Þór Sigurðsson – lífshlaupið
Þór Sigurðsson fæddist 9. júní 1949 í Þingvallastræti 18 á Akureyri. Hann lést 21. maí 2024 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Foreldrar Þórs voru Kristín Bjarnadóttir húsfreyja, f. á Seyðisfirði 1909, d. 1984, og Unnar Sigurður Oddsson Björnsson prentsmiðjustjóri, f. Kaupmannahöfn 1901, d. 1975.
Systkini Þórs: Geir, f. 1924, d. 1993, Bjarni, f. 1934, d. 1996, Sólveig, f. 1936, d. 1991, Ingibjörg, f. 1940, Ragnar, f. 1942, og Oddur, f. 1945.
Árið 1974 kvæntist Þór Herdísi Stefánsdóttur, f. 1951, d. 1999, sjúkraliða frá Sauðárkróki, dóttur hjónanna Guðnýjar Þuríðar Pétursdóttur húsfreyju og Stefáns Sigurðssonar skipstjóra.
Börn Herdísar og Þórs eru Stefán, f. 1974, Sigurður, f. 1978, og Þórdís, f. 1989. Synir Stefáns og Elenu Semjonovu Júrísdóttur, f. 1982, eru Daníel Semjonov, f. 2006, og Gabríel Þór, f. 2011.
Þór ólst upp í foreldrahúsum á Akureyri. Hann gekk í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann var á unglingsárum í sveit í Grímstungu í Vatnsdal og hafði sú dvöl mikil áhrif á hann, einkum kynni hans af hestamennsku. Árið 1969 lauk Þór búfræðinámi við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Hann lauk námi 1974 í setningu frá Iðnskólanum á Akureyri og starfaði í Prentverki Odds Björnssonar til ársins 1977 sem setjari og síðar offsetljósmyndari, einnig hjá Akoplasti og POB og síðast hjá Ásprenti. Eftir að starfi hans þar lauk var hann safnvörður og húsvörður við Minjasafnið á Akureyri til starfsloka 2016.
Frá unga aldri hafði Þór mikið dálæti á hestum enda alinn upp við góðhesta föður síns og þá einkum Fölska sem hann stýrði til margra verðlauna á hestamannamótum á Norðurlandi á æskuárum. Hann var einn af stofnendum og fyrsti og eini formaður hestamannafélagsins Fjölnis, sem var bindindisfélag ungra hestamanna á Akureyri, sem sameinaðist hestamannafélaginu Létti 1969. Þar var Þór varaformaður um skeið.
Þór hafði fádæma djúpa og þýða bassarödd með vítt raddsvið. Hann gekk mjög ungur til liðs við karlakórinn Geysi á Akureyri og síðar söng hann með fjölmörgum öðrum kórum þar um slóðir og þá gjarnan einsöng. Hafa komið út geisladiskar með söng hans.
Frá frumbernsku dvaldi Þór á hverju sumri á sumarbústaðarjörð foreldra sinna í Sellandi í Fnjóskadal. Þar byggði hann síðar bústað á landareigninni handa fjölskyldu sinni og kallaði Lækjarkot. Er ekki ofmælt að þar hafi verið hálfur heimur Þórs og hvergi undi hann sér betur en með hestum sínum í Fnjóskadal.
Þór var alla tíð mjög félagslyndur og átti geysistóran og fjölbreyttan vinahóp. Ófáar stundir sat umhverfis hann barnahópur og hlustaði hugfanginn á sögur hans. Í húsum hans var, að því er virtist, ótakmarkað rými til gistingar ef hópa bar að garði.
Frásagnargáfu Þórs var við brugðið. Bárust sögur hans, sagðar af munni fram, ekki aðeins til nánasta áheyrendahóps heldur einnig á öldum ljósvakans í útvarpi og sjónvarpi undir nafninu Þórssögur. Einnig ritaði hann minningapistla á netmiðla, einkum um æskuár á Akureyri, og létu lesendur óspart í ljós ánægju með þá.
Útför Þórs Sigurðssonar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 10. júní 2024, klukkan 13.