Svanur Eiríksson
Við höfum ekki rætt dauðann við neinn jafn mikið og hann Svan, afa okkar. En samt kom það okkur einhvern veginn í opna skjöldu þegar hans tími rann upp.
Allir sem þekktu afa vita að hann var einstakur karakter; sérvitur en bráðgáfaður, frekar neikvæður og kaldhæðinn en á sama tíma gífurlega fyndinn og skemmtilegur. Það sem við gátum hlegið að honum og með honum!
Það var ekki til málefni sem afi hafði ekki skoðun á. Annaðhvort var fólk eintómir snillingar eða fífl og hálfvitar. Oftar en ekki ýkti hann þessar skoðanir sínar glottandi, til þess eins að skapa heitar umræður. Af einhverjum ástæðum treysti hann okkur snemma til þess að eiga í slíkum orðaskiptum, á aldri sem aðrir hefðu kallað okkur óvita. Afi var sérlega lélegur hlustandi, sem gerði það að verkum að við þurftum að koma okkur hratt og skilmerkilega að kjarna málsins. Oft var létt að falla í þá gryfju að hækka róminn, en þegar við lítum til baka hefur þetta hvatt okkur til þess að vera betri hlustendur sjálf. Þó svo að í augnablikinu hafi okkur stundum fundist þessar skoðanir hans á öllum mögulegum hlutum pirrandi, þá styrkti þetta réttlætiskennd okkar og eiginleikann til þess færa rök fyrir máli okkar.
Við systur vorum búnar að hlakka mikið til þess að fá ömmu og afa í heimsókn til Köben í lok mánaðarins. Hann hefði gert athugasemdir við skort á almennum brunavörnum, lofsamað Picasso-slæðuna á veggnum og skammað okkur fyrir ljótasta litaval í heimi á stofuna. Arkitektinn afi var jú með löggildan smekk, eins og hann sagði sjálfur. Við höfum verið undir áhrifum af hans fagurfræði og lært að meta list, hönnun og fallega hluti.
Eins og með allt annað sýndi afi okkur væntumþykju á sinn eigin hátt. Okkur er sérstaklega minnisstætt þegar við vorum í fjölskylduferð í Flórída, þá útbjó hann litlar nælur fyrir okkur barnabörnin, sem við áttum að bera öllum stundum. Á þeim stóð á ensku: „Hjálp, ég er týnd/ur. Vinsamlegast hringið í þetta númer ...“. Eins sagði hann okkur öllum ítrekað að við værum uppáhaldið hans. Á sama tíma kallaði hann okkur oftast einfaldlega „frændi“ eða „frænka“ því hann nennti ekki að muna öll þessi nöfn okkar (hvað þá þessi fullkomlega óþörfu millinöfn). Afi hafði óbilandi trú á eigin getu og var til að mynda farinn að sjá alfarið sjálfur um hárskurð sinn með misgóðum árangri. Daginn fyrir giftingu Hildar fór hann í alvöru klippingu, einungis því hann vissi að það myndi gleðja hana.
Afi var alltaf trúr sjálfum sér. Honum var almennt séð slétt sama hvað öðrum fannst og þegar öllu er á botninn hvolft er það mikilvægasta lexían sem afi kenndi okkur.
Við munum sakna hlýja faðmlagsins hans og mjúku handanna. Við munum sakna þess að rífast við afa um borgarskipulag, Gísla Martein, heimspeki og húðflúr. Hans einstaki karakter mun skilja eftir sig tómarúm í hjörtum okkar. Takk fyrir allt, afi.
Darri, Hildur og Agnes Hólmarsbörn.