Fara í efni
KA/Þór

Birkið í Kjarnaskógi brúnt af skaðvöldum

Brúnt birki í Kjarnaskógi. Birkikemban hefur lagst illa á birkið í skóginum í ár.

Birkitré í Kjarnaskógi eru svo til öll orðin brún að lit. Birkikemba hefur hertekið trén í ár og fært þau í haustbúning. „Já þetta er með meira móti núna, mun meira en í fyrra,“ segir Pétur Halldórsson, kynningarstjóri hjá Landi og skógi og útskýrir betur hvers vegna birkitrén séu komin með þennan brúna lit á miðju sumri. Segir hann að um tvo nýja skaðvalda sé að ræða sem á undanförnum árum hafa verið að dreifa sér um landið. Annars vegar er það birkikemban, fiðrildategund sem leggst á trén fyrripart sumars. Birkikemban verpir inn í laufblöð trjánna og lirfan étur laufin innan frá. Hins vegar er það birkiþélan, sem er blaðvespa. Hún leggst á birkið seinni hluta sumars og nærist lirfa hennar á laufblöðunum á svipaðan hátt og birkikemban.

Náttúrulegur óvinur fundinn

Þar sem þessir skaðvaldar leggjast á birkið hver á eftir öðrum þá er það í mesta lagi í lok sumars þegar lifrurnar eru flognar að birkitréin geta náð sér á strik. Reyndar virðast einhver tré ná að mynda beiskjuefni sem gerir þau ekki eins kræsileg fyrir skaðvaldana, og eins er einhver munur á kvæmum hversu illa þau verða fyrir barðinu á ófögnuðinum.

Er haustið komið? Brúni liturinn á laufum birkisins stafar af óværu sem étur laufin innanfrá.

„Góðu fréttirnar eru þær að það fannst náttúrulegur óvinur fyrir sunnan, sníkjuvespa sem verpir í lirfur birkikembunnar. Þessi sníkjuvespa berst væntanlega líka hingað norður. Náttúran nær því vonandi jafnvægi með tíð og tíma,“ segir Pétur. Aðspurður að því hvort birkiþélan og birkikemban geti drepið birkið þá segir Pétur að svo virðist sem flest trén nái að mynda einhver græn lauf síðsumars, sérstaklega ung og heilbrigð tré, en það séu þó dæmi um það að birkitré hafi farið virkilega illa út úr þessum skaðvöldum og jafnvel drepist. Hins vegar segir hann að með hlýnandi loftslagi hafi skógræktarfólk almennt áhyggjur af birki á láglendi út af allskonar skaðvöldum sem fylgja hlýnun og þá sé líka spurning hvað komi í staðinn ef birkitrén þrífist ekki lengur á láglendi.

Nánar um birkikembu og birkiþélu 

Tveir skaðvaldar í birki hafa verið að breiðast um landið, birkiþéla og birkikemba. Þessir skaðvaldar leggjast á birkið hvor á eftir öðrum svo birkitrén hafa ekki tækifæri á því að ná sér á strik fyrr en síðsumar.