Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Kaupangur

Ysti hluti Eyjafjarðarsveitar austanmegin, áður í Öngulsstaðahreppi, hefur löngum nefnst Kaupangssveit, eftir kirkjustaðnum Kaupangi. Bærinn sá stendur á lágum hól í brekkunum austan Eyjafjarðarbrautar eystri, nokkurn veginn beint upp af Þverbrautinni, gamla þjóðveginum yfir óshólma Eyjafjarðarár. Þar standa veglegar steinsteyptar byggingar frá fyrsta fjórðungi 20. aldar, kirkja frá árinu 1922 og  íbúðarhús frá 1920. Það má svo geta þess, að rétt eftir að steinhús þessi voru risin, þ.e. árið 1923 var Eyjafjarðará brúuð um Hólmana. Einhver gæti ímyndað sér, að brýrnar hefðu aldeilis nýst vel í aðdrætti og flutninga að húsunum sem eru hvort um sig stórvirki síns tíma. Rétt eftir að húsin miklu á Kaupangi, íbúðarhúsið og guðshúsið, voru risin af grunni; var áin brúuð svo gott sem í túnfætinum! En höfum í huga, að menn þekktu auðvitað ekki annað, en að áin væri óbrúuð og öll flutningatækni miðaðist við það. Bergsteinn Kolbeinsson Kaupangsbóndi og hans fólk létu alltént ekki brúarleysið ekki aftra sér frá byggingu veglegs steinhúss. Húsið var byggt eftir teikningum stórhuga arkitekts sem nýlega hafði hafið störf eftir námsdvöl í Danmörku og hafði mikinn hug á að bæta húsakost landsmanna þ.m.t. til sveita. Sá var auðvitað enginn annar en Guðjón Samúelsson. Téða kirkju teiknaði hins vegar Sveinbjörn Jónsson.

Sögu Kaupangs má líklega rekja til upphafs búsetu manna í Eyjafirði, hvorki meira né minna. Skammt norðan bæjarins er Festarklettur, þar sem sagt er að Helgi magri hafi lagt skipi sínu að landi. Hét hann áður Galtarhamar og dregur væntanlega nafn sitt af gelti Helga, sem mun hafa verið bíldóttur. Sá mun hafa farist í á sem rennur þar skammt frá, og þaðan komið nafnið Bíldsá. Segir í Landnámu, að Helgi magri hafi búið einn vetur á Bíldsá sem talin er sama jörð og Kaupangur er nú. Síðar er talið, að þarna hafi verið verslunarstaður eða kaupstefnur og nafnið Kaupangur til komið þannig. (Brynjólfur Sveinsson, Guðrún María Kristinsdóttir 2000:60) Áin, sem rennur norðan Kaupangs heitir heitir hins vegar enn Bíldsá og rennur hún um og niður Bíldsárskarð. En förum nú hratt yfir sögu, til upphafs 20. aldar, en það mun hafa verið árið 1905 sem þau Bergsteinn Kolbeinsson og Ingibjörg Sölvadóttir fluttust að Kaupangi. Bergsteinn var af Suðurlandi, nánar tiltekið úr Gnúpverjahreppi, fæddur á Stóru- Mástungu en fluttist um tvítugt í Bárðardal sem vinnumaður. Þar kynntist hann Ingibjörgu Sölvadóttur úr Svartárkoti. Ingibjörg var hins vegar fædd í Kelduhverfi, nánar tiltekið í Svínadal. Þegar þau Bergsteinn og Ingibjörg fluttust í Kaupang stóð þar nokkuð hefðbundinn bær með því lagi, sem tíðkast hafði um aldir. Einhvern tíma hefur þeim verið ljóst, að þáverandi bæjarhús væru ekki til ásetnings og farið að huga að nýbyggingu. Tvíbýlt virðist hafa verið á Kaupangi árin 1907-16, en þau ár eru jafnan aðrir ábúendur á staðnum ásamt Bergsteini og Ingibjörgu. Á fyrstu áratugum 20. aldar þótti mönnum sýnt, að framtíðin lægi ekki í torfbæjum, sem voru svo mikið sem mikið þrír fjórðu hlutar allra íbúðarhúsa í dreifbýli (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:107).

