna þetta tiltekna atriði vakti áhuga minn. Örlítil innsýn í huga manneskju með ólæknandi forvitni sem helsta fylgikvilla. Af hverju var þessi maður svona kómískur? Aftur varð mér hugsað til tímans, en í síðustu dagbókarfærslu var tíminn í töluverðu aðalhlutverki, eða réttara sagt fjarvera tímans.
Fyrir hundrað árum, á þessum stað, leitaði Fjalla-Bensi að eftirlegukindum. Vissulega að vetri til. Alveg handviss um að rekast ekki á aðra mannveru. Aleinn í heiminum. Tvö hundruð árum fyrir það sá ég fyrir mér Fjalla-Eyvind leita hér skjóls frá öðru fólki. Spólum fram í nútímann og Fjalla-Erlendur situr á sama stað. Með allan heiminn í fanginu.
_ _ _
- Í Drekadagbókinni eru hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar í Drekagili við Öskju, þar sem hún sinnti skálavörslu sumarið 2024 fyrir Ferðafélag Akureyrar. Höfundur er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net.