Fara í efni
Pistlar

„Mamma, á ég að borga kallinum?“

ORRABLÓT - XXXIII

„Mamma, á ég að borga kallinum þarna?“ spurði blessað barnið og horfði fyrst á móður sína og síðan á mig, bláókunnugan manninn. Mér brá aðeins, svo ég sé alveg heiðarlegur, enda stóð ég einn bak við búðarborðið í sportvörudeild KEA þennan bjarta sumardag. Barnið gat því ekki átt við neinn annan kall. Það var ákveðinn skellur, verð ég að segja, enda var ég ekki nema nýorðinn 17 ára.

Þetta var í fyrsta en sannarlega ekki seinasta skiptið sem ótímabær öldrun hefur sótt að mér. Þegar ég varð fertugur fékk ég voðalega fínt bréf frá tryggingafélaginu mínu þess efnis að mín biði af því tilefni glaðningur í höfuðstöðvum þess, tveir miðar í leikhús. Ég lét ekki segja mér það tvisvar og brunaði á staðinn. Þá kom í ljós að félagið var bæði að gleðja viðskiptavini sem áttu fertugs- og fimmtugsafmæli á umræddu ári og konan í afgreiðslunni spurði blákalt hvorum hópnum ég tilheyrði.

„Tja, hvað heldur þú?" spurði ég, undrandi á þessari furðulegu spurningu.

Konan skannaði mig eldsnöggt með augunum frá hvirfli til ilja en mælti svo án þess að blikna: „Fimmtugur!"

Mér féll allur ketill í eld og muldraði ofan í brjóst mér: „Nei, ég er bara fertugur."

Konan sýndi engin viðbrögð.

Þegar ég sneri mér við, heldur lúpulegur, blasti við par í röðinni fyrir aftan mig og mátti það hafa sig allt við til að halda andlitinu.

Ég flýtti mér út á stétt.

En aftur að efni blótsins. Þetta sumar, 1988, var bráðskemmtilegt í sportvörunni hjá KEA í Hafnarstrætinu og nóg að gera. Sitthvað var þarna til sölu, allt frá sokkum og inniskóm upp (eða niður) í vönduðustu veiðigræjur. Líka leikföng, minnisstæðir eru forláta gúmmímaðkar, Mörrum Jigtailz. Þá sáum við um að bóka daga í veiði í Eyjafjarðará. Það gigg var þó af einhverjum ástæðum rólegt.

Þarna vann margt góðra manna. Frímann Guðmundsson er eftirminnilegastur. Hann hafði unnið áratugum saman hjá KEA, lengi sem deildarstjóri en var þarna orðinn sjötugur og farinn að rifa seglin en sinnti ennþá ákveðnum verkefnum í versluninni, ekki síst á lagernum. Frímann var svolítið hrjúfur á yfirborðinu við fyrstu kynni og leit skeptískum augum á síðhærðan unglinginn og blés í kinnarnar en þegar kynni tókust með okkur kom á daginn að við félagar áttum ljómandi vel skap saman. Toppmaður, Frímann.

Í afgreiðslunni voru tvær fínar konur, Lára Lárusdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir, sem líka höfðu unnið lengi hjá KEA. Þær kenndu mér sitthvað um afgreiðslu, viðmót og aðra þætti sem maður þurfti að hafa á hreinu í þessu starfi. Sigga var silkislök, það hvorki datt né draup af henni sama á hverju gekk í búðinni. Lára var aðeins örari og meira á ferðinni.

Inn af sportvörudeildinni var hljómdeildin og þar var sumarstarfsmaður Hallgrímur Óskarsson, síðar verkfræðingur, ráðgjafi og Júróvisjóntónskáld. Hallgrímur var skemmtilegur vinnufélagi enda mjög hress maður, lífsglaður og uppátækjasamur. Við sprelluðum sitthvað þetta sumar. Hallgrímur var þarna nýbúinn að gera góða hluti í Herra Ísland-keppninni, sem fram fór á skemmtistaðnum H100 við þessa sömu götu, þar sem hann var valinn vinsælasti keppandinn. Einar Þór Karlsson, bekkjarbróðir minn úr MA, tók einnig þátt en þeir urðu að lúta í gólf fyrir einhverjum dúdda að sunnan. Þótti ýmsum lítil sanngirni í því.

Í matar- og kaffihléum kom ég mér oftar en ekki makindalega fyrir inni á hljómdeild og hlustaði á geislaplötur sem þá voru að ryðja sér til rúms. Nýjustu spilararnir voru til sölu og plötuúrvalið alltaf að batna. Ég (mis)notaði að sjálfsögðu aðstöðu mína og fékk Hallgrím og félaga til að panta hitt og þetta bárujárn frá birgjum fyrir sunnan. Allt þó á vínyl, geislaspilara eignaðist ég ekki fyrr en síðar. Líklega varð stór partur af kaupinu eftir í búðinni, af þessum sökum.

