Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Geislagata 5

Geislagötu 5 reisti Kristján Kristjánsson bílasali (kallaður bílakóngur) árið 1952, eftir teikningum Gunnlaugs Halldórssonar. Hann fékk vorið 1951 leyfi til þess að reisa hús á þessum stað, 21x12m að stærð, allt að fimm hæða hátt. Hann mun hafa þurft að leita umsagnar m.a. eiganda næstu húsa og skipulagsyfirvalda. Bygginganefnd heimilaði bygginguna með fyrirvara um umsögn skipulagsyfirvalda, en fyrir lá, að Templarar sem áttu næsta hús norðan við, Hótel Norðurland, samþykktu bygginguna fyrir sitt leyti. Tæpum tveim árum síðar, eða í mars 1953, voru fullnaðarteikningar lagðar fram en endanlega hæð hússins, sem þá var risið, var raunar óákveðin.

En stórhýsi Kristjáns bílakóngs varð ekki fimm hæðir heldur þrjár og er að mestu leyti óbreytt frá upphafi; þriggja hæða steinsteypuhús með flötu eða aflíðandi þaki. Veggir eru múrsléttaðir, dúkur er á þaki og gluggar flestir póstlausir en síðir verslunargluggar á jarðhæð. Á framhlið er lítil anddyrisbygging úr gleri.

Í upphafi var húsið reist sem bílasala og skrifstofuhús, höfuðstöðvar fyrirtækja Kristjáns Kristjánssonar. Elstu auglýsingar, sem timarit.is finnur um Geislagötu 5 eru einmitt frá nóvember og desembermánuði 1953, þar sem auglýst er ný bílasala, Bílasalan Hf. Ekki virðist þar hafa verið um bílasölu í eiginlegum skilningi að ræða, heldur eru auglýstir þarna til sölu varahlutir í Ford, en einnig þvottavélar, kæliskápar og hrærivélar; nýmóðins tæki um miðja síðustu öld. Í Alþýðumanninum, 8. des. 1953 segir orðrétt: „VEGLEG BÚÐ Bílasalan h.f. hefir opnað veglega búð í Geislagötu 5, hinni myndarlegu byggingu Kristjáns Kristjánssonar, forstjóra BSA. Verzlun þessi verzlar með bifreiðavarahluti, kæliskápa og ýmis rafurmagns-heimilistæki. Einnig skrifstofuáhöld. Búðarplássið er stórt og mjög vistlegt.“ Á sjötta áratugnum var einnig starfræktur þarna tískufatamarkaður, sem hét einfaldlega Markaðurinn Þá er þetta hús í hugum margra óneitanlega tengt hinni valinkunnu húsgagnaframleiðslu Valbjörk, en verslun fyrirtækisins var um nokkurt skeið staðsett á þriðju hæð hússins. Valbjarkarhúsgögn prýddu flest heimili á Akureyri og nærsveitum upp úr miðri síðustu öld og prýða mörg þeirra enn; á þeim árum var ævinlega um að ræða vandaða smíði í húsgögnum, sem gerð var til þess að endast.

Kristján Kristjánsson seldi húsið árið 1961. Grípum niður í frásögn Alþýðublaðsins þ. 15. sept. 1961:

„BÚNAÐARBANKINN hefur keypt stórhýsi Kr. Kristjánssonar, Geislagötu 5, á Akureyri, og er ætlunin að útibú Búnaðarbankans þar færi þangað starfsemi sína. Kristján byggði Geislagötu 5 fyrir einum 10 árum, en síðan fluttust viðskipti hans hingað til Rvíkur í stórum mæli. Hann hafði og hefur umfangs mikinn rekstur á Akureyri en virðist nú ætla að selja flest þar. [...] Útibú Búnaðarbankans á Akureyri er nú til húsa í Strandgötu 5 og mun húsnæðið þykja orðið lítið og óhentugt. Alþýðublaðinu hefur ekki, tekizt að afla sér upplýsinga um söluverðið á hinu nýja húsnæði útibúsins, Geislagötu 5, sem er fjögurra hæða [svo; húsið er sannarlega þriggja hæða] og með stærstu húsum Akureyrar, ef ekki stærst fyrir ut an verksmiðjubyggingar. Blaðið hefur heyrt að söluverðið hafi numið fimm milljónum, en veit engar sönnur á því. Fasteignaverðið er rúm þrjú hundruð þrjátíu og fjögur þúsund og óhætt að margfalda það með fimm, en þá kemur út rúm ein og hálf milljón sem söluverð, en að sjálfsögðu hefur verð hússins verið hærra. Húsið stendur á góðum stað, nærri Ráðhústorgi og bætir úr skák, að í framtíðinni er talið að Geislagatan verði eins konar Laugavegur þeirra Akureyringa í framtíðinni.“

Hvort Geislagatan varð einhvern tíma, eða er, sambærileg við Laugaveg skal ósagt látið hér. Margir sjá þó eflaust samsvörum í nærliggjandi götum Miðbæjarins við verslunargötur Reykjavíkur, kannski einna helst þó í ysta hluta Hafnarstrætis og Skipagötu/Ráðhústorgi. En nóg um það. Geislagata 5 var í tæpa sex áratugi aðalútibú Búnaðarbankans - síðar KB og Arionbanka eða til vorsins 2019. Þá fluttits útibúið á Glerártorg sem vill svo til, að er einmitt að stofni til byggt á hluta umræddra verksmiðjubygginga, sem minnst er á í greininni hér að ofan.

Geislagata 5 er reisulegt hús og í mjög góðu standi, hefur enda alla tíð hlotið gott viðhald. Jafnvel þótt húsið sé hvorki stórbrotið í útliti né það prýði mikið skraut er það engu að síður eitt af kennileitum Miðbæjarsvæðisins. Í Húsakönnun 2014 er það sagt hafa mikið gildi fyrir götumynd Geislagötu og Hólabrautar, en vesturstafn hússins snýr að síðarnefndu götunni. Þar er varðveislugildi hússins ekki talið verulegt. Þegar þetta er ritað, stendur húsið að mestu ónotað en bíður nýrra eigenda og nýrrar starfsemi. Kannski verður þarna hótel, kannski íbúðir eða eitthvað allt annað. Hver veit, nema ein hæð eða tvær til viðbótar verði einhvern tíma byggðar ofan á húsið, og húsið nái þeim hæðum sem Kristján „bílakóngur“ Kristjánsson ætlaði í upphafi. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir:

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1136, 4. maí 1951. Fundur nr. 1166, 6. mars 1953. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00