Fara í efni
Haukur Pálmason

Árangur

JÁKVÆÐ SÁLFRÆÐI - VII

Þá er komið að fimmta og síðasta þættinum í PERMA líkaninu af blómstrandi lífi.

Áður höfum við talað um Positive Emotions eða jákvæðar tilfinningar, Engagement, eða fulla virkni, Positive Relationships, eða jákvæð félagsleg tengsl, og Meaning, sem við kölluðum innihaldsríkt líf.

Og þá erum við komin að A-inu í PERMA. A-ið stendur fyrir Achievement eða árangur.

Stundum er árangur svo skemmtilegur, jafnvel þótt hann hafi ekki í för með sér neinn annan ávinning. Og svo er líka þessi góða tilfinning sem mannfólkið fær þegar það setur sér markmið og nær þeim. Stundum getur jafnvel verið afar óþægilegt, bæði líkamlega og andlega, að ná þessum markmiðum, eins og t.d. í erfiðum íþróttum, því að ganga yfir norðurpólinn eða eitthvað álíka.

En markmiðin þurfa ekki að vera svona stór til að árangur af því að ná þeim hafi góð áhrif á okkur. Markmiðin geta verið lítil dagleg markmið í vinnunni eða í einkalífinu

Það er hægt að tala um ýmislegt þegar kemur að umfjöllun um árangur. Markmiðasetning er t.d. gott og vinsælt umræðuefni, en ég ætla að nálgast þetta út frá styrkleikum. Ég tel að það að þekkja sína styrkleika vel sé vænleg leið til að auka þann árangur sem skiptir máli.

Styrkleikar

Í gegnum árin hafa veikleikar fólks verið mikið rannsakaðir, en styrkleikar eru ekki minna merkilegir en veikleikar, og eru líka alveg jafn raunverulegir. Þar af leiðandi er hægt að rannsaka styrkleika með vísindalegum aðferðum.

En hvað eru styrkleikar? Eins og við skilgreinum þá hér þá þurfa þeir að uppfylla eftirfarandi atriði:

  • Eitthvað sem við erum góð í að gera.
  • Eitthvað sem okkur langar til að gera/nota.
  • Gefa okkur orku þegar við notum þá, eða veita okkur vellíðan.

Ef við erum góð í einhverju en okkur langar ekki til að gera viðkomandi, og það veitir okkur hvorki orku né vellíðan, þá er líklegt að þetta sé einhverskonar lærð hegðun eða hæfileiki sem við höfum. Við getum lært ýmsa hluti sem jafnvel eru nauðsynlegir, og við getum orðið góð í ýmsum hlutum, en ef þeir eru ekki eitthvað sem gefur okkur orku og vellíðan, þá flokkum við það ekki sem styrkleika hér.

Við erum sem sagt að tala um eiginleika sem skilgreina hver við erum. Þeir eru oftast nokkuð stöðugir, en engu að síður getum við meðvitað aukið eða minnkað vægi þeirra í lífi okkar.

Hvernig finnum við þessa styrkleika?

Til að finna þessa einkennisstyrkleika okkar þurfum við að líta inn á við og spyrja okkur:

  • Hvað hvetur mig áfram?
  • Hvenær er ég uppá mitt besta?
  • Hvað hef ég gert sem ég er stolt/ur af?

VIA (Values in action) er styrkleikakerfi sem er notað mikið í jákvæðri sálfræði. Það er vissulega ekki það eina, en það er það kerfi sem ég mun fjalla um í þessum pistli.

VIA kerfið er með sex yfirflokka, eða dyggðir sem eru sagðar studdar af öllum helstu trúar- og menningarhefðum. Sálfræðingarnir Martin Seligman og Christopher Peterson lásu yfir 200 rit, m.a. Aristoteles, Plato, gamla testamentið, kínversku heimspekingana Confucius og Lao Tse, Buddha, kóraninn, og Benjamin Franklin. Ritin sem þeir skoðuðu spönnuðu þrjú þúsund ár, og alla jarðkringluna. Þær sex dyggðir sem komu út úr þessum miklu rannsóknum eru:

  • Viska (e. Wisdom) – Þekkingaröflun og nýting þekkingar.
  • Kjarkur (e. Courage) – Hjálpar okkur til að ná markmiðum okkar í mótlæti.
  • Mannúð (e. Humanity) - Samskipta styrkleikar.
  • Réttsýni (e. Justice) - Samfélags styrkleikar.
  • Yfirvegun (e. Temperance) - Styrkleikar sem verja okkur gegn álagi.
  • Yfirskilvitleiki (e. Transcendence) - Styrkleikar sem tengja okkur við heildarsýn og tilgang.

Við sjáum strax að þessar dyggðir eru að einhverju leyti óhlutstæðar (e. abstract) og erfitt að mæla þær. Það geta líka verið margar leiðir að hverri dyggð.

Hver dyggð hefur 3-5 styrkleika.

