Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Leifsstaðir

Umfjallanir um íbúðarhús Guðjóns Samúelssonar í Eyjafjarðarsveit áttu að mynda nokkurs konar þríleik hér. Eins og öllum góðum þríleikjum sæmir, er hann í fjórum þáttum – og hér kemur sá fjórði, Leifsstaðir!

Hátt uppi í hlíðum (100m y.s.) sunnanverðrar Vaðlaheiðar stendur bújörðin Leifsstaðir. Neðan við Leifsstaði eru svokallaðar Leifsstaðabrúnir, að mestu klæddar myndarlegum skógi. Ekki er þeim sem þetta ritar kunnugt um hversu langt má rekja sögu jarðarinnar, eða heldur við hvaða Leif bærinn er kenndur. Núverandi hús á jörðinni er hartnær aldargamalt en það reisti Bergsteinn Kolbeinsson á árunum 1928-30. Hann hafði áður búið í Kaupangi og reist þar veglegt steinhús eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Líkt og í Kaupangi tæpum áratug fyrr, leitaði Bergsteinn í smiðju Húsameistara ríkisins, sem teiknaði fyrir hann reisulegt steinhús með áföstu gripahúsi.

Leifsstaðahúsinu mætti skipta í tvær álmur. Sú syðri er íbúðarhús, einlyft steinhús á háum kjallara með háu risi og smáum miðjukvisti. Áfast húsinu, þ.e. norðurálman er mikil steinsteypt, tveggja hæða bygging með háu valmaþaki, áður fjós og hlaða en mun nú gistirými. Veggir eru múrsléttaðir og stallað bárujárn á þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins. Grunnflötur syðra húss er nærri 9x11m en norðurálman nærri 20x11m. Útskot er á norðausturhorni norðurálmu. Leifsstaðir standa á brún eða hól norðan við Kúalæk, um 1,5km frá Eyjafjarðarbraut eystri og liggur að húsinu um 150m heimreið frá Leifsstaðavegi (sem liggur raunar að Króksstöðum). Frá Akureyri eru um 7 kílómetrar að hlaðinu á Leifsstöðum.

Þegar þau Bergsteinn Kolbeinsson og Ingibjörg Sölvadóttir fluttu að Leifsstöðum úr Kaupangi, árið 1928 gæti hafa staðið þar torfbær sá er lýst er í Bæjalýsingum og teikningum Jónasar Rafnar. Sá bær sneri A-V og samanstóð af bæjardyrum (inngöngurými, n.k. forstofa) og stofu en til austurs lágu löng og mjó bæjargöng að baðstofu, sem var austast. Inn af göngunum var eldhús norðanmegin og búr sunnanmegin vestast en áfast henni á vesturhlið var skemma (sbr. Jónas Rafnar 1975:158). Þessi lýsing á reyndar við Leifsstaðabæinn eins og hann var fjörutíu árum fyrr, mögulega hafði hann verið stækkaður eða breytt í millitíðinni. Þegar Bergsteinn og Ingibjörg fluttu að Leifsstöðum höfðu þau nokkrum árum fyrr reist nýtt steinhús í Kaupangi og hófust fljótlega handa við byggingu slíks húss á Leifsstöðum. Leitaði Bergsteinn sem fyrr til Guðjóns Samúelssonar varðandi hönnun hússins. Árið áður, 1927, hafði Jónas frá Hriflu skrifað um nýja húsið á Kaupangi og meðal annars lýst þeirri skoðun sinni, að aðalhlið hússins hefði betur snúið í sólarátt fremur en til vesturs. Hvort þeir Guðjón og Bergsteinn bóndi hafi tekið þetta sérstaklega til greina skal ósagt látið hér, en á Leifsstöðum snúa stafnar í vestur og austur og aðalhliðin mót suðri. Stafninn ber óneitanlega skemmtilega við hlíðar Vaðlaheiðar þar sem bærinn trónir hátt yfir nærliggjandi byggð. Upprunalega teiknaði Guðjón Leifsstaði með tveimur misháum burstum. Var það svipaður stíll og prestsetrið á Saurbæ sem hann teiknaði á svipuðum tíma. Ekki gerði hann ráð fyrir torfþaki í þetta skiptið, líkt og á Möðrufelli og Kaupangi átta árum fyrr. Undir lægri burst Leifsstaðahússins gerði Guðjón ráð fyrir hlöðu en fjósið myndi vera í kjallara íbúðarhússins. Var það löngum alþekkt ráð til upphitunar híbýla til sveita, að íbúðarrými og baðsstofur væru ofan við fjósið þar sem fólkið naut varmans frá kúnum. Að þessu leyti greindi þá á, Guðjón Samúelsson og Guðmund Hannesson héraðslækni sem báðir voru miklir hugsjónamenn fyrir bættum híbýlum landsmanna. Sá síðarnefndi var ekki hrifinn af sambýli manna og skepna undir sama þaki (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:115).

