Ofankomu að vænta á austurhelmingi landsins
Það gerist ekki á hverju ári að Íslendingar kjósi til Alþingis í lok nóvember. Oftast er kosið að vori eða snemmsumars þegar ólíklegt er að veður eða færð hafi áhrif á ferðir kjósenda á kjörstað. En nú eru blikur á lofti, má segja í bókstaflegri merkingu. Samkvæmt veðurspám er líklegt að veður og færð gætu haft afgerandi áhrif á framkvæmd kosninganna sem fram undan eru um helgina, sérstaklega á Norðaustur- og Austurlandi.
Spá Veðurstofu Íslands frá því í morgun gerir ráð fyrir að á laugardag verði norðaustanátt, 13-20 m/s, hvassast suðaustantil. Meðal annars er gert ráð fyrir snjókomu á austurhelmingi landsins, en að dragi úr ofankomu undir kvöld á laugardag.
Akureyringar þurfa líklega ekki að hafa áhyggjur af því að komast á kjörstað, en óvissan er meiri eftir því sem austar dregur í kjördæminu.
Bakkinn fyrr á ferðinni
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og eigandi veðurvefsins blika.is, fylgist grannt með veðrinu og veðurútlitinu. Hann bendir á í pistli á vef sínum að veðurspáin hafi heldur versnað fyrir Austurland og bakkinn með snjókomunni verði fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir.
„Bakki lægðarinnar í suðri kemur inn yfir Suðausturland og Austfirði strax annað kvöld. Reiknað er með samfelldri snjókomu austan Mýrdalssands. Að morgni laugardags er spáð ofankomu allt norður til Eyjafjarðar. Til lánsins virðist ekki ætla að vera tiltakanlegur vindur með þessu framan af degi og því ekki skafrenningur að ráði,“ segir Einar meðal annars í umfjöllun sinni og birtir þar einnig myndina hér að neðan sem sýnir þau svæði þar sem ofankomu er von.
Þessi mynd af veðurvefnum blika.is sýnir snjókomuspá á hádegi á laugardag. Smellið á myndina til að lesa pistil Einars Sveinbjörnssonar.
Einar lýkur pistli sínum á því að benda á tvo óvissuþætti fyrir kjördaginn:
- Hversu vont verður veðrið? Gæti snjóað af meiri ákafa og hríðin orðið dimmari. Það er líka inni í myndinni að veðrið verði ívið skárra en reiknaðar spár gefa til kynna. Að lægðin og skilin fari ívið austar.
- Hvað mun skila sér af snjó norðanlands, frá Eyjafirði og vestur á firði?
Hvað ef?
Akureyri.net fór yfir það fyrr í vikunni hvað gæti mögulega gerst varðandi kjörfund og talningu ef veður og færð hamla för kjósenda eða flutningi kjörgagna. Vefmiðillinn Austurglugginn fjallaði einnig um málið enda nær Norðausturkjördæmi yfir Norðurland eystra og Austurland.
- Ef óveður hamlar för kjósenda á kjörstað er mögulegt að yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis sæki um það til landskjörstjórnar að kjörfundur verði lengdur fram á sunnudag. Ákvörðun tekin um slíkt á laugardag þegar í ljós kemur hvort þörf er á framlengingu.
- Ef kjörfundur nær fram á sunnudag hefur það áhrif á talningu í öllum kjördæmum því ekki má byrja að telja í öðrum kjördæmum fyrr en kjörfundi er lokið alls staðar á landinu.
- Verði kjörfundur með eðlilegum hætti, en vandkvæði við að koma kjörkössum úr öllu kjördæminu til Akureyrar þar sem talning fyrir allt kjördæmið fer fram hefur yfirkjörstjórn kjördæmisins heimild til að skipa tvær undirkjörstjórnir sem hefðu þá heimild til að telja atkvæði á ákveðnum svæðum.
Þá kom einnig fram í umfjöllun fjölmiðla fyrr í vikunni að yfirkjörstjórn hefði samið við flestar björgunarsveitir svæðisins um að vera tiltækar ef á þarf að halda. Það þarf því væntanlega mikið að ganga á og færð að verða mjög slæm ef nýta þarf heimildina til að skipa undirkjörstjórnir vegna talningar atkvæða.