Fara í efni
Umræðan

OFF – Oflæti, fákunnátta og fordómar

Eins og alltaf beið ég spenntur eftir nýjasta þætti Komið gott, með Ólöfu Skaftadóttur og Kristínu Gunnarsdóttur. Ef fólk er ekki enn farið að hlusta, þá ætti mannskapur að leggja við hlustir og fá meira ljós í sinn dag í hverri viku, svo notað sé orðfæri þáttanna.

Alls kyns fleipur og ábyrgðarlaust tal um hvað sem er í fréttum eða mannlífi á hverjum tíma. Í miklu oflæti í þessum þætti tættu þær í sig árlega fjárveitingu til Sóknaráætlunar landshluta, einhverjar 140 milljónir sem ráðstafað var úr ráðuneyti Eyjólfs Ármannssonar, en svo „óheppilega“ vildi til í þetta skipti að 9 af 14 verkefnum sem hlutu fjárframlag voru úr kjördæmi Eyjólfs. Ég ætla ekki að elta ólar við það, enda hef ég ekki forsendur fyrir framan mig, en það sem vakti mig til umhugsunar var hæðnistónninn, sjálfhverfan og fullkomið skilningsleysi á tilgangi þessarar fjárveitingar. Það varð mér hvatning til að setja þetta smotterí í samhengi sem mannskapur kannski skilur.

Ég er 47/+ og má því tuða aðeins!

Aðalskandallinn við þennan lið á fjárlögum er auðvitað að hann skuli ekki vera 100 sinnum hærri, eða amk 14 milljarðar, til þess að þetta þjóni tilgangi sínum um að leiðrétta byggðahalla, aðstöðumun, og örva nýsköpun um land allt. Heimóttaleg og naflamiðuð nálgun á þjóðfélagsskipanina tekur auðvitað mið af því að á milli Hvítánna tveggja býr nú um 80% landsmanna, en við hin, segjum 75 þúsund manns, hýrumst í kulda og trekki frá grunnþjónustu, innviðum og nútímaþægindum á höfuðborgarsvæðinu, sem við bitte schön borgum samt fyrir og höldum uppi með verðmætasköpun um allt land og endalausri skattpíningu sem endar í miðlægri hít.

Í tilefni af þessu rausi tók ég saman nokkrar fjárfestingar hins opinbera á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum.

Ég hætti að telja þegar ég var kominn yfir 400 milljarða, sé horft til Nýs Landspítala, Landsbanka okkar allra, Alþingisviðbætur, Hús Vigdísar, Edda – Hús íslenskra fræða, Saga stúdentagarðar, fjárfestingaráætlun ISAVIA í Keflavík etc etc …

Er ég þá ekki einu sinni kominn að Borgarlínu eða milljarðakostnað við varnargarða og Grindavík!

400 milljarðar af opinberu fé sem sturtað er inn á afmarkað svæði landsins.

Jafnvel hagfræðingar götunnar geta séð hve mikil ruðningsáhrif slík innspýting hefur á afmarkaðan hluta landsns, á afmörkuðum tíma. Fólk og fjármagn keppist við að koma sér fyrir í hlýrri spýjunni sem flæðir úr vösum ríkisins. Sumir beint úr krana, aðrir í aðliggjandi og afleiddri hlýju. Allar þessar aðgerðir stuðla enn frekar að því að leggja landið í auðn utan Reykjaness og höfuðborgarsvæðis. Í millitíðinni vælum við um að eitthvað sé gert, til að vinda ofan af slíkri óráðsíu, því sú ráðstöfun að nýta eingöngu 10% landkosta Íslands er efnahagsleg sóun.

Þeir sem baða sig í hlýrri spýjunni skilja vitanlega ekki hvers vegna þetta lið úti á landi er að væla um jafnræði í lífsgæðum og tækifærum. Þannig er öll fjárfesting utan höfuðborgarsvæðisins tortryggð og uppnefnd kjördæmapot eða bitlingur. Lítið ykkur nær. Stærsta byggðafestuaðgerð sem ráðist hefur verið í nokkru sinni er pólitísk ákvörðun um að byggja upp alla stjórnsýslu miðlægt á vesturannesi Íslands. Risabitlingur, sem valdið hefur þeirri byggðaröskun og slæmri nýtingu auðlinda sem við horfum upp á. Þetta er soldið eins og bóndi sem ákveður að heyja bara 1/10 engja sinna og láta rest fara í órækt.

Árangur Kerecis og 40 milljarða skattspor í ár, auk mýmargra annarra dæma um blómleg fyrirtæki fyrir norðan og austan, ættu að vekja alvöru aðdáun, því þetta geta þau ÞRÁTT FYRIR að berjast við aðstöðumun og ríkisgert óhagræði alla daga ársins, í órafjarlægð frá mililandaflugi, heilbrigðisþjónustu eða raforku.

Landsbyggðirnar geta séð um sig sjálfar, sé rétt gefið. Jöfnum tækifærin og fjölgum kostunum til að byggja upp arðbært land til framtíðar.

Það þarf að hugsa landið upp á nýtt. Ekki með einhverjum bitlingum eða Sóknaráætlunum í kjördæmum, heldur hnitmiðuðum aðgerðum með alvöru fjármunum sem leiða til þess að hagnýting landsins alls verður að veruleika og við stækkum kökuna.

Hættum að pissa í skóinn okkar og gerum eitthvað í þessu.

Ást og friður,

Herra Norðurland

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er viðskiptafræðingur og flugmaður

Að komast frá mömmu og pabba

Ingibjörg Isaksen skrifar
10. mars 2025 | kl. 11:20

Hættuleg ofnotkun svefnlyfja

Drífa Sigfúsdóttir skrifar
09. mars 2025 | kl. 06:00

10 atriði varðandi símabann í skólum

Skúli Bragi Geirdal skrifar
07. mars 2025 | kl. 14:00

Þetta snýst nú á endanum um bílastæði

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
05. mars 2025 | kl. 14:00

Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Ingibjörg Isaksen skrifar
03. mars 2025 | kl. 20:00

Ég styð Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem formann – en hvers vegna?

Karl Guðmundsson skrifar
28. febrúar 2025 | kl. 15:45