Húsin á Leifsstöðum munu hafa verið fullbyggð árið 1931, íbúðarhúsið 1930 og fjós og hlaða ári síðar. Hvort húsið var byggt með tveimur burstum í upphafi en breytt síðar er höfundi ókunnugt um, en líklega hefur norðurálma hússins, hlaða og fjós, verið byggð með valmaþaki í upphafi. Á Héraðsskjalasafninu er að finna skjöl frá 1934 annars vegar og 1956-67 hins vegar, þar sem finna má lýsingar á flestum bæjarhúsum Öngulsstaðahrepps vegna mats til brunabóta. Flestum, ekki öllum, er þarna lykilorð, því þar er ekki að finna neina lýsingu á Leifsstaðahúsinu. Er það auðvitað miður en stundum er það svo, að heimildir sem leitað er að, finnast ekki eða eru hreinlega ekki til. Það er auðvitað niðurstaða út af fyrir sig. En höfundur telur þó líklegast að íbúðarhúsið sé að mestu óbreytt frá upphafi, þ.e. að ytra byrði. Innra skipulagi hefur væntanlega verið breytt þó nokkuð vegna breyttrar notkunar. Hins vegar er ljóst, að húsið hefur verið raflýst frá upphafi en rafmagn var ekki sjálfsgefið til sveita hérlendis um 1930. Í Degi 6. desember 1928 (52. tbl. 10. árg.) birtist nefnilega eftirfarandi frétt: Þrír bæir í Kaupangssveit, Leifsstaðir, Fífilgerði og Króksstaðir, hafa nýlega komið sér upp rafveitu. Hefir Bíldsá verið virkjuð, og hefir stöðin 20 hestafla kraft. Rafmagnið var notað til ljósa, hitunar og suðu. Var það Bjarni Runólfsson frá Hólmi í Landbroti sem annaðist þessar virkjanaframkvæmdir í Bíldsá en hann byggði margar smærri rafveitur víða um land á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.

