Óvissa þegar heimilisbókhaldið gengur ekki upp

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) birti nýlega niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var meðal félagsfólks FVSA. Þær gefa tilefni til þess að hafa áhyggjur af fjárhag heimilanna, en merki eru um að fólk eigi í erfiðleikum með að ná endum saman og skeri niður í kostnaði sem snýr að lífsgæðum.
Yngra fólk berst í bökkum
Í könnuninni kemur fram að 25% svarenda hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni, 16% hafa átt erfitt með að ná endum saman sl. 6 mánuði og að meðaltali hafa 15% frestað eða hætt við að fara til læknis eða tannlæknis af fjárhagsástæðum. Þá hafa 18% minnkað eða hætt þátttöku sinni eða barna sinna í heilsueflingu s.s. líkamsrækt, sjúkraþjálfun, tómstundum eða sálfræðiþjónustu af fjárhagsástæðum. Þetta er sannarlega áhyggjuefni, en niðurstöðurnar sýna að sá hópur sem berst hvað mest í bökkum er fólk á aldrinum 25-34 ára.
Útgjaldahækkun heimilana umfram launahækkanir
Ef rýnt er í útgjöld heimilanna er ljóst að umsamdar launahækkanir ná engan veginn að halda í við hækkanir á húsnæðiskostnaði. Fyrir ári var samið um 23.750 kr. launahækkun, sem gerir 15.454 kr. í hækkun á útborguðum mánaðarlaunum. Í könnuninni kemur fram að húsnæðiskostnaður hefur hækkað hjá 82% svarenda á sl. tólf mánuðum, að meðaltali um 39.923 kr. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa því lækkað um 24.469 kr. á mánuði.
Samhliða hafa fasteignagjöld aukist töluvert, en skv. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hækkar fasteignamat íbúða á landsbyggðinni að meðaltali um 6,6% á milli ára. Dæmi er um að fasteignagjöld fyrir 150 fm einbýlishús á Akureyri hafi hækkað um 17% núna um áramótin, úr 452.000 kr. í 528.000 kr., sem gerir 6.333 kr. hækkun á mánaðarlegum afborgunum[1]. Hér er ótalin hækkun á tryggingum, rafmagni, hita, eldsneyti, matvöru ofl. sem heimilin þurfa að standa straum af.
Færa sig áfram yfir í verðtryggð lán
Í könnuninni kemur fram að ríflega 75% félagsfólks FVSA búi í eigin húsnæði, en það er fækkun um 7% borið saman við könnun félagsins frá árinu 2022. Af þeim sem greiða af húsnæðislánum eiga 4% erfitt með að standa straum af afborgunum. Heilt yfir eiga 9% lántakenda (lána af einhverju tagi) erfitt með að standa í skilum.
Eftir metmánuð nýrra verðtryggðra lána í nóvember 2023[2] hélt fólk áfram að lækka greiðslubyrgði sína með því að endurfjármagna. Yfir 15% þeirra sem greiða af húsnæðislánum hafa endurfjármagnað þau á síðastliðnum 12 mánuðum skv. niðurstöðum könnunar FVSA, þar af fóru 67% úr óverðtryggðu láni yfir í verðtryggt. Með endurfjármögnun yfir í verðtryggð lán hafa heimilin tekið á sig áhættuna af verðlagsþróun gegn því að lækka greiðslubyrgðina og fá hækkun á höfuðstól lánanna í kaupbæti.
Óvissa fyrir heimilin
Fyrir ári var samið um hófstilltar launakröfur á almenna markaðnum með það að markmiði að ná niður verðbólgu og skapa stöðugleika. Það var hinsvegar ekki fyrr en í lok árs 2024 að stýrivextir tóku að lækka og verðbólgan í kjölfarið. Á nýju ári fundu lántakendur loks fyrir lækkun á afborgunum húsnæðislána, en nýjustu vendingar á mörkuðum erlendis og nýgerðir kjarasamningar sveitarfélaganna og KÍ skapa nú óvissu um launaskrið og verðbólgu að nýju.
Sú staðreynd að fjórðungur svarenda hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni gefur til kynna að heimilin upplifa óvissu um fjárhag sinn. Á meðan standa stór eignafélög og fyrirtæki eftir með pálmann í höndunum; Hagnaður Haga fyrir rekstrarárið 2023 var yfir 5 milljarðar[3], stóru viðskiptabankarnir högnuðust um 88 milljarða árið 2024[4] og fasteignafélagið Heimar um 8,2 milljarða[5].
Verkalýðshreyfingin hefur frá samningum lagt áherslu á að það sé ábyrgð allra að stuðla að lækkun verðbólgu. Þrátt fyrir aðvaranir höfum við horft á verð á matvöru, þjónustu og opinberum gjöldum fara fram úr því sem hóflegt þykir. Nú er komið að fyrirtækjum, ríki og sveitarfélögum að sýna ráðdeild í rekstri, félagsfólk okkar hefur þegar gert sitt í þeim efnum!
Eiður Stefánsson er formaður FVSA, Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni
[1] Af 75.520 kr. árlegri hækkun er 32.132 kr. hækkun á sorphirðugjöldum. Ótalinn er þar hugsanlegur kostnaður við að koma upp aðstöðu fyrir aukinn fjölda ruslatunna við fasteign eftir breytingu á sorpþjónustu sveitarfélagsins.
[2] https://www.hluthafinn.is/verdtryggingin-ekki-endilega-framhjaleid/
[3] https://vb.is/frettir/hagar-hagnast-um-5-milljarda/
[4] https://www.visir.is/g/20252688511d/bankarnir-graeddu-88-milljarda-i-fyrra
[5] https://vb.is/frettir/hagnadur-heima-meira-en-tvofaldadist/


Bjánarnir úti á landi

Styrk stjórn gefur góðan árangur

Hörmungarástand við Lundargötu

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis á erindi við þig