Viska:

  • Forvitni – Við erum opin og spyrjum spurninga.
  • Þekkingarþorsti – Ástríða fyrir því að læra nýja hluti.
  • Dómgreind – Við hugsum hlutina til enda áður en við tökum afstöðu.
  • Sköpunarkraftur – Við sjáum hlutina í öðru ljósi og finnum nýjar leiðir.
  • Yfirsýn – Við horfum á stóru myndina.

Kjarkur:

  • Hugrekki – Við stöndum með sannfæringu okkar, þrátt fyrir mótlæti.
  • Þrautseigja – Við komumst í gegnum hindranir.
  • Heiðarleiki – Við erum sannorð og „alvöru“ manneskjur.
  • Lífsorka (e. Zest) – Við „lifum lífinu lifandi“.

Mannúð:

  • Góðvild – Við erum örlát, miskunnsöm og umhyggjusöm.
  • Kærleikur – Náin sambönd eru okkur dýrmæt.
  • Félagsfærni – Við erum meðvituð um, og skiljum, tilfinningar, viðhorf og hugsanir okkar og fólks í kringum okkur.

Réttsýni:

  • Liðsheild (samvinna) – Við erum góðir liðsfélagar, og leggjum okkar af mörkum fyrir velgengni hópsins.
  • Sanngirni – Við komum fram við alla af virðingu, og gefum öllum jöfn tækifæri.
  • Leiðtogafærni – Okkur gengur vel að skipuleggja hópastarf, og láta hlutina gerast.

Yfirvegun:

  • Sjálfsstjórn – Við höfum stjórn á tilfinningum okkar, hvötum, og athöfnum.
  • Varfærni – Við hugsum áður en við tölum eða framkvæmum.
  • Hógværð – Við erum auðmjúk og ómontin.
  • Fyrirgefning – Við erum ekki hefnigjörn, en gefum fólki annað tækifæri.

Yfirskilvitleiki:

  • Skynjun fegurðar og ágætis (e. appreciation of beauty and excellence) – Við tökum eftir og kunnum að meta allt það fallega í kringum okkur.
  • Þakklæti – Við finnum fyrir og tjáum þakklæti.
  • Von – Við höfum jákvætt viðhorf, og horfum með bjartsýni til framtíðar.
  • Húmor – Okkur finnst gaman að hlæja og gleðja fólk.
  • Andleg vídd (e. spirituality) – Við höfum trú á einhverjum æðri tilgangi.

Styrkleikakönnun

Vefsíðan https://viacharacter.org býður upp á styrkleikakönnun. Því miður er könnunin á ensku, en það er verið að vinna að því að íslenska hana. Könnunin samanstendur af þó nokkrum spurningum, og eins og ameríkana er siður þá nota þeir orðin „always“ og „never“ eða „alltaf“ og „aldrei“. Ég mæli með að þið túlkið þetta sem „svo til alltaf“ og „svo til aldrei“, eða „oft“ og „sjaldan“þar sem orðin alltaf og aldrei eru mjög sterk.

Þegar þessari könnun er lokið kemur svo önnur varðandi geðheilbrigði. Þið getið smellt á „Skip Survey“ ef þið viljið, eða svarað könnuninni ef áhugi er á því.

Þegar þið svo klárið könnunina fáið þið svar þar sem þessum tuttugu og fjórum styrkleikum er raðað eftir því hver svör ykkar í könnuninni voru. Það getur verið skemmtilegt að skoða 10 efstu styrkleikana, og taka afstöðu með því hvort þið séuð sammála niðurstöðunum, um að þessir styrkleikar séu þeir sem skilgreina ykkur. Oftast eru einhverjir styrkleikar sem eru ofarlega sem maður á erfitt með að samsvara sig með. Það er allt í lagi, enda eru svona kannanir alls ekkert heilagur sannleikur. Ég hef tekið þessa könnun þrisvar, og uppröðunin er ekki alveg eins í þeim, þrátt fyrir að þeir styrkleikar sem ég kannski tengi mest við séu alltaf ofarlega, þá er misjafnt hversu ofarlega þeir eru. T.d. hefur efsti styrkleikinn aldrei verið sá sami hjá mér, en þeir þrír styrkleikar sem hafa komið í fyrsta sæti hjá mér í þessum þremur skiptum sem ég hef svarað könnuninni eru „Kærleikur“, „Þekkingarþorsti“ og „Þakklæti“ .

Svo getur verið skemmtilegt að taka einhvern styrkleika sem þið tengið vel við og vinna í honum, t.d. með því að nýta hann á nýjan hátt á hverjum degi í viku.

Að þekkja styrkleika sína og vinna samkvæmt þeim er afar líkleg leið til að ná árangri í leik og starfi.

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um jákvæða sálfræði.

Að sjá raunveruleikann – Þrjú skref í átt að núvitund

Haukur Pálmason skrifar
06. janúar 2025 | kl. 06:00

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Innihaldsríkt líf

Haukur Pálmason skrifar
16. október 2023 | kl. 06:00

Jákvæð tengsl

Haukur Pálmason skrifar
27. júní 2023 | kl. 14:30

Flæði

Haukur Pálmason skrifar
29. maí 2023 | kl. 11:00

Útvíkkun og uppbygging

Haukur Pálmason skrifar
27. desember 2022 | kl. 13:15