Fara í efni
Pistlar

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Mér þykir rétt að byrja á því að deila smá bakgrunni mínum og ástæðu þess að ég ákvað að skrifa pistlaröð um gervigreind.

Í grunninn er ég múrari, en starfaði í Slökkviliði Akureyrar (SA) í rúm 16 ár. Á þeim tíma öðlaðist ég menntun sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og fór til Bandaríkjanna í sérnám sem bráðatæknir. Á starfstíma mínum hjá SA náði ég mér einnig í B.A. próf í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri (HA) og starfaði sem formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um árabil.

Í nóvember 2022 færði ég mig í skrifstofustarf, nánast á sama tíma og OpenAI gáfu út ChatGPT 3 sem var mín fyrsta snerting við þá gerð gervigreindar sem ég mun helst fjalla um. Ég áttaði mig fljótt á að hér væri komin fram tímamótatækni sem væri mjög spennandi og gæti eflaust verið nýtileg í mörgum tilvikum.

Fljótlega varð mér ljóst að til að hagnýta þessa tækni yrði ég að brýna gagnrýna hugsun, læra á tæknina til að öðlast skilning og temja mér ábyrga nýtingu hennar í lífi og starfi.

Haustið 2023 skráði ég mig á námskeið hjá endurmenntun Oxford-háskóla í lágkóða gagnavísindum. Þar opnaðist fyrir mér nýr heimur og hófst vegferð sem ekki sér fyrir endann á. Umsjónarkennari námskeiðsins, Ajit Jaokar, er mikils metinn á alþjóðavettvangi á sviði tölvuvísinda og má segja að okkur sé orðið vel til vina. Ajit hefur magnaðan persónuleika og lagði hann mikla áherslu á að hafna loddaralíðan (imposter syndrome) og ítrekaði mikilvægi þess að við tækjum þátt í að móta þróun tækninnar og hvernig nýta mætti hana til góðs fyrir samfélagið.

Í maí ferðaðist ég til Bretlands á ráðstefnu sem var eins konar framhald af fyrra námskeiði. Í kjölfarið tók ég þátt í stóru raunhæfu verkefni sem fólst í miklum lærdómi. Nánast fyrir slysni tók ég einnig tölfræðiáfanga í vetur við HA, og tel ég það hafa verið mikið gæfuspor því það styður sannarlega við þessa nýju þekkingu.

Vegferð mín að læra um gervigreind er rétt hafin og ég bíð spenntur eftir næsta kafla. Ég tel mig eiga fullt erindi að fjalla um málefnið á mannamáli og styðja þannig við nauðsynlega samfélagsumræðu.

Ég mun reyna að skýra hugtök og virkni á íslensku en ekki verður hjá því komist að láta ensk heiti eða hugtök fylgja þannig að allir geti áttað sig á því um hvað er fjallað.

Ef þið hafið ábendingar, athugasemdir og ekki síst skemmtileg nýyrði má endilega hafa samband á netfangið magnus.smarason@gmail.com.

Magnús Smári Smárason skrifar vikulega pistla fyrir Akureyri.net um gervigreind á næstunni. Sá fyrsti birtist í dag

Lifandi steingervingur: Fornrauðviður

Sigurður Arnarson skrifar
03. júlí 2024 | kl. 10:10

Að temja tæknina II: Í klóm drekans

Magnús Smári Smárason skrifar
02. júlí 2024 | kl. 10:50

Sykur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 11:30

Dómgreind

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 06:00

Seigla og linka

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
30. júní 2024 | kl. 06:00

Þú trylltist og varst rekinn út af!

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. júní 2024 | kl. 11:00