Fara í efni
Pistlar

Ójöfnuður í geðheilbrigðisþjónustu

Fræðsla til forvarna - XXXIX

Til þín sem hugleiðir að bjóða þig fram í næstu alþingiskosningum fyrir Norðurlandskjördæmin.

Má ég biðja þig að kynna þér vel þann ójöfnuð sem ríkir í geðheilbrigðisþjónustu á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þetta er stærra mál en bara það að Norðlendingar hafi lakari tilboð um þjónustu því vegna þessa glatast einnig dýrmæt tækifæri til forvarna og hagræðingar (lesist: sparnaðar) og til að bæta lífsgæði og öryggi. Fullyrða má að þetta eru atriði sem hafi rík áhrif á byggðastefnu og búsetu í okkar litla landi.

Á landsbyggðinni er skipulag geðteyma á frumstigum og þessa þjónustu þarf að efla og styðja með öllum ráðum. Þó að kostnaður við slíkar þjónustueiningar sé mikill er hann samt margfalt minni en kostnaðurinn við afleiðingar þess að veita ekki slíka þjónustu. Svo ekki sé talað um bætta líðan. Á Akureyri er eina geðdeildin utan höfuðborgarinnar. Þar hefur í gegnum árin verið unnið stórmerkilegt frumkvöðlastarf í sérhæfum meðferðum og endurhæfingu bæði innan veggja spítalans og utan. Þessi sérþekking má ekki glatast. Og þetta er lítil eining og fjarri annarri stoðþjónustu og þarf því mikinn og góðan stuðning með myndarlegri og nægilegri fjárveitingu í stað sveltistefnu. Þetta er góð fjárfesting.

Það má heldur ekki gleymast að stór hluti geðrænnar meðferðar fer fram á heilsgæslustöðvum landsbyggðarinnar. Þær eru margar undirmannaðar og fjárveitingar ekki í samræmi við umfang verkefna.

Tryggja þarf mun öflugri og betri leiðir í framtíðinni til þess að ungt fólk hafi áhuga á að starfa í heilbrigðisþjónustu úti á landi. Um þetta er til dýrmæt reynsla og fyrirmyndir í öðrum löndum.

Mætti ég líka benda þér á að þú sem vilt hafa áhrif og með kjöri munt fá möguleika á að móta stefnu í mikilvægum málum eins og þessum ættir að hafa í huga að ákvarðanir stjórnvalda hafa meiri áhrif á forvarnir og geðheilsu en flesta grunar. Margítrekaðar rannsóknir í lýðheilsu- og heilbrigðisfræðum benda skýrt á mikilvægi eftirfarandi aðgerða og hvernig þær hafa umtalsverð áhrif á geðheilsu og félagsheilsu og bæta líðan og draga úr kostnaði í heilbrigðisþjónustu:

  • Með öllum ráðum að draga úr aðgengi að áfengi og eiturlyfjum.
  • Að vernda heilsu viðkvæmra hópa eins og barna, aldraðra, öryrkja og jaðarhópa.
  • Á allan hátt að styrkja hag fjölskyldunnar, sérstaklega stöðu ungu barnafjölskyldunnar.
  • Að efla þætti sem draga úr fátækt, vanrækslu og ofbeldi.
  • Að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar og eflingu lista.
  • Að styrkja innviði samfélagsins og auðvelda aðgengi að þjónustu.
  • Að vinna gegn óeðlilegum ójöfnuði í samfélaginu.

Þetta eru ekki skoðanir eins geðlæknis eða atriði tekin úr stefnuskrá stjórnmálaflokks eða enn síður af Instagram reikningi áhrifavalds. Þetta eru lausnir sem skv. margendurteknum sannreyndum vísindarannsóknum hafa sýnt sig að hafa raunveruleg og góð áhrif, okkur öllum til hagsbóta.

Þetta eru því áhrifamiklir verndandi þættir og ef þér tækist að stuðla að eflingu þeirra, þó ekki væri nema að litlu leiti, þá munu þeir hafa miklu meiri áhrif en þig grunar.

Gangi þér vel

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00