Bergsteinn Kolbeinsson og Ingibjörg Sölvadóttir bjuggu hér til æviloka, Ingibjörg lést árið 1942 en Bergsteinn árið 1948. Seinni kona Bergsteins, Þóra Sólveig Rögnvaldsdóttir frá Grjótárgerði í Fnjóskadal bjó áfram á Leifsstöðum til ársins 1968. Þá fluttust hingað þau Sigurgeir Elías Ágústsson og Rut Konráðsdóttir og eru þau búsett hér tveimur árum síðar, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil í ritverki, sem út kom 1973. Árið 1970 var bústofn Leifsstaða eftirfarandi: Þrjár kýr og eitt geldneyti, 53 fjár og fjögur hross. Þá eru ræktaðar kartöflur á einum hektara lands, töðufengur 600 hestar og ræktað land 11,38 hektarar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:408). Þá er ljóst, að fyrstu ábúendur nýja Leifsstaðahússins hafa verið ötulir við trjáplöntun, því ræktarlegur trjálundur er sunnan við húsið. Árið 1970 var hann kominn vel á legg, svo trén gætu verið frá fjórða og fimmta áratug aldarinnar. Árið 1990 telur bústofn Leifsstaða 15 hross og ræktað land er 12,6 hektarar. Bergsteinn Eiríkur Gíslason og Halldóra Hafdís Karen Halldórsdóttir eru eigendur jarðarinnar árið 1990 og ábúendur Birgir Stefánsson og Heiða Hrönn Jóhannsdóttir (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1066). Hefðbundinn búskapur mun hafa lagst af á Leifsstöðum á 10. áratug síðustu aldar en um 1995 fór fram annars konar uppbygging á staðnum. Var þá byggt við norðurálmuna og húsunum breytt í gistiheimili, túnum breytt í golfvöll og síðar risu smærri gistiskálar og hús norðan við bæjarhúsin. Árið 2010 eru eigendur og ábúendur þau Árný Petra Sveinsdóttir og Gunnar Thorarensen Gunnarsson. Þá kallast jörðin Leifsstaðir II en jörðinni mun hafa verið skipt árið 1991 og Leifsstaðir II gert að lögbýli. Ekki kemur fram hver stærð ræktaða lands Leifsstaða er, en fram kemur að túnin hafi að mestu verið lögð undir golfvöll. Byggingar eru, auk íbúðarhússins frá 1930, gistihús byggð 1994-95 og 2005 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:593). Umrædd gistihús munu byggð upp úr fjósi og hlöðu frá 1931. Árið 1946 var býlið Brúarland byggt úr landi Leifsstaða, norðan og neðan bæjarins við Leifsstaðabrúnir. Þar hefur á síðustu áratugum risið dágóð íbúðarhúsaþyrping sem kallast Brúnahlíð og enn er byggt á Brúarlandstúnum. Þá eru margir sumarbústaðir og orlofshús í landi Leifsstaða og Brúarlands.

Leifsstaðahúsið er reisulegt en látlaust hús. Þríhyrndur smágluggi upp undir rjáfri setur á það ákveðinn svip, smáatriði sem þó hefur mikið að segja sem svipauki glæsts húss. Það er í mjög góðri hirðu og í raun sem nýtt að sjá. Síðari tíma viðbætur og byggingaframkvæmdir spilla ekki heildarmynd hússins enda hafa þær verið í samræmi við upprunalega samsetningu. Bæjarstæðið er einnig sérstaklega skemmtilegt, hátt uppi í brekkunum með útsýni svo að segja um gjörvallan Eyjafjörð. Suðurhlið hússins sést þó trauðla um langan veg, en þar er mikill skógarlundur, sem einnig er til mikillar prýði. Á Leifsstöðum hefur sl. áratugi verið rekin ferðaþjónusta, gisting, veitingar o.fl. nú undir merkjum Hotel North og eflaust verður enginn svikinn af því, að gista þessar glæstu byggingar í dásamlegu umhverfi. Hvað varðar varðveislugildi eða friðun Leifsstaða er það að segja, að húsið er fáeinum árum yngra en svo, að það teljist aldursfriðað (byggt eftir 1923) en það telst hins vegar umsagnarskylt. Umsagnarskyldum húsum má hvorki breyta né rífa án undangenginnar umsagnar minjaverndaraðila og á þetta ákvæði við um hús byggð bilinu á 1924-40. Þá er húsið auðvitað eitt verka Guðjóns Samúelssonar. Meðfylgjandi myndir af Leifsstöðum eru teknar 17. júlí 2023 en myndin af Brúarlandi þann 31. mars 2020.

ATH. Það kom fram í fyrri grein undirritaðs um Kaupang, að Bergsteinn Kolbeinsson og Ingibjörg Sölvadóttir hafi flust að Kaupangi árið 1905. Það er í raun ekki alls kostar rétt, því hið rétta er, að Ingibjörg fluttist að Kaupangi árið 1902 með foreldrum sínum, Sölva Magnússyni og Steinunni Einarsdóttur. Bergsteinn fluttist hins vegar að Kaupangi, er hann giftist Ingibjörgu árið 1905. Þessar upplýsingar fann höfundur í minningargrein Jóns H. Þorvaldssonar um Ingibjörgu í tímaritinu Hlín frá árinu 1946. Er þessu hér með komið á framfæri.

Heimildir:

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Jónas Jónsson. 1927. Byggingar. Í Samvinnunni 2. tbl. 20. árgangur 1. júní 1927. (Af timarit.is)

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00