Fara í efni
Pistlar

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

NÚVITUND - 1

Þegar fólk heyrir orðið „núvitund“ sjá margir fyrir sér munk sitjandi í lótusstöðu á fjallstindi í Tíbet hummandi „óóóómmmmm“. Þetta er ein birtingarmynd núvitundar, en fyrir flesta er raunveruleikinn nokkuð annar. Sá raunveruleiki er aðgengilegri en margir halda og byggður á vísindalegum rannsóknum.

Á undanförnum áratugum hefur átt sér stað mikil núvitundarvakning á Vesturlöndum. Sjúkrahús bjóða upp á hugleiðslur og jógatíma, námskeið í núvitund gegn streitu eru algeng, sálfræðingar nota hugmyndafræði núvitundar í auknum mæli gegn þunglyndi og kvíðaröskun, núvitund er kennd í lagadeildum háskóla eins og Yale og Harward, og í stórum lögfræðiskrifstofum sem og tæknifyrirtækjum. Eitt frægasta dæmið er hugsanlega „Search inside yourself“ þar sem einn af topp-forriturum Google, safnaði saman helstu sérfræðingum á sviði núvitundar, taugavísinda, leiðtogafræði og tilfinningagreindar til að þróa námskeið fyrir starfsmenn Google sem kallast „Search Inside Yourself“ eða „Leitaðu inn á við“, þar sem markmiðið var að hjálpa bæði starfsmönnunum og fyrirtækinu að blómstra, með aukinni núvitund, samkennd og tilfinningagreind. Núvitund er því ekki bara iðkuð af einhverjum skrýtnum sérvitringum og gúrúum, heldur sjálfsagður hluti þess að skapa vellíðan hjá sjúklingum, læknum, forriturum, lögfræðingum, námsmönnum og öðrum.

Þá vaknar kannski hjá okkur spurningin: „Hvað er núvitund?“ Jon Kabat-Zinn, frumkvöðull á sviði núvitundarrannsókna, og sá sem líklega á hvað stærstan þátt í þeirri núvitundarvakningu sem hefur átt sér stað á Vesturlöndum síðustu áratugina skilgreinir núvitund sem:

„Vitundin sem myndast við að beina athyglinni með ásetningi og án þess að dæma, að augnablikinu eða núinu á eins opinn hátt og manni er mögulegt.“

Þetta kann kannski einhverjum að þykja háfleygt en í raun erum við fyrst og fremst að tala um það að taka eftir, að vita hvað er að gerast í lífum okkar, þegar það er að gerast. Þetta er meðfæddur eiginleiki hugans, en á sama tíma eiginleiki sem flest okkar hafa gott af að bæta verulega með kerfisbundnum æfingum. Og þetta er afar einfalt, en alls ekki auðvelt. Það getur tekið á að ætla sér bara að vera en ekki gera. Og það að taka eftir er oft ekki svo auðvelt, vegna þess hve oft við virðumst vera á sjálfstýringu.

Núvitund, hugleiðsla og jóga eru óháð öllum trúarbrögðum, trúarkerfum, hugmyndafræðum, menningarheimum, og ismum. Núvitund er sammannleg og fyrir alla, og er það í raun og veru fyrir hvert og eitt okkar að prófa hvað virkar fyrir okkur í þessum efnum.

Hvernig lítur núvitund út í daglegu lífi? Hún getur verið jafn einföld og að draga djúpt að sér andann fyrir stóran fund eða að staldra við og taka eftir bragðinu og áferðinni á matnum þínum. Það er engin þörf á sérstökum búnaði eða margra klukkustunda æfingum á dag. Rannsóknir sýna að jafnvel nokkrar mínútur á dag geta haft jákvæð áhrif.

Góð leið til að byrja er með stuttri öndunaræfingu: sittu þægilega, lokaðu augunum og einbeittu þér að önduninni. Taktu eftir tilfinningunni þegar loftið fer inn um nefið og aftur út. Ef hugurinn reikar er það í lagi; færðu athyglina mjúklega aftur að önduninni. Með æfingu getur þetta orðið gagnlegt tæki til að halda ró og einbeitingu, jafnvel í streituvaldandi aðstæðum.

Núvitund snýst ekki um að svífa út úr veruleikanum – hún snýst um að tengjast honum betur, verða meðvitaðri og vera tengdari sjálfum sér og öðrum. Þó hún sé „einföld“ sýna vísindin að hún er jafnframt öflug. Núvitund er færni sem getur bætt líf okkar, hjálpað okkur að takast á við streitu og lifa af meiri meðvitund og gleði. Ég mun í næstu pistlum kafa dýpra í núvitundina. Ég vona að þið komið með mér í það ferðalag.

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um núvitund.

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00