Fara í efni
Umræðan

Nemendur gera skóla að því sem þeir eru

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, á að baki langan feril innan skólans en hún lætur af störfum næsta vor. Akureyri.net fékk hana til að líta um öxl og segja frá sinni upplifun og skoðunum á skólalífinu í VMA, en skólinn fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir.

Leitar á nýjar slóðir næsta vor

Sigríður þekkir VMA afar vel og frá öllum hliðum því hún hefur ekki aðeins starfað þar sem yfirmaður heldur stundaði hún sjálf nám þar á sínum framhaldsskólaárum, kenndi þar líka um tíma og hefur verið bæði foreldri og maki nemenda við skólann. Næsta vor lýkur hún níunda árinu sem skólameistari VMA en þar á undan var hún aðstoðarskólameistari í 10 ár.

„Ráðning mín er að renna út á næsta skólaári og ég hef tekið þá ákvörðun að sækja ekki aftur um stöðuna. Ég er ekki að hætta vegna þess að ég sé komin með leið á starfinu, langt í frá, enda er starfið búið að vera bæði skemmtilegt og ögrandi. Ég var bara fyrir löngu búin að taka þá ákvörðun að það væri komið nóg af mér sem æðsta stjórnanda eftir 10 ár. Svo langar mig líka til þess að breyta til áður en ég verð of gömul til að færa mig úr stað,“ segir Sigríður sem er að verða 55 ára.

Hún segir að starf skólameistara VMA sé krefjandi enda skólinn einn fjölbreyttasti framhaldsskóli landsins, sem er bæði snúið og kostnaðarsamt að reka. „Það er erfitt að vera fjölbreyttur framhaldsskóli í dag og ætla að sinna öllum þeim hlutverkum sem ætlast er til af manni. Ég er stolt af því fjölbreytta námsframboði sem við erum með hér en ef við myndum eingöngu láta fjárhag skólans ráða þá værum við bara með félagsfræðibraut, það væri langódýrast,“ segir Sigríður. Hvað varðar framhaldið, þegar hennar tíma hjá VMA lýkur, segir hún að það sé óljóst. „Ég veit bara að ég verð að vera í fjölbreyttu starfi með áskorunum, en hvar ég enda er óráðið, það kemur bara í ljós.“

Sigríður ásamt nýstúdentum í VMA árið 2022. Mynd: Hilmar Friðjónsson

Var sjálf nemandi í VMA

Sigríður er fædd í Reykjavík en uppalin í Skagafirði. Hún hefur verið búsett á Akureyri síðan 1992 og er því löngu orðin Akureyringur. Hún er gift Atla Snorrason rafvirkja og saman eiga þau þrjú börn. Eins og áður segir þá útskrifaðist Sigríður frá VMA, nánar tiltekið af uppeldislínu félagsfræðibrautar árið 1993. Þá sá Sigríður ekki fyrir sér að hún myndi enda sem stjórnandi í VMA enda ætlaði hún sér aldrei að verða kennari. „Ég fór í hjúkrunarfræðinám eftir VMA og fór að vinna á sjúkrahúsinu. Svo langaði mig að bæta einhverju námi við mig og ákvað að taka kennslufræðina. Svo leiddi eitt af öðru. Ég var beðin um að koma hingað til að kenna aðeins í sjúkraliðahópi. Svo datt mér einhvern vegin í hug að sækja um það að verða aðstoðarskólameistari og Hjalti Jón [Sveinsson skólameistari] þorði að ráða mig,“ rifjar Sigríður upp.

Það er erfitt að vera fjölbreyttur framhaldsskóli í dag og ætla að sinna öllum þeim hlutverkum sem ætlast er til af manni. Ég er stolt af því fjölbreytta námsframboði sem við erum með hér en ef við myndum eingöngu láta fjárhag skólans ráða þá værum við bara með félagsfræðibraut, það væri langódýrast.

