Fara í efni
Pistlar

Frú Ragnheiður – virðing, samkennd og væntumþykja

Rauði krossinn - II

Verkefnið Frú Ragnheiður er starfrækt á þremur þéttbýlisstöðum á landinu; höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á Akureyri. Verkefnið byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja skaða og áhættu sem hlýst af notkun vímuefna, frekar en að fyrirbyggja notkunina sjálfa.

Frú Ragnheiður hefur það markmið að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð. Það er gert með því að veita þjónustu sem auðvelt er að nálgast í nærumhverfi einstaklingsins. Öll geta leitað til Frú Ragnheiðar en verkefnið hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu á borð við húsnæðislausa einstaklinga og þau sem nota vímuefni í æð.

Það hefur verið mjög mikilvægt að finna stuðning og áhuga samfélagsins á verkefninu. Til að mynda sátu nú í vikunni yfir 30 einstaklingar námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða Frú Ragnheiðar, en allir sjálfboðaliðar sækja námskeið og fara í gegnum þjálfun til að geta veitt þjónustu í Frú Ragnheiðar bílnum. Verkefnið hefur einnig notið velvildar ýmissa góðgerðarfélaga sem lagt hafa lið með fjárstuðningi. Reglulega berast sendingar af hlýjum fatnaði frá einstaklingum, einn matsölustaður gefur skjólstæðingum matarbakka og svo mætti áfram telja.

Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásrímsdóttur eru hópstjórar verkefnisins, Frú Ragnheiður.

Hið óeigingjarna starf sjálfboðaliða Frú Ragnheiðar er grundvöllur verkefnisins. Hver sjálfboðaliði tekur að meðaltali eina til tvær vaktir á mánuði og skuldbindur sig til að taka þátt í að lágmarki eitt ár. Hópurinn er fjölbreyttur, stærsti einstaki faghópurinn er hjúkrunarfræðingar, en læknar, iðjuþjálfar, lyfjafræðingar, sálfræðingar og aðrir reynslumiklir einstaklingar taka líka þátt í verkefninu. Rauði krossinn leggur metnað í að hafa ávallt vel þjálfaða sjálfboðaliða sem sinna fjölbreyttum verkefnum og starfa eftir grundvallarhugsjónum Rauða krossins.

Sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar eru á ferðinni á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum milli klukkan 20-22. Frú Ragnheiður lofar 100% trúnaði og nafnleynd og leggur mikla áherslu á að koma fram við fólk af virðingu, samkennd og væntumþykju. Boðin er nálaskiptaþjónusta, tekið á móti sóttmenguðum búnaði og skjólstæðingum boðnar skaðaminnkandi leiðbeiningar. Nýlega var keypt æðasjá sem aðstoðar við að finna æðar, með því má minnka líkur á sýkingum, æðabólgum og öðrum heilbrigðisvandamálum. Á hverri vakt eru tveir sjálfboðaliðar og annar þeirra er alltaf heilbrigðismenntaður.

Sálrænn stuðningur og ráðgjöf er annar mikilvægur hluti af þjónustu Frú Ragnheiðar. Hægt er að leita aðstoðar við að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu. Auk þess er hægt að nálgast hlý föt, næringu, svefnpoka og tjalddýnur.

Góð samskipti ríkja milli Frú Ragnheiðar og ýmissa fagaðila sem koma að þjónustu við fólk sem notar vímuefni í æð. Til dæmis hafa hópstjórar Frú Ragnheiðar síðustu vikurnar fundað með slökkviliðs- og sjúkraflutningafólki til að kynna nýjungar í þjónustunni. Þar á meðal dreifingu Naloxone sem er nú, með stuðningi heilbrigðisráðuneytisins, dreift til notenda þjónustunnar og þau frædd um notkun efnisins. Um er að ræða nefúða sem getur komið í veg fyrir dauðsföll af völdum ofskömmtunar. Það verður að segja að fagfólk í þjónustu við fólk sem neytir vímuefna hefur sýnt starfsemi Frú Ragnheiðar mikinn skilning og stuðning.

Ef þú vilt vera sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði eða taka þátt í öðrum verkefnum Rauða krossins getur þú fyllt út umsókn á vefnum okkar raudikrossinn.is, haft samband með tölvupósti á netfangið berglindj@redcross.is eða hringt í síma 570-4270. Aldurviðmið sjálfboðaliða í Frú Ragnheiði er 20 ár.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00