Fara í efni
Haukur Pálmason

Innihaldsríkt líf

JÁKVÆÐ SÁLFRÆÐI - VI

Við höldum áfram að skoða þá fimm þætti sem mynda PERMA líkanið af blómstrandi lífi. Áður höfum við talað um Positive Emotions eða jákvæðar tilfinningar, Engagement, eða fulla virkni, og Positive Relationships, eða jákvæð félagsleg tengsl. Við erum komin að fjórða stafnum, en á ensku stendur M-ið fyrir meaning. Þrátt fyrir að orðið „meaning“ þýði í raun „merking“ þá tölum við venjulega um meaning í þessu samhengi sem tilganginn með lífinu.

Flestir eru sammála um að til þess að blómstra þá þurfi að lifa innihaldsríku lífi með tilgangi, en ekki eingöngu að leitast við að græða meiri pening, eignast fleiri fína hluti, eða komast sem auðveldast frá hlutunum. Þessi tilgangur og innihald með lífinu byggir á gildum hvers og eins, en í flestum tilfellum þýðir það að einstaklingurinn helgar sig einhverju stærra en bara honum sjálfum.

Hvað þetta „eitthvað stærra“ er getur verið mjög mismunandi á milli fólks, en algengt er að það sé t.d. fjölskyldan, náttúruvernd, stjórnmálastefna, listsköpun, íþróttir, alheimsvitund eða Guð, en í raun getur það verið nánast hvað sem er.

Stóru spurningarnar

Þegar við spáum í lífstilganginn erum við að spá í stóru spurningarnar. Hver er tilgangurinn með lífinu er auðvitað ein og sér afar stór spurning, en einnig getum við spurt: Hvað skiptir mig máli? Skipti ég einhverju máli? Af hverju er ég hér? Hvernig á ég að lifa lífi mínu?

Það eru að sjálfsögðu engin rétt svör í þessu sem passa fyrir alla (nema það að öll skiptum við vissulega máli), en fyrir mjög marga er það lykilatriði í því að lifa blómstrandi lífi að finna sín eigin svör við þessum stóru spurningum.

Við sem tegund höfum ríka þörf fyrir tilgang og það hjálpar okkur að finna okkur stað í lífinu og hefur einnig áhrif á sjálfsmynd okkar. Það að finna tilgang okkar gefur okkur líka leiðsögn um hvaða markmið við eigum að setja okkur, og hvert við viljum stefna í lífinu.

Leit mannsins að tilgangi

Viktor Frankl var austurrískur sálfræðingur sem lifði af hræðilegar raunir í fangabúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Hann skrifaði bókina „Man‘s search for meaning“ eða „Leit mannsins að tilgangi“. Frankl sá að það voru ekki þeir líkamlega sterku sem endilega lifðu af, heldur þeir sem upplifðu stjórn á aðstæðum að einhverju leyti. Þeir hugguðu aðra og gáfu frá sér síðasta brauðbitann sinn. Þeir höfðu tilgang í lífinu og þrátt fyrir að hægt væri að taka allt annað frá þeim, var ekki hægt að taka tilganginn frá þeim. Þessi tilgangur hvatti þá áfram og gerði þeim mögulegt að lifa af. Niðurstaða Frankl er að það er á ábyrgð hvers og eins að uppgötva og skilgreina sinn eigin tilgang. Hann setur fram þrjár leiðir til þess að skilgreina merkingu og tilgang:

  • Eiga raunveruleg og innihaldsrík samskipti við umhverfið og aðra.
  • Gefa eitthvað til baka til heimsins með sköpunargáfu og sjálfstjáningu.
  • Breyta viðhorfi okkar þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem við getum ekki breytt.

Algeng útskýring á tilgangi eða merkingu er að tilgangur þýði við tökum ábyrgð á einhverju, eða leggjum eitthvað af mörkum til einhvers sem er umfram daglegar þarfir okkar akkúrat núna. Þetta gæti verið að hjálpa öðrum, eða stuðla að betri heimi fyrir komandi kynslóðir. Þetta gæti verið umhyggja, leiðsögn eða aðhlynning, eða að skilja eftir jákvæða arfleifð.

Tilgangur hjálpar mörgum að láta lífið „meika sens“ þ.e.a.s. að tilgangur komi röð og reglu á hlutina í huga fólks.

Því eldri sem við verðum því sterkari virðist þörfin fyrir tilgang verða.

Ég ætla að enda þennan pistil á nokkrum spurningum sem hver og einn getur íhugað með sjálfum sér.

  • Hvað kemur fyrst í hugann þegar þú hugsar um tilgang lífsins?
  • Hvað er þér mikilvægast?
  • Hverju hefur þú ástríðu fyrir?
  • Hverjum hjálpar þú, og hver hjálpar þér?
  • Hver er nánastur þér?

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um jákvæða sálfræði.

Að sjá raunveruleikann – Þrjú skref í átt að núvitund

Haukur Pálmason skrifar
06. janúar 2025 | kl. 06:00

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Árangur

Haukur Pálmason skrifar
04. desember 2023 | kl. 17:45

Jákvæð tengsl

Haukur Pálmason skrifar
27. júní 2023 | kl. 14:30

Flæði

Haukur Pálmason skrifar
29. maí 2023 | kl. 11:00

Útvíkkun og uppbygging

Haukur Pálmason skrifar
27. desember 2022 | kl. 13:15