Fara í efni
Pistlar

Ólæsir drengir og greindar stúlkur

Fjórði pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Sjáðu bara, Stefán. Íslenskir drengir hafa síðastliðin ár skrapað botninn í Pisa-könnunum og þeir virðast hvorki skilja né tala móðurmálið þótt þeir hafi bjástrað við það í 12-14 ár. Maður hefði haldið að þetta væri áhyggjuefni; í gamla daga hefðu svona strákar fyllt heilu tossabekkina. En hvað er að gerast núna? Akkúrat þegar maður hefði haldið að það ætti að bregðast við og huga að stöðu strákanna þá stígur einhver fram og segir að staða stúlkna sé áhyggjuefni, þær skari ekki eins mikið fram úr drengjunum og áður.“

Hann var óðamála og frussaði Braga kaffinu, minn gamli vinur, Aðalsteinn Öfgar. Vissulega stundum öfgafullur í skoðunum og líkur „brjálaða vísindamanninum“ með sitt óstýrláta gráa hárstrý og stingandi augnaráð. Ég hef þekkt hann alla ævi og veit að hann er þokkalega með fulde fem svona yfirleitt og ég myndi aldrei vanmeta hann eða tala niður til hans þótt hann hafi oft verið dæmdur úr leik vegna geðraskana og skringilegheita.

„Ég veit að þú ert kennari og meðvirkur með kerfinu en finnst þér ekkert skrítið hvernig krafan um skóla án aðgreiningar, skilyrðislausa móttöku flóttamanna og innflytjenda og kröfunnar um að nemandinn hafi ávallt rétt fyrir sér hefur rústað íslenska skólakerfinu? Réttur nemenda með foreldra og jafnvel lögfræðinga á bakinu hefur gjörsamlega hneppt kennarastarfið í gíslingu.“

Tja, ég gat ekki alveg tekið undir þetta. Kannski er staðan líka önnur í grunnskólanum en ég hef jú kennt í framhaldsskóla síðastliðin þrjátíu ár. „Alli minn, ég held að við höfum hugsanlega ekki verið búin undir svona hraðar breytingar og þeir nemendur sem skila sér upp í framhaldsskólana eru vissulega ekki eins hæfir, vel lesnir eða klárir í íslensku eins og áður fyrr en þá er líka spurning, hvaða kröfur gerum við til nemenda og hvar liggja styrkleikar þeirra í dag?“

Aðalsteinn Öfgar hristi sinn gráa haus. „Veistu, ég er búinn að pæla í þessu í tvo áratugi eða lengur og loksins er ég kominn að niðurstöðu. Það eru öfgafemínistarnir sem fundu upp á kynjafræði í Háskólanum, góða fólkið svokallaða, aktívistar, loftslagsbrjálæðingar, hvalavinir, lattelepjendur og allir þessir einfeldningar sem krefjast þess skilyrðislaust að „öll sem vilja koma hingað fái hæli“ sem hafa gjörsamlega rústað samfélaginu og svipt fólk almennri skynsemi.“

Ég gretti mig. „Æ, er þetta ekki fullmikil einföldun? Ég held líka að þú sért að slá ýmsu saman. Innflytjendamálin hafa ekki…“

„Allt í lagi,“ greip hann fram í. „En þú hlýtur að sjá þróunina, nánast eingöngu konur í kennarastétt og það er munur á kynjunum, skal ég segja þér. Bæði stelpur og strákar þurfa karlkyns fyrirmyndir og kannski sérstaklega strákarnir sem fara í gegnum allt skólakerfið án þess að kynnast karlkynskennurum og verða ýmist undir eða er gert að samsama sig kvenlægum viðhorfum. Ég get meira að segja nefnt dæmi úr skóla fyrir sunnan þar sem kennurum er nánast bannað að tala um drengi og stúlkur, þetta eru bara „þau“. Þau nemendur. Hvaða stuðning heldurðu að strákarnir fái í svona umhverfi? Það eru kannski 5 strákar í bekk á móti 15-20 stelpum og þeir fá ekki einu sinni að vera þeir sjálfur heldur á að fletja allt út í eitthvert kynleysi. Og svo á tungumálið að vera kynlaust og gelt líka!“

Nú spratt Aðalsteinn á fætur og sótti flösku af íslensku brennivíni og bauð mér til málamynda en setti svo slurk út í kaffið hjá sér.

Ég ákvað skyndilega að finna afsökun til að fara. Treysti mér bara ekki í þessa umræðu því hún verður iðulega svo skautuð og öfgakennd og lituð sögusögnum. Það má vera að ég sé karlmaður í kvennastétt, má vera að drengir eigi undir högg að sækja í framhaldsskólum, má vera að íslenskan eigi í vök að verjast og taki örari breytingum en áður og það má vel vera að innflytjendamál þurfi að endurskoða.

Þegar ég kvaddi og var á útleið kallaði Aðalsteinn á eftir mér: „Ég veit að þú skrifar pistil um þetta og það er allt í lagi. En af hverju eru það aðallega miðaldra karlmenn sem skrifa pistla?“

Ég hefði svo sem getað svarað honum í ljósi reynslu minnar af blaðamennsku í gamla daga þegar ætíð var erfiðara að fá konur sem viðmælendur eða pistlahöfunda. Það hefur ekki breyst nógu mikið, hef ég frá fyrstu hendi. Þess vegna vil ég hvetja konur og yngra fólk til að stinga niður penna. Við þurfum fjölskrúðugra litróf, lifandi umræðu. Við þurfum að viðhalda lestri svo íslensk tunga verði ekki óskapnaður eða deyi út.

Lifið heil.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur

Tré og upphaf akuryrkju í heiminum

Sigurður Arnarson skrifar
16. október 2024 | kl. 09:09

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2024 | kl. 20:00

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00