Listrænir foreldrar íshokkílandsliðskvenna
Kvennalandsliðið í íshokkí fer ótroðnar slóðir í fjáröflun fyrir þátttöku liðsins í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fór í desember og svo í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins sem fram fer í Póllandi í apríl. Efnt hefur verið til myndlistarlottós þar sem kaupendur miða eiga möguleika á að vinna eitt fimm listaverka – og ekki bara einhverra listaverka heldur eru þau öll eftir foreldra landsliðskvenna sem hafa gefið listaverkin sín í þessa söfnun.
Það segir svo ef til vill sína sögu um liðsandann í landsliðinu að stelpurnar eru ekki að safna hver fyrir sínum ferðakostnaði heldur í einn sameiginlegan pott. Silvía Rán Björgvinsdóttir, fyrirliði landsliðsins, segir viðtökurnar við þessari óvenjulegu fjáröflun hafa farið fram úr björtustu vonum. Silvía Rán segir stelpurnar í landsliðinu hafa tekið ákvörðun um það í fyrra þegar þær þurftu að greiða kostnað vegna landsliðsferðar að gera sitt allra besta í að safna upp í ferðir saman sem lið svo engin þeirra þyrfti að borga úr eigin vasa.
Slóvakía í desember, Pólland í apríl
Það gefur auga leið að þátttaka í svona verkefnum kostar mikla fjármuni og þarf hver og einn leikmaður að greiða um 200 þúsund krónur á þessu tímabili vegna ferðakostnaðar í þessi verkefni. Í auglýsingu fyrir myndlistarlottóið segir meðal annars: „Erfitt er að tefla fram einvala liði þegar okkar bestu leikmenn geta ekki tekið þátt vegna kostnaðar. Því óskum við eftir þínum stuðningi í þessu mikilvæga verkefni okkar.“
Stuðningurinn sem óskað er eftir felst semsagt í því að kaupa miða í myndlistarlottóinu þar sem í vinning eru fimm málverk og vekur sérstaka athygli að það frábæra listafólk sem landsliðið á í samstarfi við um þetta verkefni á það sameiginlegt að vera foreldrar kvenna í liðinu. Listafólkið hefur gefið verkin sem eru alls að andvirði yfir hálfri milljón.
- Jóhanna Bára Þórisdóttir - Eva María Karvelsdóttir, SA
- Karólína Baldvinsdóttir - Sunna Björgvinsdóttir, Sodertelje SK í Svíþjóð
- Ragnar Hólm Ragnarsson - Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir, SA
- Sigurdís Gunnarsdóttir - Elísa Dís Sigfinnsdóttir, Fjölni
Listaverkin
- Kennitala: 090799-3049
- Reikningsnúmer: 0162-26-009399
- Skýring: lottó2025