Fara í efni
Pistlar

Formlegar og óformlegar núvitundaræfingar

NÚVITUND - 3

Þetta er þriðji pistill minn um núvitund. Endilega lesið hina tvo Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks, og Að sjá raunveruleikann – Þrjú skref í átt að núvitund ef þið hafið ekki gert það nú þegar. Það er ágætis undirbúningur fyrir þennan pistil. Við höfum nú farið yfir skilgreiningu á núvitund, og hvaða viðhorfsþætti er æskilegt að við tileinkum okkur ef við viljum auka núvitund í lífi okkar.

Í dag ætla ég að fjalla um núvitundaræfingar. Stundum eru slíkar æfingar flokkaðar í formlegar og óformlegar æfingar.

Formlegu æfingarnar eru hugleiðslur og æfingar, sem heita eitthvað, eins og t.d. „Að skanna líkamann“, „Hreyfihugleiðsla“, eða „Meðvituð öndun“. Oft á tíðum eru þetta leiddar hugleiðslur, þ.e.a.s. við hlustum á einhvern aðila lesa eða leiða okkur áfram. Í hugleiðslunni „Að skanna líkamann“ segir t.d. lesandinn okkur að beina athyglinni að ákveðnum líkamshluta, og eftir einhverja stund beinum við svo athyglinni að öðrum hluta líkamans. Oft er t.d. byrjað á tám, athyglin svo færð upp fæturna, og að búknum, síðan höndum og að lokum að höfðinu.

Í hugleiðslu leiðum við hugann að einhverju afmörkuðu og reynum að halda honum þar, t.d. andardrættinum, eða ákveðnum líkamshluta. Hugleiðsla snýst ekki um að tæma hugann eða slökkva á heilanum. Það er hvorki mögulegt né æskilegt að tæma hugann algjörlega eða slökkva á honum. Hugleiðsla er heldur ekki bara afslöppun. Það þýðir þó ekki að við getum ekki slappað af við hugleiðslu, og oft á tíðum leiðir hugleiðsla til vellíðunartilfinningar og afslöppunar, en í hugleiðslu tökum við á móti og umföðmum allar tilfinningar sem hugsanlega koma upp, þar með taldar reiði, ótta og sorg. Við höldum þessum tilfinningum í meðvitund og samþykkjum þær sem hluta af raunveruleika þess augnabliks. Hugleiðsla er þannig leið til að lifa í takt við þær aðstæður sem maður finnur sig í á hverri stundu.

Óformlegu æfingarnar eru svo í raun lífið sjálft. Það að þróa með sér meðvitund á hverju augnabliki er óformleg núvitundaræfing. Öll höfum við meðvitund, en við þurfum oft að beina athyglinni að henni því að hugsun okkar hylur oft meðvitundina. Núvitund hjálpar okkur að færa þessa meðvitund framar og gera henni hærra undir höfði. Við getum t.d. farið í sturtu í núvitund og virkilega tekið eftir vatninu á líkamanum og hvaða áhrif það hefur á okkur eða farið í göngutúr í núvitund og virkilega séð, heyrt og fundið fyrir því sem er í kring um okkur ásamt því að vera meðvituð um göngulag okkar.

Formlegu æfingarnar styðja okkur svo auðvitað í óformlegu æfingunum, og eru nauðsynlegur agi til þess að ná að tileinka sér núvitund í daglega lífinu.

Ég er því miður ekki alveg nógu duglegur í formlegu æfingunum, en þó geri ég einhverjar leiddar hugleiðslur í hverri viku og er í rólegheitunum að auka vægi þeirra. Ég hef líka reynt að lifa lífi mínu meira meðvitað. T.d. fer ég oftast með hundinn minn, hana Kötlu, í 30-60 mínútna göngu á morgnanna. Í þessum göngum reyni ég að vera eins meðvitaður og ég get. Ég reyni að skipuleggja ekkert í huganum, og ef ég stend mig að því að vera kominn þangað, þá veiti ég því athygli, og leiði hugann aftur að göngunni og hundinum. Þetta gengur auðvitað mis-vel, en mér finnst þetta samt afar góð byrjun á deginum.

Ef þið viljið prófa formlegar núvitundaræfingar þá er fjöldi af leiddum hugleiðslum á Youtube, Spotify og Soundcloud. Sjálfur er ég hrifinn af hugleiðslum frá Núvitundarsetrinu, en þær er hægt að finna á öllum þeim miðlum sem ég nefndi hér að ofan. Einnig ná hugleiðslur Jon Kabat-Zinn vel til mín, og er töluvert af þeim á Youtube.

Að borða rúsínu er ein frægasta óformlega núvitundaræfingin, en sjálfum finnst mér betra að nota súkkulaði. Við skulum enda þetta núna með súkkulaðiæfingunni.

  • Brjóttu einn bita af súkkulaði og horfðu á hann. Taktu eftir lit, lögun, áferð og öðru sem þú hugsanlega sérð og finnur þegar þú horfir á bitann og meðhöndlar af athygli.
  • Stingdu súkkulaðibitanum í munninn. Láttu hann liggja þar og bráðna í rólegheitunum. Hvaða bragð skynjar þú? Hvernig er áferðin á bitanum? Hvað langar þig til að gera?
  • Ef hugurinn leitar annað, taktu þá bara eftir hvert hann leitar, og færðu hann í rólegheitunum aftur að súkkulaðinu.
  • Þegar súkkulaðibitinn er bráðnaður skaltu kyngja í rólegheitunum og af athygli. Hvaða bragð og áferð kemur þá?

Hvernig fannst þér þetta? Var súkkulaðið öðruvísi á bragðið þegar þú borðaðir einn mola með fullri athygli heldur en venjulega?

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um núvitund.

Lúsaryksugan glókollur

Sigurður Arnarson skrifar
12. febrúar 2025 | kl. 09:30

Skíðabelti

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. febrúar 2025 | kl. 11:30

Hádegislúrinn

Jóhann Árelíuz skrifar
09. febrúar 2025 | kl. 12:00

Afbrot og geðheilsa

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. febrúar 2025 | kl. 15:30

„Mamma, á ég að borga kallinum?“

Orri Páll Ormarsson skrifar
07. febrúar 2025 | kl. 10:00

Hvað á barnið að heita? Um nafnasúpu stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
05. febrúar 2025 | kl. 09:00