Fara í efni
Umræðan

Jafnréttismál eru byggðamál

Hefur fullkomnu jafnrétti verið náð á Íslandi? Svo mætti halda ef við horfum eingöngu á niðurstöður árlegrar úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins á kynjabili (Global Gender Gap Report) þar sem Ísland er búið að vera í fyrsta sæti í 12 ár.

Vissulega er Ísland á góðum stað miðað við margar aðrar þjóðir. Ástæða þess er sú að markvisst hefur verið unnið að úrbótum á sviði jafnréttis kynjanna með lagasetningum og stefnumótun, auk þess sem ríkisstofnunin Jafnréttisstofa var sett á laggirnar á Akureyri fyrir rétt rúmum tuttugu árum til þess að hafa eftirlit með jafnréttislögunum.

Kynjamisrétti

Þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður úr alþjóðlegri mælingu og að margt hafi þokast í rétta átt er af mörgu að taka þegar kemur að kynjamisrétti. Dæmi um slíkt er kynbundið ofbeldi sem er okkur ofarlega í huga þessi misserin og er ein af alvarlegri birtingarmyndum kynjamisréttis. Þá hefur launamunur kynjanna verið viðvarandi allt of lengi, viðleitni til að bregðast við og vinna gegn því misrétti er innleiðing jafnlaunavottunar sem er tilkomið að frumkvæði Viðreisnar. Íslenskt samfélag þarf og á að gera betur, við þurfum að vera meðvituð um margbreytilegar birtingarmyndir ójafnrar stöðu kynjanna og það að við erum öll í þessu verkefni saman. Íslenskir karlmenn geta og eiga að vera mun virkari í jafnréttisumræðunni og að mínu mati ber mér og okkur öllum skilda til þess, því þetta snertir okkur öll.

Smærri samfélög

Ein birtingarmynd ójafnrar stöðu kynjanna tengist búsetu. Mér er minnisstæð umræða um kynjajafnrétti og byggðaþróun sem var í þættinum Landsbyggðar latté á sjónvarpsstöðinni N4 fyrir nokkrum árum. Í þeim þætti var rætt um hlutfall kvenna og karla á höfuðborgarsvæðinu, í öðrum bæjum og í dreifðari byggðum. Það var áhugavert en kom ekki á óvart, að eftir því sem samfélögin voru smærri því færri konur bjuggu þar samanborið við karla.

Þetta er alls ekki einstakt fyrir Ísland heldur vel þekkt staðreynd annars staðar á Norðurslóðum. Í tímamótaskýrslu um stöðu kynjajafnréttis á Norðurslóðum sem unnin var undir forystu Norðurslóðanets Íslands með aðkomu Jafnréttisstofu, Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og fjölmargra annarra aðila er mikilvægur kynjavinkill á menntunar-, atvinnu- og búsetumálum. Skýrsluhöfundar benda á að ef konur sjá lítil sem engin menntunartækifæri í heimabyggð séu þær mun líklegri en karlar að flytjast burt til að afla sér menntunar og einnig síður líklegar til þess að koma til baka sjái þær ekki fram á að fá atvinnu við hæfi í sinni heimabyggð.

Opinber störf á landsbyggðunum

Samkvæmt nýjustu samantekt Byggðastofnunar á staðsetningu starfa á vegum ríkisins eru 71% ríkisstarfa unnin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64% landsmanna búa. Þá eru konur um 63% starfsmanna ríkisins í heild. Það er því mikilvægt byggðamál og jafnréttismál að opinber störf séu í boði utan höfuðborgarsvæðisins eigi landsbyggðirnar að vera samkeppnishæfar hvað varðar íbúaþróun í anda jafnréttis.

Skerpa þarf á markmiðum og vinna að því með markvissum aðgerðum að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. Við þekkjum vel heppnuð dæmi um ríkisstofnanir sem staðsettar eru utan höfuðborgarsvæðisins eins og Jafnréttisstofu á Akureyri og Skógræktina sem staðsett er á Egilsstöðum. Þeim hefur tekist að vinna ötullega í þágu allra landsmanna auk þess að vera í góðum tengslum við stjórnsýsluna á höfuðborgarsvæðinu. Opinberar stofnanir eiga að vera staðsettar um allt land, opinber störf eiga að vera í boði um land allt og störf sem höfða til beggja kynja eiga að vera í boði um land allt , það er mikilvægt byggðamál og mikilvægt jafnréttismál. Máli skiptir að geta skapað sína framtíð og að eiga möguleika á að sinna starfi við hæfi óháð staðsetningu.

Eiríkur Björn Björgvinsson skipar 1. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00