Þetta snýst nú á endanum um bílastæði

„ ... það er fátt sem hefur jafn mikil áhrif á þinn upprunastað – hvaða yfirbragð hann hefur, hvers konar upplifun hann veitir, og hvernig hann fúnkerar – og einmitt blessuð bílastæðin.“
Ég skal bara bara viðurkenna það fúslega að ég tek hjartanlega undir þessi orð Henry Grabar, í bókinni hans Paved Paradise: How Parking Explains the World. Öll umræða um skipulag, og sérstaklega skipulag á miðbæjum, hefst oftar en ekki á þessum reitum sem okkur finnast nú vera heldur dauðir fletir, þótt þeir þurfi ekki að vera það!
(Það er allt önnur ella, en sönnu áhugafólki um bílastæði er bent á aðra bók: ReThinking a Lot, eftir Eran Ben-Joseph).
Kjarninn hjá mér er annars þessi: Vegirnir skapa vegfarendur, Stæðin skapa gesti.
Bútasaumur, eða heildstæð sýn?
Ég lagði það til á síðasta bæjarstjórnarfundi að Akureyrarbær færi í markvissa vinnu við að endurskoða og móta stefnu í bílastæðamálum. Þessi tillaga var því miður felld.
Síðan deiliskipulag miðbæjarins öðlaðist gildi (fyrst 2014, og svo í talsvert breyttri mynd 2021) þá hafa ýmsar skipulagsbreytingar verið gerðar – og ekki nema von. Við erum jú að verða vitni að mestu uppbyggingu á miðbæ Akureyrar í áratugi. Að mínu viti þá höfum hins vegar á undanförnum árum nálgast bílastæðamálin eins og bútasaumsteppi:
Við leysum málin eftir á, svona eins og efni standa til, hverju sinni.
Þetta er ekki góð aðferðafræði fyrir framtíðarskipulag bæjarins. Við vitum hver þróun bæjarins hefur verið á undanförnum árum, og við höfum líka ágætis hugmynd um hvert bærinn stefnir. Akureyri er öflugasti ferðaþjónstubær landsins og umferðin um hann, bæði af erlendum og innlendum ferðamönnum, mun bara aukast á næstu árum. Við sjáum það á allri uppbyggingu að ferðaþjónustuaðilar sem og aðrir fjárfestar hafa trú á þessum bæ. Við sem bæjarfulltrúar eigum að hafa hana líka.
Ferðamátinn og ferðavenjurnar hjá gestum okkar eru alls konar. Sumir koma á bílaleigubílum, aðrir með flugi, með skemmtiferðaskipum eða hópferðabílum. Sumir gista á hótelum, eða orlofsíbúðum. Aðrir koma á húsbíl. Allt árið um kring. Ef við byggjum hótel, þá þurfum við að gera ráð fyrir rútum. Ef við tökum á móti skemmtiferðaskipum, þá þurfum við líka að gera ráð fyrir rútum. Ef við viljum að hér sé rekin leigubílaþjónusta, og að hún sé gagnleg bæði gestum og íbúum, þá þurfum við að finna henni stað (á einn eða annan hátt, í miðbæ Akureyrar). Og einhvers staðar stoppar strætó, nú eða flugrútan.
Um leið og við tökum bílastæðamálin fyrir, þá getum við sömuleiðis klárað umræðuna um ýmis mál sem við bæjarfulltrúar höfum því miður skorast undan að kljá á enda. Hvernig tengjum við miðbæinn við almenningssamgöngur? Hvernig viljum við sjá leigubílaþjónustu þróast í bænum? Á göngugatan að vera göngugata? Ætlum við að þróa og byggja upp bæði Hofsbót og Skipagötu?
Það er nú kannski bara tímabært að við klárum þessi mál með almennilegri umræðu og niðurstöðu.
Gerum plan til framtíðar
Á fyrrnefndum bæjarstjórnarfundi þá líkti ég Akureyri við evrópskar borgir, svona í hálfkæringi. Borgir af ýmsum stærðum en sem eiga það sameiginlegt að miðbærin í þeim er manneskjulegur og aðlaðandi og hefur ekki vaxið mikið eða breitt úr sér. Kannski af því hann er umvafinn fornum borgarmúrum sem vitaskuld þenjast ekkert út, eða af því hann liggur makindalega á eyju í borgarsíki og nýtur þannig náttúrulegra varna. Þýsku borgirnar Lübeck og Rothenburg koma upp í hugann, og ekki að ástæðulausu. Í báðum tilvikum dettur fáum ferðamönnum í hug að keyra inn í hinn eiginlega miðbæ, enda göturnar bæði þröngar og bílastæði fá. Ferðamaður sem heimsækir þessar borgir velkist samt ekki lengi í vafa um hvert hann á að fara, og þarf í hvorugu tilviki að fara langt. Með skipulagi og með merkingum er hann leiddur áfram á réttan stað.
Komið hingað, kæru gestir. Rútur, þið leggið hér. Húsbílar, í þessi stæði takk. Fólksbílar, endilega gerið ykkur heimankomin. Stutt rölt á áfangastað, að sjálfsögðu.
Einhver á einhverjum tímapunkti þurfti að setjast niður og ákveða að nú væri tímabært að koma bílastæðamálunum í betri farveg til lengri tíma.
Akureyri er ekki miðevrópsk borg og í sjálfu sér ekkert lík þessum stöllum sínum. Og mun ekki þróast á sama hátt. Sömu lausnir eiga því ekki endilega við hér. En það eru nú samt líkindi til staðar – og hér, rétt eins og þar, eigum við að skipuleggja til framtíðar. Ekki satt?
Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar


Ég styð Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem formann – en hvers vegna?

Glitrum saman – nýsköpun í heilbrigðisþjónustu fyrir einstök börn á landsbyggðinni

Eitt lítið Naustahverfi á Tjaldsvæðisreitinn?

Alþjóðaflugvöllurinn á Akureyri: Hvar er Icelandair?
