Fara í efni
Umræðan

Félagshyggja hvað er nú það?

Félagshyggja er ekki bara samfélagsviðhorf sem felur í sér efnahagslegt og félagslegt réttlæti og jöfnuð. Félagshyggja er líka aðferð til að framleiða vöru og þjónustu og aðferð til að auka lýðræði í atvinnulífinu eins og t.d. með rekstri samvinnufélaga.

Þó svo að stjórnvöld hafi gert mikið til að eyða áhrifum félagshyggju síðustu áratugi eru enn dæmi um hana.

Þar má nefna almenningssundlaugar og bókasöfn. Í stað þess að einungis þeir ríku eigi sundlaugar tryggir almannavaldið öllum aðgang að þessum gæðum fyrir lágt verð. Sama má segja um bókasöfn.

Við áttum félagslegt vegakerfi þar sem almannavaldið (ríkið) sá um framkvæmdir fjármagnaðar með sköttum og allir Íslendingar höfðu frjálsa og ókeypis för um vegina með örlitlum undantekningum. Þetta kerfi var eyðilagt og opnað fyrir einkavæðingu í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur no. 1 og okkar bíða nú meðal annars vegatollar og alskyns ný skattaígildi sem munu leggjast þyngst á þá efnaminni.

Við áttum félagslegt heilbrigðiskerfi sem náði um allt land og var ókeypis fyrir neytendur og það virkaði. En núna er það kerfi í rúst og einkarekstrarvæðing þess er í algleymi.

Raforkukerfið og hitaveiturnar okkar voru félagslegar en þangað er einkavæðingin að teygja anga sína og ömurleg svik einkafyrirtækisins HS orku við Reykjanesbúa að hafa ekki byggt upp varaleiðir vegna eldgosahættunnar sem öllum var ljós sýnir svo að ekki verður um villst að einkagróðafyrirtækjum er ekki treystandi fyrir innviðum.

Ef ekki verður tekið harkalega í taumana er hætt við að við töpum frá okkur miklum sameiginlegum verðmætum í hendur þeirra sem ekki hugsa um annað en gróða handa eigendum og hluthöfum.

En hvernig getum við beitt félagshyggjuaðferðum til að leysa til dæmis húsnæðiskreppuna til langframa.

Við gætum gert það svona.

  1. Við stofnum byggingarfyrirtæki, samvinnufyrirtæki með aðild ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingar. Já þið lásuð rétt við tökum braskið einfaldlega út úr reiknisdæminu.
  2. Fyrir 2003 var lóðabrask bannað. Við bönnum það aftur og lóðum verður úthlutað til þessa verkefnis á kostnaðarverði.
  3. Notum allar leiðir til að flýta verkefninu eins og að byggja gæða innflutt einingarfjölbýlishús.
  4. Verkefnið þarf ekki að valda verðbólgu (raunar þvert á móti) vegna þess að gætt er að því að ofnýta ekki framleiðsluþætti sem fyrir eru m.a. með innfluttum húsum og vinnuafli ef með þarf.
  5. Samvinnufyrirtækið okkar byggir án gróðasjónarmiða. Þannig að 100% álagning eins og víða er í dag er út úr myndinni. Í staðinn kemur verð sem stendur undir raunkostnaði.
  6. Út úr þessu koma íbúðir sem eru reistar fyrir fólkið í landinu ekki til að skila fjárfestum arði. Þær eru þess vegna MIKLU ódýrari og betri.

Og hvernig fjármögnum við þetta? Takið eftir við eigum sjálfstæðan gjaldmiðil sem ríkið getur gefið eins mikið út af eins og það vill. Ef þið trúið mér ekki þá rifjið upp Kóvid-tímann þegar ríkið hélt öllu gangandi með því að gefa út krónur.

Ríkið býr til byggingarsjóð sem lánar til langs tíma á lágum föstum vöxtum en mjög fljótlega fara leigutekjur að skjóta stoðum undir kerfið.

Það vita það allir um núverandi ástand að þegar vextir lækka mun húsnæðisverð rjúka upp og verðbólga mun rjúka upp það er einfaldlega svo gott að græða á skortinum í pólitísku kerfi sem leifir þann skort.

Framkvæmd eins og þessi gæti verið megin stoð til að koma í veg fyrir þann hrylling.

En hverjir gætu komið svona einfaldri og hagkvæmri lausn í framkvæmd?

Samfylkingin ætlar ekki að beita félagshyggju í framleiðslu á húsnæði það hefur ljóslega komið fram í málflutningi og tillögugerð flokksins. VG eru búin að vera 7 ár í að rífa niður félagsleg kerfi í Katrínustjórnunum 1 og 2. Munum að þegar frumvarpið um einkavæðingu vegakerfisins var lagt fram þá var fyrsti flutningsmaður þess frumvarps þingmaður VG.

Aðrir flokkar, þar á meðal Flokkur fólksins ætla ekki að beita öðrum aðferðum en þeim sem þegar hafa sýnt að skila ekki öðru en skorti og rænulausu okri á almenning.

Eini flokkurinn sem berst fyrir aðferðum félagshyggjunnar er Sósíalistaflokkurinn. Ef hann kemst á þing með góðan hóp af þingmönnum hafa orðið straumhvörf í íslenskri pólitík. Vegna þess að þá er loksins hafin baráttan á þingi fyrir annarskonar kerfi en því sem er í dag og hefur skilað okkur engu öðru en okri og ójöfnuði.

Þú getur tekið þátt í að berjast gegn einkavæðingunni og okrinu og fyrir félagshyggjunni. Vertu með okkur í Sósíalistaflokknum og settu X við J á kjördag.

Haraldur Ingi Haraldsson er meðlimur í Sósíalistaflokki Íslands, og fyrrverandi oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00