Þórsarar höfðu ekki roð við Haukum

Kvennalið Þórs tapaði með 24 stiga mun, 97:73, fyrir Haukum í Hafnarfirði í gærkvöldi í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Bónusdeildinni. Með sigrinum tryggðu Haukar sér deildarmeistaratitilinn.
Þórsarar byrjuðu af ótrúlegum krafti og komust í 9:0. En veður skipast oft skjótt í lofti og eftir þennan frábæra upphafskafla sáu Þórsstelpurnar vart til sólar; Haukur gerðu næstu 19 stig og staðan eftir fyrsta leikhluta var 21:13.
Jafnræði var með liðunum í öðrum og þriðja leikhluta en Haukarnir höfðu aftur mikla yfirburði í fjórða og síðasta leikhluta.
Leikurinn í gær er einn sá slakasti hjá Þórsliðinu í vetur. Stelpurnar hafa skemmt áhorfendum konunglega hvað eftir annað en að þessu sinni gekk í raun lítið sem ekkert upp. Vonandi á máltækið fall er fararheill við í þessu tilfelli en frammistaðan ekki fyrirboði um það sem koma skal því mikilvæg verkefni eru framundan.
- Haukar - Þór (21-13) (24-22) 45-35 (26-26) (26-12) 97-73
Staðan í deildinni
Tölfræði leiksins
Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:
- Amandine Toi 29 - 1 - 5 - 21 framlagsstig
- Maddie Sutton 3 - 16 - 3 -
- Esther Fokke 9 - 7 - 2
- Eva Wium Elíasdóttir 15 - 3 - 1
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 1 - 8 - 3
- Natalia Lalic 10 -1 - 1
- Hanna Gróa Halldórsdóttir 6 - 4 - 1
- Adda Sigríður Ásmundsdóttir 0 - 1 - 1
- Katrín Eva Óladóttir 0 - 1 - 1
Þórsliðið á eftir leik einn þar til úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn. Lið Keflavíkur kemur í heimsókn 26. mars en næsta verkefni er hins vegar lokasprettur bikarkeppninnar. Þórsstelpurnar mæta Grindvíkingum í undanúrslitum næstkomandi þriðjudag, 18. mars, í Smáranum í Kópavogi. Sigurvegarinn mætir síðan annaðhvort Njarðvík eða Hamri/Þór í úrslitaleik laugardaginn 22. mars. Þá verður einnig leikið í Smáranum.


OFF – Oflæti, fákunnátta og fordómar

Að komast frá mömmu og pabba

Hættuleg ofnotkun svefnlyfja

10 atriði varðandi símabann í skólum
