Fara í efni
Umræðan

Sameining MA og VMA

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið með hliðsjón af skýrslu „stýrihóps til eflingar framhaldsskóla“ að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri. Í niðurstöðu stýrihópsins segir, „að með sameiningu þessara framhaldsskóla verði til mun öflugri stofnun til að mæta þeim áskorun um sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á komandi árum og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í menntastefnu.“
 
Nemendur Menntaskólans á Akureyri eru gagnrýnir á sameininguna svo og gamlir nemendur skólans, sem óttast að hefðir, venjur og öflugt félagsstarf leggist niður – á það er ekki hlustað.
 
Ekki er ljóst við hvað átt er í niðurstöðu stýrihópsins, þegar sagt er „að með sameiningu þessara framhaldsskóla verði til mun öflugri stofnun til að mæta þeim áskorun um sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á komandi árum og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í menntastefnu.“
 
Saga Menntaskólans á Akureyri
 
Menntaskólinn á Akureyri rekur sögu sína til stólskólans á Hólum í Hjaltadal, sem stofnaður var í upphafi biskupstíðar Jóns helga Ögmundarsonar árið 1106. Hólaskóli hinn forni er næstelsti dómskóli á Norðurlöndum á eftir dómskólanum í Lundi, sem stofnaður var 1085.
 
Með bréfi Danakonungs 2. október 1801 voru biskupsdómur og latínuskóli að Hólum í Hjaltadal niður lagðir. Brautskráðust síðustu stúdentar frá skólanum vorið 1802. Var þetta afleiðing nýskipunar í stjórn landsins, en einnig ollu þessu fjárhagsvandi og bjargarleysi Íslendinga. Árið 1880 var skóli stofnaður á Möðruvöllum í Hörgárdal og var fyrsti skóli gagnlegra fræða á Íslandi. Var honum í upphafi einkum ætlað að kenna bændum hagnýt fræði. Hins vegar varð Gagnfræðaskólinn á Möðruvöllum fljótt gagnfræðaskóli, Realschule, realskole, eins og þá höfðu verið við lýði víða í Evrópu, þar á meðal í Þýskalandi og Danmörku.
 
Við stofnun Möðruvallaskóla hófst barátta fyrir stofnun stúdentaskóla á Norðurlandi. Hélst sú barátta áfram eftir að skólinn fluttist til Akureyrar eftir að skólahúsið að Möðruvöllum brann 22. mars 1902. Árið 1923 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um menntaskóla á Akureyri, sem vísað var frá með „rökstuddri dagskrá“. Haustið 1924 var hins vegar farið að kenna námsefni til stúdentsprófs við Gagnfræðaskólann á Akureyri, eins og skólinn hafði verið nefndur frá 1904. Fyrstu nemendur, sem hlutu alla undirbúningsmenntun sína við skólann á Akureyri, luku stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1927.
 
Hinn 29. október 1927 veitti kennslumálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, Gagnfræðaskólanum á Akureyri heimild til að „halda uppi lærdómsdeild eftir sömu reglum og gilda um lærdómsdeild Menntaskólans í Reykjavík .” Með lögum frá Alþingi 1930 var ákveðið að á Akureyri skyldi „vera skóli, með fjórum óskiptum bekkjum, er nefndist Menntaskólinn á Akureyri.“
 
Upphaflega var aðeins ein námsbraut við skólann, málabraut, sem í upphafi var kölluð máladeild. Árið 1934 var stofnuð stærðfræðideild við skólann og árið 1966 var henni skipt í eðlisfræðibraut og náttúrufræðibraut. Haustið1972 tók til starfa félagsfræðibraut við skólann og 1975 voru stofnaðar tónlistarbraut, sem rekin var í samvinnu við Tónlistarskólann á Akureyri, og myndlistarbraut, sem rekin var í samvinnu við Myndlistarskólann á Akureyri. Árin 1980 til 1984 var við skólann starfrækt verslunarbraut í samvinnu við Gagnfræðaskólann á Akureyri og 1975 var stofnað til fullorðinsfræðslu í svonefndri öldungadeild, sem rekin var til ársins 1993.
 
Án Menntaskólans á Akureyri hefði Akureyrarbær ekki orðið það sem hann er og ljóst er að háskóli hefði ekki risið á Akureyri, ef Menntaskólinn hefði ekki verið þar fyrir. Lengst af hefur verið reynt að höfða til nemenda alls staðar á landinu og var skólinn kynntur sem landsmenntaskóli. Var það skólanum styrkur að því að hafa nemendur úr öllum sýslum og sveitarfélögum landsins.
 
Hugmyndir mennta- og barnamálaráðherra að „auka gæði náms og bregðast við breytingum í umhverfi skólanna“ – hvað sem það merkir – og hefja „viðræður um aukið samstarf skólanna um fagleg og rekstrarleg málefni eða sameiningu skólanna í nýjar öflugri einingar“ mega ekki verða til þess að leggja niður elsta skóla landsins – frekar en Menntaskólann í Reykjavík, sem ekki virðist ætlunin að hrófla við.
 
Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003. Pistillinn birtist fyrst á Facebook síðu Tryggva.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00