Áður en sagt er frá hönnun Kaupangs Guðjóns Samúelssonar er rétt að nefna til sögunnar annan merkan mann í sögu húsagerðar og skipulags hérlendis: Guðmund Hannesson lækni. Guðmundur hafði mikla ástríðu og beitti sér mjög fyrir bættum húsakosti landsmanna og reifaði hugmyndir sínar um framtíðarskipulag húsa og bæja í tímaritum og eigin ritum m.a. Um skipulag bæja. Guðmundur taldi steinsteypuna byggingarefni framtíðarinnar. Árið 1915 birtist grein eftir Guðmund í Búnaðarritinu og þar var að finna teikningu Guðjóns Samúelssonar af íslenskum sveitabæ og átti hún að sýna nokkurs konar „fyrirmyndarsveitabæ“. Í þeirri teikningu sjást greinileg áhrif frá dönskum búgörðum en þá hafði Guðjón kynnt sér í námi sínu þar ytra. Og Kaupangshúsið, sem Guðjón teiknaði í mars 1920, virðist af sama meiði og fyrrgreind teikning við grein Guðmundar. Guðjón Samúelsson hafði, líkt og Guðmundur Hannesson, mikinn áhuga á að bæta húsakost íslenskra bænda og hafði einnig tröllatrú á steinsteypunni. Jafnframt vildi Guðjón þó einnig halda í ákveðin þjóðernisrómantísk einkenni t.d. teiknaði hann þó nokkur hús með burstabæjarlaginu. Og Kaupangshúsið var með torfþaki á upprunalegu teikningunni ásamt bogadregnum kvistum, sem voru auðveldari viðfangs við torfþekju. Þá kallaði hann helstu stofu hússins, fyrir miðju á framhlið, baðstofu. Aldrei mun hafa verið torfþak á Kaupangi heldur járnþak frá upphafi, en þakið prýða bogadregnir kvistir. Á sama tíma hefur verið reist ný hlaða á staðnum, en samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar stendur á Kaupangi geymsla byggð 1920, sem áður var hlaða (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1056).

Íbúðarhúsið í Kaupangi er einlyft steinhús á kjallara, með háu risi. Á miðri framhlið (vesturhlið) er bogalaga kvistur en tveir slíkir á bakhlið. Veggir eru múrhúðaðir, bárujárn á þaki og krosspóstar í flestum gluggum. Horn hússins eru afmörkuð með ferköntuðum súlum, nokkurs konar steyptri eftirlíkingu af steinhleðslu og einnig er skraut efst á stöfnum hússins; steypt lóðrétt bönd sem minna á timburklæðningu. Húsið stendur sem fyrr segir á lágri hæð við Eyjafjarðarbraut eystri. Að húsinu liggur um 130m heimreið norðan við það, nokkurn vegin beint strik upp hlíðina en sunnanmegin liggur heldur lengri heimreið í sveig að kirkjunni. Frá Miðbæ Akureyrar eru um 7 kílómetrar að Kaupangi.

Þann 1. október 1923, fyrir nánast réttri öld þegar þetta er ritað, birtist afar löng og ítarleg frásögn í Tímariti íslenskra Samvinnufélaga af Kynnisför sunnlenskra bænda til Norðurlands vorið 1920. Þar segir svo frá: Í Kaupangi býr Bergsteinn Kolbeinsson, ættaður frá Stóru-Mástungu í Árnessýslu, gildur bóndi við góð efni. Þar stóðum við lengi við, því bæði var rausnarlega tekið á móti okkur, og svo breyttist veður frá því, sem við höfðum átt að venjast, eftir að við komum á Norðurland… [þar] var verið að byggja stórt og vandað steinhús, og sagði Bergsteinn, að það mundi kosta um 40 þús. krónur (Böðvar Magnússon og Kristinn Ögmundsson 1923: 105-106). Sjö árum eftir ferð hinna sunnlensku bænda um Norðurland fjallaði Jónas Jónsson frá Hriflu um nokkur nýleg íbúðarhús til sveita í Samvinnunni og þar á meðal er Kaupangur. Grípum niður í frásögn Jónasar: […]yfirleitt er húsið í Kaupangi hin prýðilegasta bygging. Kjallarinn er lágur, fremur ódýr og eingöngu notaður til geymslu. Íbúðarherbergin eru á aðalhæð. Mjög stór borðstofa er meðfram vesturhlið, en smáherbergi út frá að norðan austan og sunnan. Borðstofan er fyrst og fremst hituð upp, og hin minni herbergi eftir þörfum. Í borðstofunni er borðað, unnið og setið. Þar er heimilisfólkið saman nokkuð í fornum stíl. Með því að gera borðstofuna veglega vildu þeir Guðjón og Bergsteinn vinna á móti þeirri tvístrun heimilisfólksins, sem óhjákvæmilega verður í leiguhúsum kauptúnanna, þar sem hver maður verður meir eða minna einangraður í sínu herbergi. Á loftinu eru aðallega svefnherbergi, bæði fyrir heimafólk og gesti (Jónas Jónsson 1927:164). Niðurstaða Jónasar er sú, að Kaupangshúsið sé hið ágætasta, það sé nokkurs konar fyrirmynd enda þótt það sé alltof dýrt fyrir meðaljarðir. Þó telur hann að hús með burstabæjarlagi hefði farið betur á þessum stað og að prýði hefði orðið af torfþakinu, sem var á teikningunni. Húsið telur Jónas, að geti dugað í nokkrar aldir!

