Fara í efni
Minningargreinar

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Nú þegar við stöndum frammi fyrir þeim óumflýjanlega dómi almættisins að lífsgöngu Petru Kristjánsdóttur sé lokið hér á jörð, þá reikar hugurinn til baka.
 
Hugurinn reikar til áranna sem við áttum með henni og efst í huga okkar Örnu minnar er minning um dásamlega tíma sem voru uppfullir af gleði, gáska og þær myndir ylja nú.
 
Petra Kristjánsdóttir var Eyfirðingur svo sannarlega, og fáa Eyfirðinga þekki ég sem stoltari voru af uppruna sínum og elska hennar til sinnar sveitar var svo sönn og tær væntumþykja. Þar var Saurbæjarhreppurinn hin forni efstur meðal jafningja hjá Petru og Leyningshólarnir og svæðið þar í kring voru hennar sælureitur sem hún unni umfram allt.
 
Eyjafjörður fram var hennar paradís.
 
Petra var skemmtileg kona, sá jafnan spaugilegar hliðar lífsmyndarinnar og þótt á stundum í lífi hennar hafi ekki verið auðvelt, þá barmaði okkar kona sér aldrei, heldur miklu frekar gat hún séð bjartar hliðar á tilverunni.
 
Það koma nú upp í hugann margar skemmtilegar minningar sem ylja og margar myndir koma fram í hugskot okkar, t.d reiðtúrarnir sem við fórum í saman, þar sem Petra fór á kostum, aðeins búin að dreypa á bjór og var hrókur alls fagnaðar.
 
Um Petru verður sagt með sanni að henni þótti vænt um bjórinn og stundum þegar tilefni gafst, sem var nú stundum, þá fylgdi einhvert gullkornið frá henni þegar bjórsins var neytt og setning eins og „I love it“ hraut einatt af vörum hennar.
 
Allt var þetta þó í hófi og gerði bara tilveruna bjartari og skemmtilegri.
 
Petra var ásamt Örnu minni í þeim hópi hestamanna sem lagði grunninn að hestasýningum á Samkomuhússflötinni á síðustu árum síðustu aldar og og í tvö sumur létu þær vinkonur sig ekki vanta á eina einustu sýningu á flötinni og vel voru þær vinkonur ríðandi, Petra á Kyndli sínum og Arna á Blesa. Það gerðu ekki aðrir betur.
 
Svo má heldur ekki gleyma að á árunum 1996 til og með 1998 mættu þeir vinkonur í slátt og rakstur á áhorfendabrekkunum á Hlíðarholtsvellinum og þá oft bara tvær.
 
Einnig má nefna að Petra kom að sjálfboðaliðastarfi vegna uppbyggingar Melgerðismela fyrir landsmót hestamanna.
 
Já, nú þegar komið er að kveðjustundinni þá standa eftir margar minningar sem enginn mun taka frá okkur. Þær munu halda nafni Petru Kristjáns á lofti í huga okkar og við þökkum árin sem við áttum saman.
 
Perta greindist með illkynja sjúkdóm fyrir nokkru síðan og fljótt varð ljóst að baráttan yrði hörð. Aldrei í sjúkdómsferlinu sást Petra beygja af, hún barðist til hinstu stundar og sannarlega ætlaði hún að hafa sigur til að geta verið nærri ömmubörnunum sínum sem hún elskaði og dáði, og það var aðdáunarvert í veikindum hennar að sjá hve lengi hún tók þátt í starfi barnanna við leik og störf og sannarlega er það huggun nú fyrir fjölskyldu Petru að hafa átt þessar ómetanlegu stundir.
 
Kæra fjölskylda Petru Benediktu Kristjánsdóttur frá Leyningi í Saurbæjarhreppi hinum forna. Gengin er góð kona og huggun harmi gegn að allar hennar þrautir eru nú að baki, og við henni taki nú mót við hliðið inn í eilífðina, altygjaður Kyndill og þau þeysa saman um himinhvolfið, kannski eru sýningar á flötinni þar? En trúum því um leið að þá muni Petra, mamman, amman og vinkonan vaka yfir vegferð ykkar hér á jörð.
 
Ég og Arna mín sendum dætrum Petru, barnabörnum, okkar kæru vinkonu Áslaugu systir Petru, sem og öllum öðrum ástvinum hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.
 
Guð blessi ykkur öll.
 
Sigfús Ólafur Helgason

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01