Fara í efni
Umræðan

Hrun í fjórða leikhluta og tap að Hlíðarenda

Esther Fokke (77) var stigahæst Þórskvenna í kvöld. Mynd: karfan.is - Bára Dröfn.

Fimm stiga tap að Hlíðarenda varð niðurstaðan í fyrsta leik Þórs í Bónusdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Eftir að hafa haft frumkvæðið framan af seinni hálfleiknum hrundi skotnýting liðsins þegar leið á fjórða leikhlutann og heimakonur notuðu tækifærið og sigldu fram úr.

Heimakonur í Val voru heldur atkvæðameiri í byrjun en liðin skiptust síðan á forystunni í fyrsta leikhlutanum og Valur með tveggja stiga forystu. Þórsliðið tók fljótt frumkvæðið í öðrum leikhluta, vann hann með 11 stigum og leiddi með níu stigum eftir fyrri hálfleikinn. Valskonur voru yfir í sóknarfráköstunum í fyrri hálfleiknum, en skotnýting Þórsliðsins var mun betri og því færri fráköst að taka þar. Þær nýttu líka hraðann og skoruðu 12 stig úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleiknum.

Frumkvæði í þriðja, hrun í fjórða

Þórsstelpur héldu frumkvæðinu áfram í þriðja leikhlutanum, náðu mest 12 stiga forskoti og hleyptu heimakonum aldrei of nálægt, en munurinn þó komin niður í fimm stig í lok þriðja leikhluta og upphafi þess fjórða . Reglulega komu þristar frá Esther, Amandine og Hrefnu þegar á þurfti að halda, en þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir minnkuðu Valskonur muninn í tvö stig og jöfnuðu nokkru síðar og komust yfir. Þreytan virtist segja til sín og skotnýtingin versnaði. 


Emma Karólína Snæbjarnardóttir tók sex fráköst í leiknum. Mynd: karfan.is - Bára Dröfn.

Valskonur náðu 12-0 áhlaupi á um sex mínútna kafla þar sem Þórsstelpurnar náðu einfaldlega ekki að hitta ofan í körfuna. Heimakonur gengu á lagið og sigu fram úr, breyttu stöðunni úr 67-75 þegar rúmar sjö mínútur voru eftir í 78-75 áður en Eva Wium Elíasdóttir náði loks að skora fyrstu körfu Þórsliðsins í um sex mínútur. Valur náði fjögurra stiga forystu og þó pressuvörn Þórs skilaði stolnum bolta dugði það ekki til að ná körfu á lokasekúndunum. Þórsliðinu tókst aðeins að skora sjö stig í síðasta fjórðungnum og því fór sem fór. 

Esther Fokke skoraði mest Þórskvenna í kvöld, 24 stig, og Maddie Sutton var sem fyrr öflug í fráköstunum, tók 11 fráköst, en athygli vekur þó að hún tók eingöngu varnarfráköst í kvöld. Nýr leikmaður Vals, Alyssa Marie Cerino, skoraði langmest heimakvenna, 34 stig.


Alyssa Marie Cerino var Þórsliðinu erfið, skoraði 34 stig eða rúm 41% stiga Valsliðsins. Mynd: karfan.is - Bára Dröfn.

Langt að sækja lifandi tölfræði

Tvennt kom einkennilega fyrir sjónir fyrir þau sem horfðu á leikinn og/eða fylgdust með tölfræðinni jafnóðum. Engin klukka var á skjánum í útsendingunni og hvergi hægt að finna krækju á lifandi tölfræði á vef KKÍ. Kunnugir þurftu að sækja tölfræðina á vef FIBA.

  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Eva Wium Elíasdóttir, Esther Fokke, Hrefna Ottósdóttir og Maddie Sutton.
  • Gangur leiksins eftir leikhlutum: (25-23) (16-27) 41-50 (22-20) (19-7) 82-77
  • Myndaalbúm, karfan.is (Facebook-síða)

Tölfræði leikmanna Þórs, stig-fráköst-stoðsendingar:

Esther Fokke 24 - 6 - 0
Eva Wium Elíasdóttir 13 - 3 - 5
Amandine Toi 13 - 3 - 4
Maddie Sutton 12 - 11 - 3
Emma Karólína Snæbjarnardóttir 6 - 6 - 1
Hrefna Ottósdóttir 6 - 0 - 2
Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 3 - 0 - 0
Katrín Eva Óladóttir, María Sól Helgadóttir og Valborg Elva Bragadóttir komu ekki við sögu í leiknum.

Helstu tölfræðiþættir, smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00