Nemendamiðaðra nám

Á þeim árum sem Sigríður hefur verið í stjórnunarstöðu við VMA hafa orðið miklar breytingar bæði á skólanum og samfélaginu í heild sinni. „Kennslan og öll tækni hefur auðvitað breyst sem og framhaldsskólastigið. Námsframboðið er mun fjölbreyttara í dag sem og nemendahópurinn. Fleiri nemendur koma nú inn í framhaldsskólann sem gerðu það ekki áður. Nemendur sem féllu kannski á stærðfræði á samræmdu prófunum og ætluðu þá aldrei aftur í skóla,“ segir Sigríður og heldur áfram; „Í þessum skóla hefur alltaf verið tekið við öllum og það hefur ekkert breyst með árunum, en það hefur styrkst. Þegar ég kom hingað sem aðstoðarskólameistari þá kom mér mest á óvart þessi vanlíðan hjá mörgum nemendum, hversu bjargarlaus þau voru og hversu lítil aðstoð var í boði fyrir þau. Leiðirnar voru færri og það var ekki talað eins mikið um þessi mál eins og er í dag. Þá var líka erfiðara að bregðast við því nemendur sögðu ekki frá ef þau voru með kvíða eða leið illa. Það hefur breyst og það er orðin meiri umgjörð utan um þá þjónustu sem skólarnir eiga að veita nemendum. Þá hafa allar kennsluaðferðir og námsmat orðið nemendamiðaðri. Nemendur í dag geta stjórnað sínu námi mun meira en var hér áður, bæði á hvaða tíma þau eru að klára námið og þá geta nemendur virkjað betur eigin áhugasvið innan námsins. Framhaldsskólanám er því í dag mun betur sniðið að þörfum nemenda sem er mjög jákvæð breyting. Krakkar í dag hafa ótrúlega mikla möguleika að velja nám við hæfi. Verst er þegar þau fylgja ekki eigin tilfinningu en ákveða að elta vinina og velja nám til þess að geta verið alltaf með Gunnu vinkonu eða Jóa vin í tímum,“ segir Sigríður.

Þá er umhugsunarvert að þegar tíundu bekkingar á Akureyri standa frammi fyrir námsvali þá eru þeir yfirleitt spurðir hvort þeir ætli í VMA eða MA en ekki í hvaða nám þeir ætli. Það er eins og skólinn skipti meira máli en námsvalið.

Fleira en verklegt nám í VMA

Það er ekki hægt að ræða um VMA án þess að hinn framhaldsskólann á Akureyri beri á góma, en í gegnum árin hefur verið nokkur rígur milli MA og VMA. Sumir vilja meina að VMA sé lakari skóli en MA en Sigríður segir að slíkar skoðanir komi í bylgjum og byggist á vanþekkingu á námi í framhaldsskóla í dag. „Við erum í góðu samtali við MA og þau við okkur. Ég hugsa að skólarnir gætu alveg verið í meiri samvinnu námslega séð, en það er samt líka flókið að mörgu leyti hvað varðar kaup, kjör o.fl. Það er oft verið að bera þessa skóla saman og ýmsar mýtur í gangi hvaða skóli er betri en hinn og það kemur mér oft á óvart hvaða hugmyndir fólk hefur um framhaldsskóla, þær eru oft frekar gamaldags. Framhaldsskólar á Íslandi eru heilt yfir mjög góðir með gott nám og kennara. Það er hins vegar nemendahópurinn sem gerir skóla að því sem þeir eru. Ef nemendahópurinn er einsleitur og námslega sterkur er ekki endilega samasemmerki á milli þess að skólinn sé rosalega góður,“ segir Sigríður og bætir við að það sé miður ef 10. bekkingar séu að velja sér nám út frá einhverju öðru en áhuga þeirra á ákveðnu námi. Það geti valdið þeim vanlíðan ef þau fara í nám sem þau eru ekki sátt við að hafa valið. „Þá er umhugsunarvert að þegar tíundu bekkingar á Akureyri standa frammi fyrir námsvali þá eru þeir yfirleitt spurðir hvort þeir ætli í VMA eða MA en ekki í hvaða nám þeir ætli. Það er eins og skólinn skipti meira máli en námsvalið. Eins er allt of oft sett samasemmerki á milli VMA og verklegs náms þegar það er líka bóklegt nám til stúdentsprófs í boði hér. Fólk virðist oft gleyma því.“

Ég sé fyrir mér að VMA verði áfram öflugur framhaldsskóli sem sinnir sínu nærsamfélagi og þar séu tækifæri fyrir ungt fólk til þess að finna sína leið inn í framtíðina. Við höfum markað ákveðin spor varðandi þróun náms, menningu og hefðir sem ég vona að haldi áfram að dafna, en svo þurfum við líka alltaf að vera viðbúin því að gera breytingar í takt við það samfélag sem nemendur eru að útskrifast inn í og hvaða störf bíða þeirra. 

