Fara í efni
Umræðan

Það er vitlaust gefið

Boðuð sameining Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) og Menntaskólans á Akureyri (MA) eins og hún er kynnt er aðför að iðnnámi á landsbyggðinni, iðnfyrirtækjum á Norðurlandi og aðför að framhaldsskólanámi í Eyjafirði.

Áhyggjur mínar vegna boðaðrar sameiningar snúa að iðngreinum sem kenndar eru við VMA. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að boðuð aðgerð verði ekki til að styrkja iðnnám.

VMA og MA eru ólíkir að uppbyggingu sem og námsframboði. Ég ætla ekki að fara frekar yfir þau mál þar sem nógu margir hafa tjáð sig um þau mál að undanförnu. Hins vegar ætla ég að fjalla um stöðu VMA seinustu ár og það sögulega samhengi sem ríkir á Íslandi um fjárveitingar ríkisins til verknámsskóla auk ábendinga um það hvert við stefnum að óbreyttu.

Fjárveitingamódel til framhaldsskóla á Íslandi er mannanna verk og utanumhald þess er líka mannanna verk. Forsvarsfólk Slippsins á Akureyri hefur ítrekað í samtölum og skriflegum samskiptum bent kjörnum fulltrúum á að það hljóti að vera skakkt gefið í módelinu eftir því hvar verknámsskólar eru í sveit settir.

Eins og kunnugt er, hefur Verkmenntaskólinn á Akureyri glímt við fjárhagsvanda um árabil. Af þessu höfum við haft miklar áhyggjur og sett okkur í samband við skólastjórnendur VMA. Eftir samskipti við skólastjóra VMA vorið 2022 var þetta niðurstaða sem blasti við okkur, tekjur duga ekki fyrir gjöldum. Af hverju það er höfum við ekki enn náð að átta okkur fyllilega á né fá sundurgreinanleg gögn frá ráðuneyti. Það á ekkert bara við okkur heldur framhaldsskóla almennt. Sumir skólar vita ekki heldur af hverju þeir eru í plús fremur en að við vitum ekki af hverju við erum í mínus.“

Niðurstaðan virðist ljós, ekki hafi fengist sundurgreinanleg gögn frá ráðuneyti um fjárhag VMA og skólastjórnendur viti ekki því skólar eru í plús eða mínus. Sama ráðuneyti og nú ætlar að sameina til að spara. Það er undarlegur í þessu hljómurinn. Það er skakkt gefið og það er mannanna verk.

Fjármagn til rekstrar skólans hefur um árabil verið takmarkað svo vægt sé til orða tekið, fé til nýfjárfestinga í tækjabúnaði hefur einnig verið afar takmarkað og samkvæmt mínum upplýsingum hefur VMA ekki fengið fjárveitingu til tækjakaupa í um 10 ár í skjóli þess að rekstur hans sé neikvæður. Skólinn hefur leitað eftir liðsinni fyrirtækja á svæðinu til tækjakaupa sem rekstraraðili hans hefur ekki hirt um að sinna.

Ég dreg því enn fram þá staðreynd, að fjárveitingamódelið til framhaldsskólanna er mannanna verk, þar er svo sannarlega skakkt gefið.

Hver hefur sem dæmi, heyrt fjallað um fjármagnsvanda Borgarholtsskóla í Reykjavík og að sama skapi hver hefur heyrt fjallað um fjárhagsvanda VMA?

Ég ætla að leyfa mér að svara þessu þannig, allir sem fylgjast með fréttum hafa á síðustu árum ítrekað heyrt fjallað um fjárhagsvanda VMA en enginn heyrt fjallað um fjárhagsvanda Borgarholtsskóla þar sem hann virðist enginn vera. Skólarnir eru sambærilegir og eiga að vinna innan sama fjárveitingaramma og því er þetta undarlegt.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga vorið 2022 kom formaður fjárlaganefndar Alþingis í heimsókn í Slippinn á Akureyri ásamt bæjarmálaarmi Vinstri Grænna á Akureyri. Þar var farið yfir þá staðhæfingu mína, að það hlyti að vera mjög skakkt gefið í fjárveitingum til framhaldsskólanna. Formaður fjárlaganefndar tjáði okkur þá, að fjárlaganefnd hefði óskað eftir því að fá módelið sem liggur til grundvallar fjárveitinga til framhaldsskólanna en hefði í stað þess fengið sent eitthvað allt annað módel. Enn herðist ég í þeirri trú minni að það er skakkt gefið og í ofanálag virðast embættismenn komast upp með að afvegaleiða kjörna fulltrúa.

