Fara í efni
Haukur Pálmason

Jákvæð tengsl

JÁKVÆÐ SÁLFRÆÐI - V

Við höfum svolítið verið að skoða blómstrandi líf og PERMA líkanið í þessum pistlum. Hér skoðuðum við P-ið, sem stendur fyrir Positive Emotions eða jákvæðar tilfinningar, og hér fjölluðum við um E-ið sem stendur fyrir Engagement, eða fulla virkni í því sem við tökum okkur fyrir hendur hverju sinni. Í dag ætlum við að skoða R-ið. Á ensku stendur það fyrir Positive Relationships. Það mætti þýða sem jákvæð sambönd, eða jákvæð félagsleg tengsl.

Á öllum stigum samfélaga, frá fjölskyldum til samtaka, sveitarfélaga og þjóða, eru það gæði tengsla okkar hvers við annað sem skipta hvað mestu máli fyrir vellíðan. Þetta felur í sér hvernig hugsað hefur verið um okkur í barnæsku, hvernig við skynjum og staðsetjum hvert annað, hvernig við höfum samskipti og hvernig við getum unnið saman.

Mannfólkið hefur nefnilega djúpa þörf til að tengjast öðrum og vera hluti af samfélagi.  Ef við erum í góðum samböndum við fólkið í kringum okkur eru mun meiri líkur á því að við lifum blómstrandi lífi. 

Harvard rannsóknin á þróun fullorðinna (Harvard study of adult development) hefur staðið yfir í 85 ár, og þar hafa vísindamenn skoðað hvað gerir lífið þess virði að lifa því. Upphaflega voru þeir með rúmlega 700 unga karlmenn, sem flestir eru dánir núna, en hafa síðan útvíkkað þetta til maka og yfir 2.000 barna upprunalegu viðfangsefnanna. Ár eftir ár fá þessir aðilar spurningar um atvinnu, heimilislíf, heilsu, og fleira, að sjálfsögðu án þess að vita í upphafi hvernig líf þeirra myndi þróast. Og það er ekki nóg með að þeir séu spurðir spurninga. Blóðsýni, heilarit og heilsufarsupplýsingar frá læknum og sjúkrahúsum eru einnig notuð, og rannsakendur taka upp myndbönd með samskiptum þeirra við fjölskyldumeðlimi.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru tugir þúsunda blaðsíðna, en í grunninn eru þær mjög einfaldar:

Náin sambönd, meira en peningar, völd, dugnaður, eða frægð, eru það sem heldur fólki hamingjusömu alla ævi. Þessi nánu sambönd vernda fólk fyrir áföllum lífsins, hjálpa til við að seinka andlegri og líkamlegri hnignun og segja meira til um langt og hamingjusamt líf en þjóðfélagsstétt, greindarvísitala eða jafnvel gen.

Þetta þarf ekki að koma á óvart. Fólkið í lífi okkar gerir gæðastundirnar enn betri með því að fagna með okkur, og gerir slæmu stundirnar bærilegri með því að hlusta á okkur og styðja við bakið á okkur þegar við þurfum á því að halda.

Í þessari rannsókn koma fram þrír ansi hreint merkilegir hlutir um félagsleg tengsl.

  1. Félagsleg tengsl eru mjög góð fyrir okkur, ekki bara fyrir hamingju okkar, heldur líka fyrir heilsu okkar. Fólk sem er betur tengt fjölskyldu, vinum, og samfélaginu, er hamingjusamara, það er líkamlega heilbrigðara og það lifir lengur en fólk sem er minna tengt. Fólk sem er meira einangrað finnur að það er minna hamingjusamt, heilsu þeirra hrakar fyrr á miðjum aldri, heilastarfsemin minnkar fyrr og það lifir styttra lífi.
  2. Fjöldi vina, eða sambanda, skiptir ekki öllu máli, heldur eru það gæði náinna samskipta þinna sem skipta máli. Það er mjög slæmt fyrir heilsuna að eiga í átökum við ástvini. Hjónabönd sem eru átakamikil, og án mikillar ástúðar, reynast mjög slæm heilsu okkar, verri en skilnaður. Þegar rannsakendur höfðu fylgt mönnum fram á áttræðis og níræðisaldur söfnuðu þeir saman öllum upplýsingum um þessa menn úr rannsókninni frá því þeir voru 50 ára. Það var ekki kólesterólmagn þeirra á miðjum aldri sem spáði fyrir um hvernig þeir myndu eldast. Það var hversu ánægðir þeir voru í samskiptum sínum. Þeir sem voru ánægðastir í samböndum sínum við 50 ára aldur voru bæði andlega og líkamlega hraustastir við 80 ára aldur.
  3. Góð ástarsambönd á efri árum vernda bæði líkama og heila okkar. Það kemur í ljós að fólkið sem er í samböndum á áttræðisaldri þar sem því finnst það í raun og veru geta treyst á hina manneskjuna þegar eitthvað bjátar á hefur skarpara minni lengur en aðrir. Þeir sem eiga ekki svona góð sambönd upplifa fyrr minnishrörnun. Og þessi góðu sambönd þurfa ekki að vera dans á rósum allan tímann. Hjón gátu rifist við hvort annað, en svo lengi sem þeim fannst að þau gætu virkilega treyst á makann þegar á móti blæs þá tóku þau rifrildi ekki toll af minni þeirra.

En hvernig getum við séð til þess að því að sambönd okkar verði holl og góð? Hér eru nokkrir þættir sem stuðla að jákvæðum samböndum:

Valdefling og ábyrgð. Við reynum ekki að stjórna öðrum heldur virðum sjálfsákvörðunarrétt allra.

Öryggi. Fólk í heilbrigðum samböndum finnur fyrir öryggi, bæði líkamlegu og andlegu. Í öryggi finnum við líka hreinskilni og traust.

Jákvæð samskipti. Hvernig við tölum saman, líka þegur við deilum, skiptir öllu máli. Rannsóknir sýna að sambönd þar sem jákvæð samskipti eru a.m.k. 5 sinnum fleiri en neikvæð þrífast vel.

Að tilheyra án aðgreiningar: Þar sem allir skipta máli óháð því hvernig þeir eru eða hvað þeir eru. Meira tengir okkur en sundrar. Það er ekkert við og þau, bara við.

Virðing. Þar sem við erum tillitssöm, og komum fram við fólk eins og það skipti okkur máli, og tökum skoðanir þeirra og áhyggjur gildar.

Sanngirni. Við tökum ákvarðanir í sameiningu þannig að öllum líði vel með þær.

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um jákvæða sálfræði.

Að sjá raunveruleikann – Þrjú skref í átt að núvitund

Haukur Pálmason skrifar
06. janúar 2025 | kl. 06:00

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Árangur

Haukur Pálmason skrifar
04. desember 2023 | kl. 17:45

Innihaldsríkt líf

Haukur Pálmason skrifar
16. október 2023 | kl. 06:00

Flæði

Haukur Pálmason skrifar
29. maí 2023 | kl. 11:00

Útvíkkun og uppbygging

Haukur Pálmason skrifar
27. desember 2022 | kl. 13:15