Fara í efni
Minningargreinar

Tony Byrne

Írski presturinn, Tony Byrne, sem í áratugi tengdist mörgum Íslendingum afar sterkum böndum, lést fyrr á þessu ári, 92 ára að aldri. Góður vinur er þar genginn, einstakur maður sem helgaði sig hjálpar- og mannúðarstarfi nær alla starfsævina.

Byrne var fæddur í Dublin á Írlandi árið 1931. Hann nam vélaverkfræði ungur að árum en fór síðan aðra leið í lífinu, lærði heimspeki og guðfræði, síðan félagsfræði og trúarbragðafræði og lauk löngu síðar doktorsprófi í guðfræði.

Hann starfaði lengi fyrir kaþólsku kirkjuna og sérhæfði sig í því að aðstoða fólk sem hafði verið í sjálfsvígshugleiðingum og börn sem orðið höfðu fyrir einelti. Tony og írsk nunna, systir Kathleen Maguiere, héldu m.a. fyrirlestra hér á landi um þessi málefni.

Eftir að hafa unnið við hjálparstörf og góðgerðarmál af ýmsu tagi um víða veröld í áratugi sneri hann heim á ný fyrir þremur árum og bjó á hjúkrunarheimili nunnanna í Little Sisters of the Poor, þar sem hann lést.

Tvær vélanna sem Arngrímur Jóhannsson og fleiri flugu á milli Sao Tome og Biafra meðan á borgarastyrjöldinni stóð. 

Byrne bar mikinn hlýhug til margra Íslendinga, hafði reyndar oft orð á því að hann stæði í þakkarskuld við þjóðina alla vegna framlags hennar til hjálparstarfs meðan stóð á hörmulegri borgarastyrjöld suður í Afríku frá 1967 til 1970. Þjóðflokkur í austurhluta Nígeríu sagði skilið við sambandsríkið og stofnaði sitt eigið, Biafra, ríkisstjórn Nígeríu sætti við ekki við það og einsetti sér í raun að svelta fólkið þar í hel.

Tony Byrne stjórnaði neyðaraðstoð í Biafra á vegum norræna kirkjusambandsins. Hann hafði aðsetur á Sao Tome, lítilli eyju í Gíneuflóa, skammt undan Nígeríu, og þaðan var flogið oft á hverri nóttu misserum saman með matvæli, lyf og önnur hjálpargögn. Þarna kynntumst við. Þorsteinn Jónsson, Steini flug, stjórnaði hjálparfluginu og ég starfaði undir stjórn hans, fyrst sem flugvirki og síðar flugmaður hjá Flugfélagi Jesú krists, eins og við kölluðum það í daglegu tali; á ensku var neyðaraðstoð kirkjusambandsins kölluð Joint Church Aid og flugstarfsemin JCA, sem við nefndum auðvitað Jesus Christ Airlines.

Þrátt fyrir linnulitlar árásir nígeríska stjórnarhersins meðan á fluginu stóð sluppu allir Íslendingar lifandi frá þeim hildarleik þótt oft hafi munað mjóu. Ef til vill höfðu æðri máttarvöld eitthvað um það að segja, trúin á hið góða var að minnsta kosti yfir og allt um kring þar sem Tony Byrne var annars vegar. Nú er hann floginn yfir í aðra vídd, saddur lífdaga, eftir farsæla og fallega ævi.

Blessuð sé minning vinar míns, Tony Byrne.

Arngrímur B. Jóhannsson

Arngrímur B. Jóhannsson og Tony Byrne í flugskýli Arngríms á Akureyrarflugvelli árið 2014.

Jan Larsen

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
16. janúar 2025 | kl. 18:00

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00