Árið 1934 er íbúðarhúsið í Kaupangi virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, stærð 13,2x9,5m, 7,6m á hæð. Húsið úr tvöfaldri steinsteypu, öll skilrúm úr steini í kjallara og á stofuhæð, á lofti úr timbri og járnþak á húsinu. Húsið hitað upp með miðstöð, vatnsleiðsla, bað og W.C. (Björn Jóhannesson 1934, án bls). Þá mun eigandi hafa verið Árni Guðjónsson. Ekki kemur fram hver eigandi er, en Bergsteinn Kolbeinsson flutti úr Kaupangi á Leifsstaði, ofar og norðar í sömu sveit, árið 1928. Árni Guðjónsson og Bjarnþóra Jóninna Benediktsdóttir eru hér ábúendur frá 1928-1944. Mögulega hafa þau ráðist í byggingu nýrrar hlöðu, en á Kaupangi stendur hlaða sem sögð er byggð 1928. Þá má nefna að á þriðja áratugnum voru byggð úr landi Kaupangs, norðan og ofan við bæinn, býlin Knarrarberg (1924) og Arnarhóll (1925). Á síðarnefnda bænum bjuggu í hartnær hálfa öld þau Kristinn Sigmundsson og Ingveldur Hallmundsdóttir, föðurforeldrar þess sem þetta ritar, og stunduðu þar myndar búskap. Þau fluttust að Arnarhóli árið 1940. Knarrarbergslandið telst nú að mestu innan lands Festarkletts, skógræktarbýlis sem byggt var 2010.

Næstu áratugi búa ýmsir í Kaupangi, stundum virðist hafa verið tvíbýlt. Sigurður Sigurðsson frá Ánastöðum og Unnur Pálmadóttir frá Sílastöðum eru hér ábúendur frá 1959 til 1965 en þá flytjast hingað þau Kristján Hannesson frá Víðigerði og Olga Ágústsdóttir frá Bolungarvík. Ef við grípum niður í umfjöllun Byggða Eyjafjarðar árið 1970 eru hér sögð m.a. hlöður fyrir 1900 hesta af heyi, fjárhús fyrir 250 fjár, fjós fyrir 36 kýr og hesthús fyrir 6 hross. Íbúðarhúsið er sagt 919 rúmmetrar að stærð, byggt 1920 úr steinsteypu. Bústofninn telur 35 kýr, 7 geldneyti, 206 fjár og 2 hross. Túnstærð er sögð 47,48 hektarar og tekið fram, að framræst land til túnræktar sé um 25 hektarar og starengjar til slægna og beitar um 85 hektarar. Ábúendur og eigendur að 1/3 eru téð Kristján og Olga en hina 2/3 á Björn Ingvarsson lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:403). Tuttugu árum síðar, þegar Byggðum Eyjafjarðar voru aftur gerð skil í öndvegisriti eru á Kaupangi 33 kýr, aðrir nautgripir 48, 12 hross og kartöflurækt en þá hefur fjárbúskap verið hætt. Ræktað land er þá 58,5 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:1056). Árið 2010 er enginn búrekstur en ræktað land 60,4 hektarar, væntanlega nytjað af öðrum býlum (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:585). Sömu ábúendur, þ.e. Kristján Hannesson og Olga Ágústsdóttir eru hér 1990 og 2010 og enn mun Kaupangur í eigu fjölskyldu þeirra.

Kaupangshúsið er reisulegt og glæst hús og í góðri hirðu. Það, ásamt hinni sérstæðu kirkju, með turninn á norðvesturhorni en ekki fremst eða við mæni og útihúsunum á bakvið, myndar mjög skemmtilega sjónræna heild og er Kaupangur mikið kennileiti í byggðinni. Húsið er væntanlega aldusfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923, auk þess sem það er eitt af verkum Guðjóns Samúelsson, raunar með fyrstu húsum sem hann teiknaði á ferlinum. Húsið er að upplagi skrautlegt og setur bogalaga kvistur ásamt steypuskrauti á það skemmtilegan svip. Jónas frá Hriflu taldi að Kaupangshúsið gæti staðið nokkrar aldir; nú er nýlega hafin önnur öld þess og ekki annað hægt að segja, að það standist með prýði. (Aðrir verða hins vegar að dæma um næstu aldir). Myndirnar eru teknar 23. apríl 2020 og 8. júlí 2023 en myndin af Festarkletti er tekin 17. júlí 2023.

Upprunaleg teikning að Kaupangi gerði ráð fyrir torfþaki, hér er brugðið á leik með þá staðreynd í myndvinnslu.

Heimildir: 

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Böðvar Magnússon og Kristinn Ögmundsson. 1923. Kynnisför sunnlenskra bænda til Norðurlands vorið 1920. Í Tímariti íslenskra samvinnufélaga 2.-3. tbl. 17. árgangur 1. okt 1923. Bls. 76-124. (Af timarit.is)

Brynjólfur Sveinsson (Guðrún María Kristinsdóttir, myndatexti). 2000. Svæðislýsing. Í Bragi Guðmundsson (ritstj.) Líf í Eyjafirði bls. 59-94. Akureyri: Höfundar og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Jónas Jónsson. 1927. Byggingar. Í Samvinnunni 2. tbl. 20. árgangur 1. júní 1927. (Af timarit.is)

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00