Fara í efni
Pistlar

Hljóp á eftir fiskinum

ORRABLÓT - XXVIII

Það var fallegur sumardagur og ég, svona tíu ára, kominn austur í Laxá í Aðaldal til að veiða með pabba og bræðrum hans, Sturlu og Jóni Torfa. Í efri hluta árinnar er þekkt urriðasvæði og við tókum strauið beint á hyl nokkurn, þar sem bræðurnir höfðu áreiðanlegar heimildir fyrir að urriðinn kæmi reglulega saman til skrafs og ráðagerða. Enda vorum við ekki búnir að standa þarna lengi þegar Sturla, frekar en pabbi, setti í spikfeitan hæng. Við hinir hentum að sjálfsögðu öllu frá okkur til að veita honum andlegan og líkamlegan stuðning, eftir þörfum.

Jón Torfi Snæbjörnsson.

Leikurinn barst fram og til baka meðfram bakkanum í á að giska hálftíma, (kannski voru það bara tíu mínútur, minnið gerir tímann svo afstæðan). Nema hvað, haldiði að helvítis kvikindið hafi ekki slitið sig laust af önglinum og synt sem leið lá upp ánna. Þrælroggið með sig. Sturla bölvaði auðvitað og ragnaði, eins og gert var á Grund, en lét þar við sitja. Nonni var á hinn bóginn ekki tilbúinn að gefast upp, heldur hljóp af stað á eftir fiskinum, eins og fætur toguðu – upp ánna. Linnti ekki látum fyrr en hann var hér um bil kominn úr augsýn. Langt er um liðið en þessi ótrúlega uppákoma er enn á topp fimm yfir það fyndnasta sem ég hef orðið vitni að í þessari vitleysu sem við köllum líf.

Þessi saga lýsir Jóni Torfa Snæbjörnssyni föðurbróður mínum ágætlega en hann lést á dögunum, 83 ára að aldri, og verður útför hans gerð frá Grundarkirkju á morgun, laugardag. Nonni var litríkur maður, lifði lífinu svo sannarlega lifandi og var staðráðinn í að fá eins mikið út úr því og mögulega var í boði. Hálfkák var ekki til í orðaforðanum og túrbómótor settur undir allar athafnir. Stórar sem smáar.

Nonni hafði þétta nærveru í æsku minni enda var ég á þessum árum tíður gestur á Grund, þar sem þeir Sturla ráku búið eftir að alvarleg veikindi soguðu þróttinn úr afa. Hann hafði mikinn áhuga á okkur krökkunum og hlýddi okkur reglulega yfir um afstöðu okkar til lífsins og himintunglanna.

Fjölskyldan á Grund upp úr 1950. Hólmfríður, Snæbjörn, Jón Torfi, Sighvatur, Ormarr, Sturla (eða Sturla, Ormarr, það veit enginn), Sigurður og Pálína.

Í ófá skipti fékk maður líka far með Nonna milli Akureyrar og Reykjavíkur og í minningunni var hann alltaf á gömlum og höstum Land Roverum og manni leið á bekkjunum aftur í eins og að maður væri staddur í þvottavél á þeytivinduprógrammi. Þið munið þessa malarvegi!

Löngu síðar fengum við hjónin stundum að dveljast í sumarbústað Sighvatar föðurbróður míns á Grund og þá var Nonni ósjaldan í sínum bústað við hliðina. Urðu það ætíð fagnaðarfundir og Nonni jós úr sagnabrunni sínum fram á nótt. Þá fann maður glöggt, þegar við frændur horfðum yfir höfuðbólið, hversu stoltur hann var af verkum sínum á Grund; fyrst sem hægri hönd afa og síðar eftir að hann tók sjálfur við búskapnum.

Nonni var menntaður kennari og kenndi um tíma en ók einnig strætisvögnum og sitthvað fleira. Seinni árin gerðist hann ferðaþjónustubóndi og kom upp glæsilegri gistiþjónustu í Lónkoti í Skagafirði.

Nonni var ekki nema fjögurra ára þegar amma ól tvíbura, pabba og Sturlu, og það hefur ábyggilega sett mark sitt á æsku hans enda litlu bræðurnir með afbrigðum uppátækjasamir, að sögn. Fyrir vikið var Nonni iðulega við öllu búinn og þegar hann kom auga á lítið barn á öðrum bæjum spurði hann gjarnan: „Hvar er hinn?“

Grund í Eyjafirði.

Nonni hafði mikið yndi af samtölum og þóttist hafa himin höndum tekið þegar hann rakst á tengdaföður minn heitinn, séra Ragnar Fjalar Lárusson, í ofurlitlu kaffiboði sem ég hélt þegar ég brautskráðist frá Háskóla Íslands. Ragnar hafði þjónað á Siglufirði sem var Nonna kær og á ljósmyndum sem teknar voru í veislunni sést hann ýmist sitja hægra megin, vinstra megin eða fyrir framan klerkinn. Á einhverjum tímapunkti hefur hann ábyggilega setið fyrir aftan hann, það náðist bara ekki á mynd.

„Hann er óvenjulega skemmtilegur maður, þessi frændi þinn,“ varð séra Ragnari að orði þegar ég spurði hvað hefði farið þeim á milli.

Í sömu veislu bað Ólafur Örn, sonur Nonna, um orðið og flutti mergjað kvæði á rússnesku, svo kaffibollar og undirskálar byrjuðu að skjálfa. „Ótrúlegur maður, hann Óli minn,“ sagði Nonni við mig. „Hann talar reiprennandi rússnesku.“

Ég áttaði mig aldrei á því hvernig Nonni var dómbær á það en dreg þetta alls ekki í efa. Óla er margt til lista lagt og talar mörg tungumál. Og þekkir þau eins og lófann á sér, rússnesku skáldin.

Eldri dóttir Nonna, Pálína Jónsdóttir, alnafna ömmu á Grund, er líka listhneigð og hefur getið sér gott orð sem leikkona og leikstjóri og er óhrædd við að fara ótroðnar slóðir. Yngri dóttirin, Júlía, er grunnskólakennari á Hófsósi.

Nonni gat líka verið svolítið utan við sig. Fræg er sagan af því þegar hann ákvað að drepa tímann fram að brúðkaupi sem hann átti að mæta í og skella sér í bíó. Nonni áttaði sig á hinn bóginn ekki á því að myndin, um Grikkjann Zorba, var mun lengri en gengur og gerist og fyrir vikið varð hann of seinn í brúðkaupið.

Það getur komið fyrir bestu menn en hitt var verra, þetta var hans eigið brúðkaup.

Allt fór þó vel og þau Ólöf Ólafsdóttir frá Siglufirði voru gefin saman. Hún lifir eiginmann sinn.

Löngu seinna mætti Nonni aðeins of seint í kistulagningu föður síns fyrir norðan. Þá hallaði elsti bróðir hans, Siggi á Höskuldsstöðum, sér upp að honum og hvíslaði: „Jæja, Nonni minn. Á hvaða mynd varstu núna?“

Já, þeir voru hver öðrum hnyttnari og eftirminnilegri þessir föðurbræður mínir frá Grund sem nú eru allir látnir.

Blessuð sé minning Sigga, Sighvatar, Sturlu og Nonna!

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00