Fara í efni
Umræðan

Lykill að áframhaldandi velgengni

Við Íslendingar erum ótrúlega lánsamir að búa í (eða að, fyrir okkur sem búum erlendis) ríki þar sem lýðræði ríkir. Við höfum í fjölda ára verið ofarlega, ef ekki efst, á lista þegar horft er til jafnréttis, friðar og lífsgæða. Þrátt fyrir að vera lítil og fámenn þjóð tökum við verulegt pláss á alþjóðavettvangi.

En þetta gerist ekki af sjálfu sér – þetta gerist þegar samtalið, sem lýðræði byggir á, á sér góðan og sanngjarnan grunn. Það gerist þegar fólk fær pláss til að ræða hvert átakamál í þaula og til að vera ósammála. Þannig byggjum við upp sanngjarnar lausnir sem hver og einn á sinn þátt í.

Við megum vera stolt af því sem við höfum áorkað, en á sama tíma skulum við muna að slíkur árangur þýðir ekki að verkefnum okkar sé lokið. Þvert á móti krefst hann þess að við höldum áfram að horfa fram á veginn og takast á við þær áskoranir sem standa enn óleystar – hvort sem það eru húsnæðismál, loftslagsbreytingar eða aðgengi allra að tækifærum. Að halda þessu jafnvægi er lykillinn að áframhaldandi velgengni.

Þótt margir finni ekki bein áhrif af þessum málaflokkum í sínu daglega lífi, berum við sem borgarar í lýðræðisþjóðfélagi ábyrgð á því að taka tillit til hagsmuna samfélagsins í heild þegar við leggjum okkar atkvæði. Þetta snýst ekki aðeins um okkur sjálf, heldur um að byggja upp réttlátt og sterkt samfélag fyrir alla.

Jafnvel þó við fjárfestum meira í heilbrigðiskerfi, menntun, innviðum og félagsmálum, verður áfram pláss fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf. Slíkar fjárfestingar eru ekki hindrun, heldur grunnur að samfélagi þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki geta blómstrað. Enn verður rými fyrir að skapa gott efnahagslegt umhverfi þrátt fyrir aukna áherslu á að hjálpa fólki í erfiðri stöðu og hlúa að því.

Það er eðlilegt að mörgum reynist erfitt að hugsa ekki aðeins um eigin ávinning af því hverjir sitja við stjórnvölinn, heldur líka um samfélagið sitt í heild þegar kemur að því að kjósa til þings. Við skulum muna að þegar við hugsum um samfélagið allt, þá erum við ekki að setja okkur sjálf í annað sæti – heldur erum við að taka utan um samborgara okkar og taka þá með í það fyrsta.

Við þurfum að tryggja að jafnrétti og réttlæti séu hornsteinar samfélagsins og að hér verði lagður sterkur grunnur fyrir okkur öll, sama hver við erum. Saman getum við skapað samfélag sem við getum verið stolt af – nú og um ókomna tíð.

Þess vegna ætla ég, í mínum fyrstu alþingiskosningum, að kjósa Samfylkinguna.

Birgir Orri Ásgrímsson er nemandi við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00