Fara í efni
Umræðan

Grímseyingar æfir út í Vegagerðina

Fiskveiðar og ferðaþjónusta eru aðaltekjulindir Grímseyinga. Aflinn er fluttur í land með ferjunni og þaðan á markað. Öllu máli skiptir að koma fiskinum sem fyrst og sem ferskustum á markað. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason.

Grímseyjarferjan Sæfari er enn og aftur biluð og komin í slipp. Heimamenn eru æfir yfir stöðu mála, samskiptum við Vegagerðina og þeim fjáraustri sem farið hefur í að lappa upp á ónýtt skip í stað þess að stíga skref inn í framtíðina með nýju skipi. 

Þess er skemmst að minnast að ferjan var í slipp frá miðjum mars fram í byrjun júnímánaðar í sumar, en Sæfari siglir að jafnaði fimm sinnum í viku yfir sumartímann milli Dalvíkur og Grímseyjar. Stoppið í vor bitnaði verulega á ferðaþjónustu í eynni enda er ferðamannatímabilið rétt um þrír mánuðir, fuglalífið í hámarki í maí, júní og júlí, en það er eitt helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn. Rúmur þriðjungur aðalferðamannatímans fór fyrir lítið vegna takmarkaðra möguleika ferðamanna á að komast til Grímseyjar.


Fuglalífið og náttúran eru aðalaðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem sækja Grímsey heim. Maí, júní og júlí skipta því miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og því hafði fjarvera Sæfara í vor mikil áhrif. Mynd: Einar Guðmann og Gyða Henningsdóttir. 

Þungt hljóð í heimamönnum

Svafar Gylfason hefur eins og aðrir í eynni mikla hagsmuni af því að ferðamannatímabilið geti gengið snurðulaust fyrir sig því hann rekur veitingastaðinn Kríuna og verslun í Grímsey. Auk þess er hann einn þeirra sem stunda útgerð í eynni, en nú eru sex bátar sem róa þaðan. Afkoma ferðaþjónustunnar og útgerðarinnar er mjög háð siglingum ferjunnar því hún flytur ferðafólk til Grímseyjar og fiskinn frá eynni í land og þaðan fer hann á markað. 

Hljóðið í Svafari var mjög þungt þegar Akureyri.net heyrði í honum fyrr í kvöld og lýsti hann mikilli óánægju með stöðu mála. „Við höfum ekki langan tíma í þessari ferðaþjónustu. Það var tekinn af okkur einn mánuður í upphafi tímabilsins í vor og við kyngdum því, en við getum ekki haldið áfram að kyngja þessu ástandi eins og það er,“ segir Svafar. Ferjan tekur um 100 farþega og ferðaþjónustan því með takmarkað aðgengi að ferðamönnum. 

Svafar segir þó einhverja hreyfingu vera komna á það að fá bætur vegna þess tekjufalls sem varð í vor þegar Sæfari var í slipp. Hann segist vonast til að einhverjar bætur komi fyrir og segir það eðlilegt. „Við erum ekki sátt við að kyngja því að Vegagerðin geti gert þetta. Ekkert talað við okkur, ekkert samráð við okkur um eitt eða neitt. Við hefðum viljað að ferjan færi í slipp í janúar eða febrúar, þegar það er lítið fiskirí og rólegt í ferðaþjónustunni,“ segir Svafar, en hins vegar hafi Vegagerðin ákveðið að senda ferjuna í slipp í tvo og hálfan mánuð og þannig teygt sig inn í upphaf ferðamannatímabilsins. „Þetta er lífæðin og við höfum ekki langan tíma. Við erum að reyna að blómstra í þessari ferðamennsku og okkur er bara ýtt út í horn.“


Sæfari kemur til Grímseyjar 7. júní eftir að ferjan hafði verið í slipp frá því um miðjan mars. Ljósmynd: Halla Ingólfsdóttir.

Stórfé í að lappa upp á ónýtt skip

Svafar segir nauðsynlegt að upplýsa um það hve miklu hefur verið eytt í ónýtt skip. „Skipið er ónýtt, það vita allir og okkur finnst svo grátlegt hvernig farið er með peningana,“ segir Svafar. Hann segir viðgerðina í vor í raun aðeins hafa verið til að lappa upp á ónýtt skip og halda því gangandi, sem þó hafi gengið misvel því það hefur stöðvast síðan þá vegna bilana. Engu hafi verið bætt við og aðstaða ekki löguð í skipinu. Í raun sé verið að sóa hundruðum milljóna í tilgangslausar viðgerðir í stað þess að tryggja þessar samgöngur til framtíðar.