Sigríður Huld í pontu við útskrift nýnema vorið 2023. Mynd:VMA

Stækkun framundan

Eftir nærri 20 ár í stjórnunarstöðu í VMA er við hæfi að spyrja Sigríði út í hennar framtíðarsýn fyrir skólann og stendur ekki á svari. Segist hún helst vilja sjá einn sterkan framhaldsskóla á Akureyri, en það sé hins vegar ekki vinsæl skoðun, samanber umræðuna um sameiningu VMA og MA í fyrra. Hún minnir í því sambandi á að það sé skylda skólanna að fara vel með það fé sem varið er í málaflokkinn. Þá sé margt að breytast hvað varðar framhaldsskólana, skyldur skólanna séu orðnar aðrar en þær voru fyrir 15 árum og með minni barneignum séu árgangar skólanna að minnka. Miðað við þróunina á næstu árum eru stærri einingar betur í stakk búnar að bjóða upp á styrkari nemendaþjónusta, fjölbreytt námsval og fagþekking kennara nýtist betur.

„Ég sé fyrir mér að VMA verði áfram öflugur framhaldsskóli sem sinnir sínu nærsamfélagi og þar séu tækifæri fyrir ungt fólk til þess að finna sína leið inn í framtíðina. Við höfum markað ákveðin spor varðandi þróun náms, menningu og hefðir sem ég vona að haldi áfram að dafna, en svo þurfum við líka alltaf að vera viðbúin því að gera breytingar í takt við það samfélag sem nemendur eru að útskrifast inn í og hvaða störf bíða þeirra. Hér í VMA og í öðrum skólum eru miklar breytingar í farvatninu sem miða að því að efla nemendur og þjónusta þá betur í gegn um ýmsa vinnu sem verið hefur í gangi í skólunum, Menntamálastofnunum og í ráðuneytinu, meðal annars sem snýr að farsæld barna. Mér finnst vel við hæfi að skólinn fái nýjan stjórnanda núna því skólinn stendur að mörgu leyti á tímamótum. Það á t.d. að fara að byggja við skólann sem mun breyta miklu fyrir starfsemina. Viðbyggingin mun hýsa nýja byggingardeild, sem býr til betra rými og gerir okkur kleift að vera með fleiri nemendur og betri aðstöðu fyrir bæði kennara og nemendur. Það eru mikil þrengsli hjá okkur í dag.“

Sigríður Huld Jónsdóttir og Karl Frímannsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri á afmælishátíð VMA í vikunni.

Heilsu- og vellíðunarálma á óskalistanum

Í nýja húsnæðinu, sem er viðbygging upp á 1500 fm, verður líka pláss fyrir bifvélavirkjun sem er með enga aðstöðu í skólanum í dag, þrátt fyrir að vera samt kennd þar. Rafiðnin, sem er dreifð um allan skólann, fer öll á einn stað, í húsnæðið sem byggingariðnin er í núna og þá skapast líka pláss fyrir minni greinar sem ekki eru alltaf kenndar eins og múraraiðn og pípulagnir.„Þegar búið er að púsla öllum þessum púsluspilum saman þá verða liðin nokkur ár og þá er að sjá hver þörfin er. En ég myndi vilja sjá að við hefðum hér í skólanum heilsu- og vellíðunarálmu þar sem við værum að kenna sjúkraliðann, heilsunudd, háriðn og einhvers konar heilsuvellíðunarnám. Það væri t.d rosalega gott fyrir þetta svæði með stækkandi hópi aldraðra úti í samfélaginu að hér væri kennd fótaaðgerðafræði,“ segir Sigríður að lokum.

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00