Fara í efni
Umræðan

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Ímyndum okkur samfélag þar sem öll hafa jafnt aðgengi að þjónustu, óháð búsetu. Þar sem ákvarðanir eru teknar af fólkinu sjálfu, fyrir fólkið. Þetta hljómar einfalt og ætti að vera einfalt en þetta er ekki raunin. Við gætum aftur á móti byggt upp slíkt samfélag ef við vildum.

Við Píratar leggjum nefnilega áherslu á að valdefla nærsamfélög með því að draga úr miðstýringu og færa ákvarðanatöku nær íbúunum. Þetta væri stórt og mikilvægt skref í átt að sjálfbærum samfélögum þar sem íbúar geta haft meiri áhrif á eigin málefni og lífsskilyrði sín. Með því að tryggja sveitarfélögum fleiri möguleika til að afla tekna og auka hlutdeild sína í skatttekjum er lagður grunnur að sterkari innviðum og betri þjónustu um allt land.

Miðstýring dregur úr tækifærum

Miðstýring hefur, um áratugaskeið, skaðað margbreytileika og sjálfbærni sveitarfélaga. Þegar valdið er fjarri nærsamfélaginu hverfa oft þessi litlu en mjög mikilvægu tækifæri sem hafa vaxtamöguleika í minni samfélögum. Með því að draga úr miðstýringu skapast rými fyrir nýsköpun, aukna framleiðslu og virkara lýðræði.

Það er óásættanlegt að þjónusta á borð við heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu, menntun og félagsleg þjónusta sé misjöfn eftir búsetu. Allir landsmenn eiga rétt á góðri og gjaldfrjálsri þjónustu, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli. Með sterkari innviðum og réttlátari tekjuskiptingu getum við tryggt jafnt aðgengi fyrir alla.

Við vitum að sveitarfélög víða um land glíma við takmarkaða tekjustofna. Þetta hefur áhrif á allt frá innviðum til grunnþjónustu. Með því að auka hlut sveitarfélaga í virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti og gistináttagjaldi getum við endurheimt nauðsynlega fjármuni til að styðja við uppbyggingu í nærumhverfinu. Skatttekjur sem myndast á svæðunum sjálfum eiga að renna til samfélaganna sem skapa þær – þetta er sanngjörn stefna.

Lýðræði er valdefling

Beint lýðræði er hornsteinn byggðastefnu Pírata. Með því að gefa íbúum raunveruleg áhrif á ákvarðanir í nærumhverfi sínu eykst traust, þátttaka og samheldni. Borgarafundir, íbúakosningar og aukið gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélaga eru lykilatriði í því að færa valdið til fólksins.

Hvað getum við gert?

Við þurfum að byggja sterka innviði um allt land, tryggja öruggar samgöngur og frjálsa netaðgengi. Þetta er ekki aðeins nauðsynlegt til að styrkja byggðir heldur einnig til að draga úr miðstýringu og skapa sjálfbær samfélög. Samhliða þessu verðum við að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu – óháð búsetu – svo allir landsmenn njóti jafnræðis og virðingar.

Byggðastefna Pírata snýst ekki aðeins um að efla sveitarfélög; hún snýst um að byggja upp samfélag þar sem allir njóta virðingar og réttlætis. Með því að endurhugsa hlutverk nærsamfélagsins og styrkja það með lýðræði, sjálfbærni og réttlátri skattlagningu erum við að skapa sterkari grunn fyrir framtíðina.

Nú er kominn tími til að færa valdið heim og valdefla fólk í heimabyggð. Það er þannig sem við byggjum sterkara, sanngjarnara Ísland. Kjóstu öðruvísi – kjóstu Pírata.

Theodór Ingi Ólafsson er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50

Eflum löggæslu

Grímur Grímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 17:30

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45