Fara í efni
KA/Þór

„Okkur er ekki skemmt, þvílík ónáttúra!“

Myndir af Facebooksíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga

„Okkur er ekki skemmt, þvílík ónáttúra!“

Þannig hefst færsla sem birt var á Facebook síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga laust eftir klukkan sex í kvöld, þar sem greint er frá því að einhver  tók sig til og eyðilagði göngu- og skíðabrautir sem starfsmenn félagins tróðu í Kjarnaskógi í morgun og hundruð gesta nýtti sér í dag „til heilsubótar og yndis,“ eins og segir þar.

Starfsmenn Skógræktarfélagsins fengu ábendingu um kaffileytið frá manni sem hafði stungist á hausinn í Naustaborgum vegna þess að einhver hafði tekið sig til og „rutt nýlögðu göngubrautina alveg frá reiðvegi í norðri að tjaldstæði í suðri,“ eins og segir í færslunni. „Fyrir utan að vera framkvæmt í algeru óleyfi er enn óskiljanlegri fullkomin vanvirðing við annara verk og fjöregg samborgara,“ segir þar.

Af myndunum að dæma hefur ökutæki á stórum dekkjum verið ekið um brautina. Starfsmenn í Kjarnaskógi brugðust skjótt við eins og búast mátti við. „Þú sem stóðst að málum getur þó sofið rólegur og þarft ekki að hafa samviskubit hafi það staðið til, starfsfólk Skógræktarfélagsins er búið að laga nokkurn vegin til eftir þig og afstýra frekari slysum,“ segir á Facebook síðu félagsins.