Í lok október 2022 var forsvarsfólk Slippsins á Akureyri aftur í sambandi við formann fjárlaganefndar Alþingis, sem er jafnframt þingmaður Norðausturkjördæmis, til að inna hana svara varðandi fjárveitingamódelið. Svar barst í lok nóvember, tæpum mánuði síðar og hljóðar svo,

Sæll vertu

Við höfum ekki fengið kynningu á nýja reiknilíkaninu, höfum ekki komið því fyrir en munum fá það. Ráðherra segir að allt hafi verið strípað við fjárlagagerðina og svo fái skólarnir viðbót þegar skráningu er lokið og það verði gert fyrir áramót. Við fylgjumst að sjálfsögðu með og fylgjum eftir.“

Svo mörg voru þau orð, embættismenn vinna bara nýtt módel þegar bent er á skekkjuna sem er mannanna verk og komast upp með það. Mín niðurstaða er enn að það er skakkt gefið og embættismenn komast upp með að afvegaleiða kjörna fulltrúa eins og að drekka vatn.

Ríkisstjórn Íslands hefur skráð í stjórnarsáttmála sinn, að byggja skuli nýjan Tækniskóla í Hafnarfirði. Á heimasíðu Tækniskólans kemur eftirfarandi fram, Tækni­skólinn er einka­rekinn skóli og er rekstr­ar­fé­lagið í eigu aðila atvinnu­lífsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtaka iðnaðarins (SI), Samorku og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík (IMFR). Tækni­skólinn er einka­rekinn skóli, rekstr­ar­félag, með þjón­ustu­samning við Mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið um rekstur fram­halds­skóla.“ (https://tskoli.is/um-taekniskolann/stjorn/)

Félagið er rekstrarfélag með þjónustusamning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ekki fjárfestingafélag og því er undarlegt að bygging nýs Tækniskóla hafi ratað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í frétt á vef stjórnarráðsins frá 21.apríl 2023 er frétt um nýtt húsnæði Tækniskólans, þar kemur eftirfarandi fram Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði verkefnisstjórn á síðasta ári um framtíðarhúsnæði Tækniskólans. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar var m.a. að leiða fram niðurstöðu um fjármögnun og eignarhald á húsnæði Tækniskólans. Áætlaður stofnkostnaður er allt að 27 ma.kr. og leggur verkefnisstjórnin fram tillögur um fjármögnun og kostnaðarskiptingu milli Hafnarfjarðarbæjar og eigenda Tækniskólans.“ (https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/04/21/Nytt-husnaedi-Taekniskolans-tillogur-verkefnisstjornar/)

Með þessari ábendingu er ég ekki að gera lítið úr vanda Tækniskólans varðandi húsnæðismál heldur að benda á það hvert ætlaður sparnaður vegna sameiningar VMA og MA mun hugsanlega renna þar sem kynnt hefur verið að fyrirhugað fjármagn sem sparast verði nýtt annarsstaðar.

Þegar ég var barn voru á Íslandi byggðir upp þjóðvegir, byggð sjúkrahús og heilsugæslur, byggðir upp flugvellir og margt fleira. Núna er svo komið að starfsemi margra sjúkrahúsa úti á landi hefur verið skert verulega, heilsugæslum hefur verið lokað eða starfsemi skert verulega. Sem dæmi má nefna, að nálægt 50% íbúa Akureyrar hafa ekki heimilislækni og staðan er verri víða um land, vegum er illa haldið við og stórum hluta flugvalla hefur verið lokað.

Fyrir liðlega ári síðan fjölluðu fjölmiðlar um að fjárveitingar ríkisins til rekstrar menningarhússins Hofs, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Leikfélags Akureyrar væri um 300 milljónir á ári. Til samanburðar eru fjárveitingar til Þjóðleikhússins sem stakrar einingar um 1800 milljónir.

Við Norðlendingar og annað landsbyggðarfólk verðum að vakna.

Allt ber að sama brunni og núna er komið að framhaldsskólunum og fyrsta tilraunin á landsvísu á að fara fram með sameiningu VMA og MA, skóla sem eru eins gjörólíkir að uppbyggingu og áherslum náms og framhaldsskólar verða.

Ef satt skal segja þá veit ég ekki hvert og á hverja á að kalla. Bæjaryfirvöld á Akureyri tjá sig lítið um málin yfirhöfuð og er þetta mál ekki undantekning í því. Enn fremur tjá þingmenn kjördæmisins sig lítið og jafnvel ekkert um málið.

Vill ekki einhver gyrða sig í brók og vinda ofan af þessari vitleysu?

Páll Kristjánsson er framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00