Svafar hefur verið í sambandi við ráðherra og þingmenn því honum svíður hvernig farið er með Grímseyinga og ekki síður hvernig farið er með þá fjármuni sem eytt hefur verið í að lappa upp á skip sem allir viti að sé ónýtt. „Ég vil að Alþingi taki okkar mál í sínar hendur, hvernig það hugsar sér þetta samfélag í framtíðinni. Mér finnst svo grátlegt hvernig farið er með peningana, hvað er búið að eyða miklu í skip sem er ónýtt, allir vita að það er ónýtt, áhöfnin, farþegarnir og við öll.“ Svafar segir heldur engin svör að fá frá Akureyrarbæ og hljómar eins og það komi honum ekki beint á óvart. 

Hugsið jákvætt og sýnið útsjónarsemi

Svafar segir Vegagerðina, sem sér um rekstur Sæfara, láta sér á sama standa um íbúana og atvinnurekstur í eynni. Til dæmis hafi útgerðir og ferðaþjónustuaðilar í Grímsey bara frétt það hjá áhöfn ferjunnar að hún væri að fara í slipp og myndi ekki sigla næstu daga. Bókanir í gistingu, mat og ferðir næstu daga eru því í uppnámi og atvinnurekendur í Grímsey fái ekki einu sinni tilkynningu frá Vegagerðinni þegar ferjusiglingar falli niður. Svörin sem hafi fengist í dag hafi verið á þá leið að fólk ætti að hugsa jákvætt og sýna útsjónarsemi, til að mynda varðandi flutning á fiski í land.

Svafar gerir út bátinn Þorleif og sá um siglingar fyrir Vegargerðina í vor þegar Sæfari var í slipp, en segir að ekki hafi verið áhugi á að nýta þjónustu hans í þetta skiptið. 

Eins, þriggja eða fimm daga fiskur á markað?

Það eru ekki aðeins ferðamennirnir sem skipta máli fyrir fólkið í Grímsey því þaðan róa um þessar mundir sex bátar og þeir þurfa að koma fiskinum í land og á markað. Þar skiptir tíminn miklu máli upp á verðið sem fæst fyrir aflann. Til að mynda hafi komið fjögur tonn á land í dag og koma þurfi þeim fiski í land og á markað. Hver dagur sem það dregst að koma fiski í land og á markað kostar útgerðarmenn í eynni hundruð þúsunda að sögn Svafars þar sem það sé augljóst að það skipti máli hvort verið er að selja fisk á markaði í dag, eftir þrjá daga eða eftir fimm daga. Á Vegagerðinni hafi mátt skilja að þar á bæ væru menn til í að kaupa ónýtan fisk frekar en að gera ráðstafanir til að koma honum í land. 


Samfélagið í Grímsey er ekki stórt. Þar dvelja að jafnaði um 20 manns yfir vetrartímann, en Grímseyingum fjölgar upp í 50-60 manns yfir sumarið. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason.

Óhapp olli olíuleka, viðgerð nauðsynleg

Á bókunarsíðu Vegagerðarinnar fyrir Grímseyjarferjuna mátti núna í kvöld sjá að ekki var í boði að bóka ferð frá Dalvík til Grímseyjar næstu þrjá daga. Þar er tilkynning frá Vegagerðinni, sem Akureyri.net er ekki kunnugt um hvenær var birt á síðunni, en hún er svohljóðandi:

„Grímseyjarferjan Sæfari, sem siglir milli Dalvíkur og Grímseyjar, varð fyrir skemmdum þegar óþekktur hlutur rakst í aðra skrúfu skipsins og olli olíuleka. Nauðsynlegt er að gera við skemmdina sem fyrst og því þarf að fella niður ferðir ferjunnar miðvikudaginn 23. ágúst og fimmtudaginn 24. ágúst hið minnsta. Sæfara verður siglt til Akureyrar þar sem hann fer í slipp á morgun, miðvikudag. Þá kemur betur í ljós hve umfangsmikla viðgerð skipið þarfnast og hversu lengi það verður stopp. Vegagerðin biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur í för með sér.“

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00