Viðskiptavinir voru af öllum stærðum og gerðum, frægir og ófrægir. Einu sinni kom Skari í Ísbúðinni að kíkja á veiðihjól. Ég veit ekki hvers vegna í ósköpunum ég man þá heimsókn. Skari keypti ekki einu sinni hjólið. Svo sem ekkert meira um það að segja.

Ingimar heitinn Eydal stakk líka við stafni einn daginn og var að leita að klæðum af einhverjum toga. Ekki reyndust þau fáanleg í sportvörudeildinni en sumarafgreiðslustúlkan benti Ingimari í staðinn á að halda upp rúllustigann ofurlítið norðar í rýminu og kanna málið í herradeild verslunarinnar, þar sem störfuðu Jón Lárusson, Þórsari og Arsenalmaður, og færeyskur maður, Jógvan Purkhús að nafni. Og ábyggilega fleiri menn.

Verandi sögumaður af Guðs náð veðraðist tónlistarmaðurinn allur upp við þessa ráðgjöf. „Halda upp, segir þú,“ gall í honum og það oftar en einu sinni. „Það minnir mig á skemmtilega sögu.“

Nema hvað?

Ég var ekki að afgreiða Ingimar en stóðst ekki mátið og lagði við hlustir. Þegar goðsögn talar, þá hlustar maður.

Sagan var um það bil á þessa leið: Löngu áður hafði ung kona á Akureyri farið út að skemmta sér, gott ef ekki í Sjallanum sem var auðvitað annað heimili Ingimars og hljómsveitar hans um langt árabil. Þar hitti hún danskan pilt og fór vel á með þeim á dansgólfinu. Að dansleik loknum bauðst sá danski til að fylgja okkar konu heim, eins og herramanna er siður. Gengu þau í hægðum sínum, skröfuðu og roðnuðu á víxl. Kunnu vel hvort við annað.

Loks kom unga parið að heimili stúlkunnar, sem reyndist vera á efstu hæð í fjölbýlishúsi í bænum. Þá dró heldur en ekki til tíðinda. „Nu skal vi holde op,“ mælti sá danski ofur blíðlega, herramaðurinn sem hann var. En viðbrögðin komu honum í opna skjöldu. Stúlkan rak honum umsvifalaust kinnhest. „Hafðu þetta, dóninn þinn!“

Sá danski starði opinmynntur á hana og fékk yfir sig frekari dembu: „Hvernig dettur þér í hug að þú fáir að koma inn með mér á fyrsta stefnumóti? Hvers lags stúlka heldurðu eiginlega að ég sé?“ Að svo mæltu snerist hún á hæli og strunsaði inn í blokkina. Skildi þann danska eftir í sárum – agndofa og skilningsvana.

Þegar hér er komið sögu starði afgreiðslustúlkan stóreyg á Ingimar og beið eftir pönslæninu. „Jú, góða mín. Eins og við þekkjum þá þýðir „holde op“ á dönsku alls ekki að „halda upp“, heldur að láta staðar numið eða að segja eitthvað gott.“

Aumingja pilturinn hafði sumsé gott eitt í hyggju og mórallinn í þessari sögu er auðvitað sá að betra sé að kunna dönskuna sína en ekki.

Ekki kom fram hvort parið hittist nokkurn tíma aftur.

Þetta sumar í sportvörudeild KEA er eina reynsla mín af verslunarstörfum í þessu lífi. Samt virðist ég enn hafa burði til að bera mig eins og verslunarmaður. Að vísu alveg óvart.

Í fyrra var ég staddur ásamt fjölskyldu minni í fataversluninni víðfrægu Zöru á þeirri góðu götu Rue de Rivoli við Signubakka í París. Ferðalangar voru þar að kynna sér nýjustu strauma og stefnur í tískunni og stóð ég á miðju gólfi verslunarinnar, bara helvíti sperrtur, í afrísku Arsenal-treyjunni minni, íþróttabuxum og með appelsínugula hettupeysu bundna um mig miðjan. Nema hvað, öllum að óvörum gaf ung kona sig á tal við mig og spurði hátt og snjallt: „Fyrirgefðu, vinnur þú hérna? Geturðu aðstoðað mig?”

Bera þurfti ferðafélaga mína út úr versluninni á sjúkrabörum, vegna hláturs.

Gott er þó til þess að vita að klikki eitthvað með blaðamennskuna þá hlýt ég að eiga víst starf á gólfinu í Zöru.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Afbrot og geðheilsa

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. febrúar 2025 | kl. 15:30

Hvað á barnið að heita? Um nafnasúpu stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
05. febrúar 2025 | kl. 09:00

Marengs

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
03. febrúar 2025 | kl. 11:30

0-1

Jóhann Árelíuz skrifar
02. febrúar 2025 | kl. 11:30

Geðheilbrigðisþjónusta – Sérhæf meðferð

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
02. febrúar 2025 | kl. 11:00

Hús dagsins: Aðalstræti 14; Gudmanns minde eða Gamli Spítalinn

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. janúar 2025 | kl. 08:30