Fara í efni
Pistlar

Ertu ekki orðinn svakalega jákvæður?

JÁKVÆÐ SÁLFRÆÐI - I

Eftir að ég hóf nám á meistarastigi í jákvæðri sálfræði í fyrrahaust fæ ég oft spurningar um hvort ég sé þá ekki orðinn alveg svakalega jákvæður. Það er ekkert skrýtið að fá svona spurningar og ég er alls ekki að gagnrýna þær, en í þessari stuttu grein langar mig til að fjalla örlítið um hvað jákvæð sálfræði er, og hvað hún er ekki.

Til að byrja með þá er jákvæð sálfræði ekki undirgrein sálfræði, heldur nálgun innan sálfræðinnar sem hefur það markmið að skoða með vísindalegum rannsóknum hvað það er sem reynist venjulegu fólki vel, hvað einkennir fólk sem líður vel og gengur vel, hverjir eru styrkleikar þess og dyggðir, og hvað gerir lífið þess virði að lifa því.

Viðfangsefni jákvæðrar sálfræði eru þannig styrkleikar, frekar en veikleikar og útgangspunkturinn vellíðan og hvernig auka megi hana frekar en að einbeita sér að því að koma í veg fyrir vanlíðan.

Þarna eru strax komin tvö hugtök sem líklega þarfnast frekari útskýringa, þ.e.a.s. styrkleikar og vellíðan.

Styrkleikar, eins og þeir eru skilgreindir innan jákvæðrar sálfræði eru ekki eingöngu hlutir sem við erum góð í að gera. Til viðbótar því þarf hæfileikinn eða eiginleikinn að vera eitthvað sem okkar langar til að nota, og það gefur okkur orku að nota hann. Það veitir okkur vellíðan á einhvern hátt. Ef þetta er eingöngu eitthvað sem við erum góð í, er það líklega lærð hegðun, en vissulega getum við orðið mjög góð í ýmsum hlutum, sem samt sem áður gefa okkur hvorki orku né gleði.

Vellíðan er í raun regnhlífarhugtak yfir nokkra mismunandi hluti, ekki ósvipað hugtakinu veður. Hvað meinum við með setningunni „Það er gott veður í dag“? Þættir eins og hitastig vindur og úrkoma hafa allir áhrif á hvort við skynjum veðrið sem gott eða ekki. Á sama hátt eru þættir eins og lífsánægja, tilgangur með lífinu, bjartsýni, von og fleira sem hafa áhrif á hvort við upplifum vellíðan eða ekki.

Það hafa vissulega verið notuð fleiri orð yfir hugtakið. Hamingja er kannski eitt það vinsælasta og stundum virðast orðin velsæld og vellíðan vera notuð yfir það sama. Ef oftast er vellíðan notað yfir einstaklinginn, en velsæld yfir hópa. Embætti landlæknis notar t.d. orðið velsæld í ýmsum rannsóknum sínum á líðan landsmanna. Og í núgildandi ríkisstjórnarsáttmála kemur orðið velsæld fyrir 13 sinnum.

En burtséð frá hugtakanotkun þá hefur það komið í ljós að öfugt við það sem margir kunna að halda þá er það ekki fjöldi vandamála eða erfiðleika sem hefur áhrif á hvort við upplifum okkur hamingjusöm eða ekki. Aftur á móti fer það mjög mikið eftir því hvernig við tökumst á við viðkomandi vandamál eða erfiðleika.

Hugarfar okkar hefur afgerandi áhrif á hvernig við lifum lífum okkar, og hvernig við tökumst á við áskoranir, mótlæti, gagnrýni og aðra erfiðleika. Talað er um festuhugarfar og gróskuhugarfar í þeim efnum. Einkenni festuhugarfars eru að við forðumst áskoranir, gefumst auðveldlega upp við hindranir eða mótlæti og tökum gagnrýni persónulega. Við finnum jafnvel til afbrýðisemi þegar öðrum gengur vel og lítum á það sem ógn. Festuhugarfarið segir t.d. „Ég get ekkert í stærðfræði“. Einkenni gróskuhugarfars eru aftur á móti þau að við tökumst á við áskoranir, og reynum að læra af mistökum okkar. Við sjáum gagnrýni sem tækifæri til að bæta okkur og við höfum gaman af því að prófa nýja og krefjandi hluti. Jafnframt finnum við fyrir innblæstri þegar öðrum gengur vel.

Öll höfum við blöndu af festuhugarfari og gróskuhugarfari, og ákveðnir þættir geta kveikt á festuhugarfari í okkur, sem gerir það að verkum að við verðum óörugg og förum í vörn, sýnum viðbrögð sem hindra þroska okkar tímabundið. Til að hjálpa gróskuhugarfarinu að vaxa í lífum okkar verðum við að læra að þekkja þessa þætti. Þegar við finnum fyrir þeim er gott að viðurkenna tilvist þeirra, en láta þá ekki ná stjórn á okkur, heldur takast á við þær áskoranir eins og aðrar.

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um jákvæða sálfræði. 

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30