Fara í efni
Rakel Hinriksdóttir

Erum við að verða náttúrulaus?

„Það er magnað, að þið getið væflast um stefnulaust úti í náttúrunni,“ sagði svissneskur túristi við mig um daginn. Ég hafði í rauninni ekki hugsað út í það, hvað við erum heppin að geta með frekar lítilli fyrirhöfn farið út og komist í stefnulaust rölt í villtri náttúru. 

Þessi maður, sem var bersýnilega mikill útivistarmaður og stundaði fjallamennsku, var fæddur og uppalinn í Sviss. Mér fannst nú heldur undarlegt að honum þætti öfundsvert að vera á Íslandi, miðað við fjallgarðana sem ég veit að finnast í heimalandi hans. Þeir eru engin smásmíði. „Allt landsvæði í Sviss er eyrnamerkt einhverjum,“ sagði maðurinn. „Ég get ekki stoppað bílinn minn einhversstaðar, þar sem fjallshlíð kallar á mig, og labbað þangað sem ég vil.“

Ég hef ekki sannreynt fullyrðingu Svisslendingsins öfundsjúka, en ég held að það sé mikið til í þessu. Þau lönd sem ég hef komið til á meginlandi Evrópu virðast ansi vel nýtt, landfræðilega séð. Ég tel reyndar lítinn vafa á því að við Íslendingar metum ekki okkar aðgengi að óspilltri náttúru nógu mikils. Það, að geta labbað upp á hvaða fjall sem okkur sýnist, ofan í hvaða dalskoru sem okkur dettur í hug og meðfram iðandi strandlengjum hringinn í kring um landið, er ómetanleg gjöf.  

Það var viðtal við lækninn og náttúrubarnið Kristínu Sigurðardóttur í Mannlega þættinum á RÚV um daginn. Hún lýsti yfir áhyggjum af stöðu landans varðandi 'náttúruleysi' sem kallast á ensku 'nature deficit disorder'. Hugtakið kom fram á sjónarsviðið árið 2006 og á við um það, þegar mannfólk missir tenginguna við náttúruna, uppruna okkar allra, vegna of mikillar fjarveru. Fjarveran gæti skýrst af ýmsu, fólk er kannski öllum stundum í bænum og kemst helst í snertingu við steypu og malbik. Kannski er fólk alltaf með nefið ofan í snjalltæki. Nú er meira að segja hægt að heimsækja náttúruperlur landsins í sýndarveruleika. 

Ég mæli hjartanlega með því að lesa eða hlusta á viðtalið við Kristínu, en hér er bein tilvitnun; „Þvert á vísindagreinar og í háskólum beggja vegna hafsins á 21. öld hafa vísindin sýnt okkur mjög margt, meðal annars að streitukerfið slakar á, blóðþrýstingur lækkar og þar af leiðandi er minni hætta á hjarta- og æðasjúkdómum.“ Nauðsyn náttúrutengingar fyrir manneskjuna er ekki bara huglægt mat náttúrubarna, heldur vandlega rannsakað fyrirbæri í vísindasamfélaginu. 

Við þurfum ekki að skipuleggja útivist, ferðalög og útilegur til þess að safna í náttúrutengingabankann. Við þurfum bara að fara út. Upp á næsta hól. Niður í næstu fjöru. Inn í næsta skóg. Út í garð og lagst í grasið. Út úr bænum, lagt bílnum og labbað eitthvert. Gera það sem níu milljónir Svisslendinga geta ekki gert. Væflast stefnulaust í náttúrunni. 

Að lokum má rifja upp að virðingar ber að gæta í umgengni okkar við náttúruna, öllum stundum. Stígum létt til jarðar og njótum þess að hlusta, sjá og finna. Skiljum við farinn veg eins og hann var, þegar við komum. Í gönguferð dagsins, sem og í stóra samhenginu. 

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net og formaður SUNN, samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi.

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

„Friðurinn heltekur mig alltaf“

Rakel Hinriksdóttir skrifar
28. ágúst 2024 | kl. 06:00

Maðurinn í vatninu og vatnið í manninum

Rakel Hinriksdóttir skrifar
25. ágúst 2024 | kl. 06:00

Fjalla-Erlendur með heiminn í fanginu

Rakel Hinriksdóttir skrifar
21. ágúst 2024 | kl. 06:00