Fara í efni
Umræðan

VMA brautskráði 116 nemendur í gær

Mynd: Hilmar Friðjónsson

Verkmenntaskólinn á Akureyri brautskráði í gær 116 nemendur en heildarfjöldi skírteina var 123 því sjö nemendur brautskráðust með tvö skírteini. Alls hefur skólinn því brautskráð 256 nemendur á þessu almanaksári því 140 nemendur voru útskrifaðir í maí sl.

Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara VMA var meðal annars tíðrætt um starf kennarans í ræðu sinni við brautskráninguna. Hún vitnaði til eins kennara sem hafi lýst starfinu sem ávanabindandi og ekkert væri eins gefandi og eftirsóknarvert og að kenna nemendum, sérstaklega þó stærðfræði.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari flytur ávarp við brautskráninguna í gær. Mynd: Hilmar Friðjónsson

„Við sem störfum í skólunum gleymum því stundum eða gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hve mikil áhrif kennari getur haft á líf nemenda, algjörlega óháð skólastigum og aldri nemenda. Kennarar skapa öruggt og hvetjandi umhverfi þar sem nemendur þora að spyrja spurninga og gera mistök. Þeir hlusta á nemendur sína og taka tillit til þeirra þarfa og áhuga. Kennarar hjálpa nemendum að byggja upp sjálfstraust og trú á eigin getu.“

Sigríður hélt áfram: „Kennarastarfið snýst ekki bara um að vita og kunna eitthvað í ákveðnu fagi eða grein – kennarastarfið snýst fyrst og fremst um að hafa áhuga á nemendum og að ná árangri með þeim af umhyggju fyrir framtíð þeirra. Ég sé nánast á hverjum degi hve mikil áhrif kennarar hafa á líf nemenda sinna og það getur skipt sköpum fyrir framtíð nemenda hvernig samskipti, nám og kennsla fer fram á milli kennara og nemenda.“

Mynd: Páll A. Pálsson

Sjálf kveðst hún geta nefnt kennara sem hafi haft mikil áhrif á sig og hvaða leiðir hún hefur valið í lífinu: „stundum hef ég fattað það löngu seinna, það eru töfrarnir sem kennarar búa til. Hér í VMA eru margir kennarar sem búa yfir töframætti og eru áhrifavaldar sem eiga marga fylgjendur. Við skulum því vera þakklát kennurum fyrir að leggja sitt af mörkum til að gera okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag. Segið það við næsta kennara sem þið hittið, þakkið honum fyrir að hafa haft áhrif á líf okkar og framtíð – ef ekki okkar eigin þá barna okkar eða annarra ástvina. Takk kennarar fyrir mig, hvar sem þið eruð.“

Mynd: Hilmar Friðjónsson

116 brautskráðir – 123 skírteini

Brautskráningarnemar að þessu sinni skiptast svo á brautir:

  • Félagsliðar 2
  • Fjölgreinabraut 11
  • Íþrótta- og lýðheilsubraut 1
  • Listnáms- og hönnunarbraut – fata- og textíllína 4
  • Listnáms- og hönnunarbraut – myndlistarlína 4
  • Náttúruvísindabraut 1
  • Viðskipta- og hagfræðibraut 2
  • Sjúkraliðabraut 5 (þar af 4 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
  • Meistaranám 26
  • Hársnyrtiiðn 9 (þar af 1 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
  • Húsasmíði 11
  • Pípulagnir 16
  • Rafvirkjun fyrir vélfræðinga 2
  • Rafvirkjun 17
  • Vélstjórn 1
  • Vélvirkjun 1
  • Viðbótarnám til stúdentsprófs 3

Svavar Máni Geislason, útskriftarnemi á fjölgreinabraut, skemmti á hátíðinni í gær. Mynd: Hilmar Friðjónsson

Í mörg horn að líta í skólastarfinu

Skólameistari sagði að sem fyrr hefði verið mikið um að vera í félagslífinu í skólanum og almennt í skólastarfinu. Í upphafi annarinnar var haldin nýnemahátíð og nýnemaball þar sem 400 ungmenni skemmtu sér og dönsuðu fram á rauða nótt, Leikfélag VMA setti upp Halloween-draugahús, starfsfólk og nemendur klæddu sig upp á jólapeysudegi og sparifatadegi, Sturtuhausinn - söngkeppni Þórdunu var haldinn og svo mætti lengi telja. Efnt var til framboðsfundur í skólanum í aðdraganda alþingiskosninga og í kjölfarið var blásið til svokallaðra skuggakosninga, eins og í mörgum öðrum framhaldsskólum landsins. Á vorönn verður m.a. uppsetning á leikverki og þátttaka í Gettu betur spurningakeppni framhaldsskólanna.

Sigríður Huld nefndi að á önninni hafi verið haldið upp á 40 ára afmæli skólans með veisluhöldum fyrir nemendur, starfsmenn, núverandi og fyrrverandi, og velunnara skólans.

Hafdís Inga Kristjánsdóttir, fyrrverandi nemandi við skólann, söng við athöfnina í gær. Mynd: Hilmar Friðjónsson 

Um tónlistaratriði við brautskráninguna sá annars vegar Hafdís Inga Kristjánsdóttir, sem er fyrrverandi nemandi við skólann og tók á sínum tíma þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd VMA, og hins vegar Svavar Máni Geislason, útskriftarnemi á fjölgreinabraut.

Tveir nemendur, Svavar Máni Geislason og Margrét Rún Stefánsdóttir, fengu afhentan blómvönd frá skólanum fyrir ríkulegt framlagt til félagslífs skólans á námstíma sínum.

Stefanía Tara Þrastardóttir, sem útskrifaðist úr námi í hársnyrtiiðn, flutti ávarp útskriftarnema.

Nýjar áskoranir – ný tækifæri

Sigríður Huld beindi orðum sínum til brautskráningarnema og bað þá m.a. um að horfa björtum augum til framtíðar og viðhalda þeirri vináttu sem hafi skapast á námstíma þeirra í VMA.

Sigríður sagði í ræðu sinni að erfið fjárhagsstaða skólans hafi haft áhrif á starfsmannahópinn við að ná fram markmiðum með nemendum. Ástæða sé þó til að horfa björtum augum til framtíðar með undirskrift fráfarandi ráðherra menntamála og bæjar- og sveitarstjóra um stækkun á húsnæði skólans, sem vonandi verði að veruleika á komandi ári, a.m.k. hönnunarvinnan.

Stefanía Tara Þrastardóttir, sem útskrifaðist úr námi í hársnyrtiiðn, flutti ávarp útskriftarnema. Mynd: Hilmar Friðjónsson

„Framundan eru breytingar sem tengjast námi og kennslu. Við í VMA eigum að hafa okkar áhrif þar, við þurfum að efla nám og námstækifæri í okkar nærsamfélagi og ekki síður hlúa að okkur sjálfum, eflast í starfsþróun og taka nýjum áskorunum og tækifærum fagnandi. Það verður alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu framtíðarsamfélagi. Í heimi sem er sífellt að breytast er hlutverk kennara afar mikilvægt. Kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Áhersla í skólastarfi verður að vera í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jöfnuð og jafnrétti í víðum skilningi,“ sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari.

Myndir frá brautskráningunni

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00