Sigurður Hermannsson
Snemma morguns fyrir rétt um tveimur mánuðum síðan var fámennur hópur gesta samankominn á Akureyrarflugvelli að fylgjast með þegar fyrstu millilandafarþegarnir fengu að fara í gegnum nýja viðbyggingu við flugstöðina. Sigurður Hermannsson var að sjálfsögðu í þeim hópi enda alltaf aufúsugestur á flugvellinum.
Það ríkti mikil gleði þennan morgun og nýbyggingin tók vel á móti farþegunum. Sigurður hafði samt á orði við mig að það þyrfti að fara að huga sem fyrst að enn frekari stækkun stöðvarinnar. Við Hjördís, Siggi og Haukur Hauksson fórum svo yfir í flugvallarþjónustuna í molakaffi, þar var haldið áfram að spjalla. Þegar litið er til baka þá var þetta ómetanleg kaffipása með þeim félögum; farið var vítt og breitt yfir flugmálin, verklegar framkvæmdir fyrri tíma og framtíðar, aðflugsferla, landsins gagn og nauðsynjar og lífsins amstur.
Sigurður var alltaf mikill áhugamaður um vöxt og velgengni flugvallarins og að ná beinu flugi frá Evrópu til Akureyrar. Og nú eru vonandi runnir upp þeir tímar að ávöxtur erfiðisins fari að skila sér og að ný gátt opnist enn betur að landinu og hinum fjölmörgu seglum Norðausturlands.
Sigurður var starfsmaður Flugmálastjórnar, Flugstoða og síðar Isavia í fimmtán ár eða frá árinu 1997 til ársins 2012. Hann var farsæll flugvallarstjóri og fylginn sér. Á hans starfstíma eða á árunum 2007 -2009 var flugbrautin lengd til suðurs og aðflugsbúnaður endurbættur og það var verkefni sem Siggi hafði barist lengi fyrir. Eftir að starfsævinni lauk beitti hann sér fyrir fjölmörgum verkefnum í þágu flugvallarins sem sannur hollvinur Akureyrarflugvallar.
Sigurði Hermannssyni færum við okkar bestu þakkir fyrir vel unnin störf í þágu flugmála á Íslandi.
Fjölskyldu Sigurðar sendum við hlýjar samúðarkveðjur og blessuð verði um ókomin ár minning þessa góða manns.
F.h. Isavia Innanlandsflugvalla
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Hjördís Þórhallsdóttir